135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

friðlandið í Þjórsárverum og verndun Þjórsár.

48. mál
[18:14]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að segja að hluti af þessum spurningum virkar á mig eins og útúrsnúningur. Ég treysti sveitarstjórnarmönnum, það er ekkert vandamál. Ég treysti þingmönnum, ekki er það nú vandamál heldur. En ég hef sem þingmaður ekki vit á öllu. Þess vegna kallar þingið fyrir þingnefndir ýmsa sérfræðinga og svo met ég það sem kemur út úr því. (ÓN: Sveitarstjórnarmenn geta gert það.) Sveitarstjórnarmenn geta gert það, segir hv. þm. Ólöf Nordal. Þeir hafa ekki ráð á því, 50–200 manna sveitarfélag hefur ekki ráð á því eins og sveitarfélögin í dag eru fjársvelt að kalla til óháða, nýja sérfræðinga. Það er ekki flóknara, já, og leggja nýtt faglegt mat á þau gögn sem liggja fyrir. Það er svo einfalt. Sveitarstjórnirnar í dag hafa ekki efni á því að sinna skyldum sínum á landsbyggðinni við fólkið vegna þess að ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokksins hafa lagt sveitarfélögin í fjársvelti.

Ég treysti sveitarstjórnarmönnum fullkomlega, og það er algjör óþarfi að vera að snúa út úr því, og reyna að kasta einhverjum keilum á loft um að einhver misklíð sé á milli mín og þeirra eða vantraust, það er bara fjarri því. Ég krefst þess hins vegar að sveitarstjórnirnar hafi þann fjárhag að geta tekið á þeim verkefnum sem þeim eru falin í dag. Ég ítreka það, þetta eru hnattræn verkefni. Það má ekki loka af ákvörðun um tvær efri virkjanirnar sem liggja í Skeiða- og Gnúpverjahreppi og Flóahreppi, það má ekki leggja það svona einangrað inn í umræðuna, það er bara útilokað.