135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

friðlandið í Þjórsárverum og verndun Þjórsár.

48. mál
[18:30]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, skyldi það vera? Það er ágætisspurning. Ég held samt ekki, ég held að álbræðslurnar fái allt sem þær ásælast á Íslandi á útsöluverði, það sé ekki lagt í nokkurn skapaðan hlut sem eykur á kostnað þeirra. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um Hellisheiðina, Svínahraunið, Hengilssvæðið og annað, þar er búið að raska allt of miklu. Ég vona að það verði stöðvað og ég geri mér góðar vonir til þess.

Við þurfum að taka af skarið. Ég spyr: Hver er þörfin? Vorum við að fara norður og niður, þessi þjóð? Vorum við í slíku neyðarástandi að það réttlætti það að fórna landi með óafturkræfum hætti? Ég segi nei. Hv. þm. Árni Johnsen sagði: Það er ein þjóð í einu landi. Eftir að ég fór að blanda mér í flokkspólitík, hafandi verið í pólitík áratugum saman en ekki í flokkspólitík, í okkar kjördæmi, Suðurkjördæmi, hallast ég að því og er eiginlega kominn með þá fullvissu að það séu tvær þjóðir í einu landi. Ein býr á höfuðborgarsvæðinu og í grennd og hin á landsbyggðinni.

Við hlýddum á langt og fróðlegt erindi frá bæjarstjóranum í Vestmannaeyjum, Elliða Vignissyni, í gær og Binna í Vinnslustöðinni um það að Vestmannaeyingum og íbúum Suðurkjördæmis væri mismunað. Það hef ég líka margsinnis sagt. Íbúar á landsbyggðinni sitja ekki við sama borð, það eru tvær þjóðir í þessu landi, því miður. Það er miklu brýnni þörf á að breyta því en að eyðileggja Þjórsá.