135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

eignarhald á jörðum.

152. mál
[13:42]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég held að hér sé meira alvörumál á ferðinni en hæstv. landbúnaðarráðherra vill gera úr um uppkaup á bújörðum, uppkaup á landi, söfnun á fárra manna hendur og svo hátt verð. Auðvitað er gott að einstaklingurinn geti fengið gott verð fyrir sína jörð. En ef við horfum til heildarinnar og horfum til framtíðar, hvernig sjáum við endurnýjunina í íslenskum landbúnaði? Þetta getur gengið yfir meðan þessi kynslóð er en ef endurnýjunin á að ná að ganga fram með því að fara að kaupa jarðnæðið sjálft á tugi milljóna króna eða hundruð milljóna þá er eftir að koma upp búskap, þá er eftir að kaupa eða koma upp mannvirkjum til landbúnaðarframleiðslunnar og svo framvegis. Ég held að það sé áhyggjuefni og ég skora á hæstv. landbúnaðarráðherra að taka á þessum málum og skoða þau af alvöru en ekki bara hlaupa hér undan í flæmingi og segja: „Jú, við skulum skoða málin og þetta er sennilega bara allt gott svona.“ Ég held að þetta sé miklu meira alvörumál, herra forseti.