135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

eignarhald á jörðum.

152. mál
[13:44]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég deili ekki þeim áhyggjum sem þingmenn hafa hér lýst. Þegar ég kom inn á þing fyrir allmörgum árum síðan voru margar umræður um stöðu íslenskra bænda. Eitt af því sem var helsta umkvörtunarefnið þá var að bændur gætu ekki hætt búskap og selt sínar jarðir nema fá fyrir andvirði sem varla dygði fyrir kjallaraholu í Reykjavík. Er það ekki gleðiefni að frjáls viðskipti hafi leitt til þess að íslenskir bændur, ef þeir kjósa svo, geta látið af sínum störfum og haft töluvert upp úr sínu jarðnæði? Mér finnst það vera ákaflega jákvætt. Ég veit að þetta hefur haft ákveðið óhagræði í för með sér fyrir ákveðna tegund bænda eins og sauðfjárbændur þar sem eignarhald verður slitrótt. Á svæðum þar sem sauðfjárrækt er geta ýmsir hlutir orðið erfiðir eins og fjallskil. Samt sem áður verð ég að segja þegar ég reyni að vega þetta og meta að þá tel ég að kostirnir séu töluvert meiri en ágallarnir. Ég held að við þurfum alla vega að sjá þróunina ganga lengra (Forseti hringir.) og verða óheillavænlegri en hún er orðin nú þegar til þess að ég geti leyft mér að taka undir það sem hér hefur verið sagt af ýmsum þingmönnum.