135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

eignarhald á jörðum.

152. mál
[13:50]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. landbúnaðarráðherra fyrir ágæt svör við þeim fyrirspurnum sem ég lagði fram og jafnframt þeim þingmönnum sem tóku þátt í þessari ágætu umræðu.

Það vakti athygli mína í svari hæstv. ráðherra að sú breyting sem gerð var á jarðalögunum á sínum tíma hefur ekki valdið straumhvörfum í þeirri þróun sem hefur átt sér stað á undanförnum árum. Það er ekki alveg í takt við þá umræðu sem hefur verið í samfélaginu. Menn hafa verið að ýja að því að í þeirri breytingu séu upptökin að mikilli söfnun auðmanna á jörðum. Svar ráðherra var því mjög athyglisvert.

Í raun og veru hefur þessi umræða vakið fleiri spurningar frekar en að hún hafi veitt svör. Við þurfum að svara spurningum um það hvernig endurnýjun og nýliðun í bændastétt verði háttað í framtíðinni í ljósi gríðarlega hás verðs á jörðum. Við þurfum líka að svara því hvort tími sé kominn til að menn hugi að tvöfaldri búsetu þannig að þau sveitarfélög þar sem svokallaðar frístundabyggðir eru eigi möguleika á að fá hlutdeild í fjármagnstekjuskattinum. Það fylgir því jú alltaf einhver kostnaður að halda úti byggð.

Hv. þm. Bjarni Harðarson kom með athyglisvert innlegg í þessa umræðu, hvort á einhvern hátt sé verið að skerða aðgengi almennings að landsvæðum þegar menn safna að sér jörðum og girða þær í einhverjum tilvikum vel af. Við þurfum að huga að þessu og ég held að þetta eigi eftir að koma aftur til umræðu á hv. Alþingi.

Ég vil þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svörin. Ég er mjög ánægður með (Forseti hringir.) að hæstv. ráðherra ætlar að halda vöku sinni með þeirri þróun sem á sér stað og mun eiga sér stað í þessum efnum.