135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

eignarhald á jörðum.

152. mál
[13:52]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram. Hún hefur verið málefnaleg og það er ekkert óeðlilegt við að menn velti aðeins fyrir sér þeirri þróun sem hefur hafist í þessum efnum. Ég verð hins vegar að vekja athygli á því að ekki er bæði hægt að sleppa og halda. Ef menn fagna því frá sjónarhóli dreifbýlisins og bænda að þeir fái hærra verð, geta menn ekki líka harmað að það leiði síðan til þess að erfiðara verði fyrir þá sem ætla að kaupa jörð að hefja búskap. Annaðhvort þarf að verða ofan á. Ef jarðirnar eru ódýrar eiga menn auðvelt með að komast yfir þær en það hefur þau áhrif að eignir bænda verða sem því nemur rýrari.

Menn mega heldur ekki gleyma því, sem ég hef verið að reyna að undirstrika, að jarðir hafa ekki bara hækkað í verði, eignaverð á Íslandi hefur almennt hækkað. Ef við værum í þeirri stöðu að reyna að koma í veg fyrir að eignir bænda, þ.e. jarðir þeirra, hækkuðu í verði hefði það þau áhrif að þeir stæðu höllum fæti fyrir öðrum íbúum landsins sem njóta eignahækkunar á margvíslegan hátt.

Við erum ekki í þeirri stöðu, sem margir hafa ímyndað sér, að það sé að hellast hér yfir okkur gríðarleg samþjöppun í jarðakaupum. Þær tölur sem við sjáum benda alls ekki til þess. Það sem er hins vegar að gerast er það m.a. að fjölbreyttari atvinnusköpun er að verða í sveitunum þannig að við sjáum annars konar búsetu. Jafnvel er verið að byggja upp að nýju jarðir sem hafa farið í eyði. Það er jákvætt og það er það sem við höfum viljað. Við höfum viljað fá fólk í sveitirnar til þess að skapa atvinnu, til þess að skapa verðmæti, til þess að fólk vilji flytja aftur í sveitirnar. Það má ekki bera okkur saman við nágrannalönd eins og Danmörku þar sem nánast hver einasti lófastóri blettur er manngerður. Við erum ekkert í þeirri stöðu og sá samanburður á því alls ekki við.

Að lokum þetta. Athyglisverður punktur kom fram hjá hv. þm. Bjarna Harðarsyni varðandi álfa, huldufólk og drauga. Ég er að vísu ekki vel (Forseti hringir.) kunnugur þeim efnum. En ég hef aldrei vitað til þess að álfar, huldufólk og draugar kynnu ekki sæmilega við sambýli við auðugt fólk.