135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

veiðar Færeyinga innan íslensku fiskveiðilögsögunnar.

179. mál
[13:55]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Grétar Mar Jónsson) (Fl):

Herra forseti. Ég ber fram fyrirspurn um fiskveiðar Færeyinga við Ísland.

1. Hver var heildarafli Færeyinga á Íslandsmiðum síðastliðin tvö fiskveiðiár og hver er staðan nú á fiskveiðiárinu 2007/2008?

2. Hvernig skiptist aflinn eftir tegundum?

3. Hvaða veiðarfæri voru notuð við veiðarnar?

4. Hvernig er eftirliti með veiðunum háttað?

5. Hefur verið beitt svonefndum skyndilokunum gagnvart veiðum Færeyinga?

6. Hversu oft á fyrrnefndu tímabili hefur verið farið um borð í færeysk skip til eftirlits og afli og veiðarfæri skoðuð?

7. Hversu oft hafa verið gerðar athugasemdir í skoðunarferðum?

8. Hefur komið til leyfissviptinga vegna brota á reglum?

9. Hvar er afla Færeyinga af Íslandsmiðum landað?

10. Er eitthvert eftirlit með löndunum?

Þær mótvægisaðgerðir sem gripið var til vegna niðurskurðar á þorski bitna hart á fólki á landsbyggðinni og í sjávarbyggðunum hringinn í kringum landið, og það er tilefni þessara spurninga. Ég spyr hvort við höfum hreinlega efni á að leyfa Færeyingum að veiða á Íslandsmiðum. — Minni atvinna er fyrirsjáanleg og lægri tekjur hjá bæði sjómönnum og fiskvinnslufólki. Því er vert að skoða í alvöru hvort þeir samningar sem við höfum gert við Færeyinga, fiskveiðisamningar, séu réttlætanlegir á meðan við þurfum að skera niður veiðiheimildir í miklum mæli.

Eftirlitinu hefur stundum verið talið ábótavant. Skipstjórar sem hafa verið að fiska við hliðina á færeyskum bátum hafa oft og tíðum talað um að þeir hafi verið með aðra aflasamsetningu en Færeyingarnir. Færeyingarnir hafa oft náð að drýgja veiðiheimildir, sem þeir hafa haft, mjög lengi og miklu betur en íslenskum sjómönnum hefur tekist að gera. Þess vegna ber ég fram þessar spurningar og vænti góðra svara frá ráðherra.