135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

íbúaþróun utan höfuðborgarsvæðisins.

214. mál
[14:17]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að hæstv. byggðamálaráðherra á erfitt með að svara þeirri spurningu sem hér er að honum beint. Það er mikið áhyggjuefni hvernig staðan er á landsbyggðinni í dag og mjög mikið óhagræði felst í því að það verði frekari fólksflutningar hingað á höfuðborgarsvæðið. Það er mjög óhagkvæmt að horfa upp á tóm hús, tóma skóla, tómar sundlaugar o.s.frv. þannig að þetta er samfélagsverkefni sem við verðum að takast á við. Auðvitað urðu það mjög mikil vonbrigði fyrir flestalla landsmenn þegar við sáum mótvægisaðgerðirnar sem ríkisstjórnin greip til vegna þorskaflasamdráttar. Þær mótvægisaðgerðir voru allt of veikar og ómarkvissar. Ég tel að það þurfi að gera miklu betur í þessum málum, virðulegur forseti. Við eigum ekki að horfa fram á að það dragi frekar í sundur með höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni. Við verðum að sporna við því af því að annað er mjög óhagkvæmt fyrir okkur öll.