135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

íbúaþróun utan höfuðborgarsvæðisins.

214. mál
[14:22]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni fyrir að koma með þessa tímabæru fyrirspurn. En með sama hætti verður að segja það varðandi iðnaðarráðherra að það sem kemur fram hvað skýrast í svörum hans er að ríkisstjórnin er ekki að marka neina langtímastefnu um það hvernig menn telja að eigi að haga byggðaþróun í þessu landi. Það sem skín út úr þessum svörum er að það er engin langtímastefnumörkun til. Það er engin hugmynd. Og hér stóð iðnaðarráðherra áðan í volæði sínu og segir að hann sé hugsanlega spámannlega vaxinn en hann geti ekki spáð fyrir um það hvernig hlutirnir eigi að vera og ber síðan fyrir sig að ákveðin stofnun hafi ekki gefið honum svör sem sýnir það að ríkisstjórnin er nákvæmlega ekkert að gera í málinu heldur hefur birt ákveðna yfirlýsingu (Forseti hringir.) um mótvægisaðgerðir sem er áróðursplagg án eða með mjög takmörkuðu innihaldi eins og ég skrifaði um á bloggsíðu mína.