135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

flutningsgeta byggðalínu.

217. mál
[14:34]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Gríðarlegar breytingar hafa orðið á umhverfi raforkumála í landinu á undanförnum árum. Alþingi samþykkti fyrir fáeinum árum ný raforkulög, nr. 65/2003, þar sem samkeppni var boðuð í framleiðslu og sölu á raforku. Markmið laganna er að stuðla að þjóðhagslega hagkvæmu raforkukerfi og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu. Í því hlýtur að felast að menn hafi sem jafnastan rétt á afhendingu rafmagns hvar sem þeir eru staddir og hlutverk flutningsfyrirtækisins er að byggja slíkt kerfi. Þó ber að hafa í huga að arðsemiskrafa er á flutningsfyrirtækinu, þannig að auðvitað mun framkvæmda í línulögnum sjá stað í gjaldskrá fyrirtækisins.

Kunnara er en frá þurfi að segja hve umdeildar þessar breytingar voru á sínum tíma og voru sumir, sérstaklega á síðari stigum, á þeirri skoðun að ástæða hefði verið til að fá undanþágu frá tilskipun ráðsins 96/1982 sem varðar frelsi á raforkumarkaði. Ég ætla ekki að blanda mér í þá umræðu hér. Hins vegar er það bjargföst skoðun mín að þær breytingar sem raforkulögin boðuðu hafa gert orkufyrirtækjunum í landinu gott. Menn hafa horft nokkuð öðrum augum á þennan rekstur en áður.

Hins vegar hefur reynslan kennt okkur að við þurfum að ganga enn lengra í aðskilnaði einkaleyfis, það er flutnings og dreifingar rafmagns frá samkeppnisrekstrinum. Bæði vegna nýrra raforkulaga og vegna þess hvað orkuauðlindir okkar eru dýrmætar er ástæða til að skoða hvort sú raforka sem við framleiðum í dag nýtist að fullu. Í tíð eldri löggjafar var sú skylda lögð á Landsvirkjun að hafa ávallt til staðar næga raforku í flutningskerfi sínu. Raunar hefur það verið þannig að töluverð umframorka hefur flotið í kerfinu. Menn fóru varlega í því að skipuleggja kerfið þannig að hætta væri á skorti.

Nú er öldin önnur. Ef framleiðslueiningar orkufyrirtækjanna geta framleitt meira en hægt er að flytja, tel ég það skyldu okkar að kanna hvort hægt sé að flytja rafmagnið með því að efla flutningskerfið og meta það um leið og nýir virkjunarkostir eru skoðaðir.

Heimamenn á Húsavík hafa lengi barist fyrir auknum atvinnutækifærum og eitt er víst, að Húsvíkingar verða seint sakaðir um að standa ekki vaktina í leit að verkefnum fyrir héraðið. Mikill vilji er nú til þess að virkja þá orku sem til staðar er á Norðausturlandi til að selja hana til uppbyggingar álvers. Landsvirkjun vinnur nú að rannsóknum á jarðhitasvæðunum í Kröflu, Þeistareykjum og athugunum á Gjástykki.

Mér finnst ástæða til þess að spyrja að því — vegna þess hve tímafrekar svona framkvæmdir eru og vegna þess að Húsvíkingar hafa ekkert endalausan tíma til að bíða, fólk er þegar farið að hverfa í burtu — hvort möguleiki sé að flýta framkvæmdum, t.d. með því að kanna hvort hægt sé að flytja meiri orku inn á svæðið en nú er til staðar. Í því efni þarf að skoða hvort hægt sé að nýta betur núverandi línur eða hvort byggja þurfi nýja línu í þessum tilgangi.

Þess vegna spyr ég hæstv. iðnaðarráðherra, í fyrsta lagi: Hver yrði flutningsgeta byggðalínu og hversu mikil orka yrði til aflögu á tengipunktum á Norðausturlandi ef byggðalínan yrði spennt upp í 220 kílóvolt?

Og í öðru lagi: Hver yrði flutningsgeta (Forseti hringir.) sömu línu ef slík 220 kílóvolta lína yrði byggð?