135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

flutningsgeta byggðalínu.

217. mál
[14:40]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ólöf Nordal) (S):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir þessi skýru svör. Það er sérstaklega áhugavert að ný lína gæti aukið flutninginn allt upp undir 1000 megavött, þá er nú sennilega átt við að línan yrði jafnvel enn þá öflugri en 200, hún yrði þá væntanlega 400 kílóvatta lína. En það skiptir ekki öllu máli.

Mér finnst í þessu sambandi áhugavert að draga það fram að við gætum hugsanlega verið að horfa á næstum því heila virkjun fljótandi í kerfinu. Við gætum a.m.k. verið að horfa á eina aflvél í stórri virkjun, fljótandi í kerfinu.

Nú verður náttúrlega að gæta að því að það verður líka að hafa öryggi raforkukerfisins til hliðsjónar þegar maður veltir fyrir sér hvað er hægt að flytja. Það verður alltaf að gera ráð fyrir því að eitthvað komi upp á í kerfinu og virkjanir séu þá tiltækar vegna slíkra aðgerða, varúðarsjónarmiða verður að gæta vegna þess að það er alltaf kannski ákveðin hætta á því að keyra kerfið í meiri skort. En það er alveg ljóst að í þessu nýja raforkukerfi eru kannski frekari forsendur til þess en oft áður að keyra kerfið harkalegar en gert var í tíð eldri kerfis.

Gjaldskráin er mjög mikilvægur þáttur í raforkulögunum. Það er gert ráð fyrir því að flutningsgjaldskráin standi í raun og veru undir öllum kostnaði og þá er dálítið áhugavert að velta fyrir sér tilgangi flutningskerfisins í raforkunni. Þetta er náttúrlega vegakerfi. Þetta er þjóðvegakerfi. Að vissu leyti má segja að sumt hafi ekki verið klárað áður en raforkumarkaðurinn var opnaður, sem hefði kannski verið klárað annars.

Það má velta fyrir sér að sumar línur eru kannski þess eðlis að það sé hálfpartinn óþægilegt að sú skylda sé svo fortakslaus í raforkulögunum að það eigi að fara inn í gjaldskrána, þótt ég geri mér fulla grein fyrir því að þannig sé það.

Ég vil bara varpa þessu fram til umhugsunar inn í iðnaðarráðuneytið (Forseti hringir.) núna þegar ég veit að menn eru að skoða þessi mál.