135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

raforkuframleiðsla.

219. mál
[14:55]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Fyrirspurnin mín er tengd fyrri fyrirspurnum á þskj. 235 og 236 og má segja að hún sé lokaspurning í þríleik mínum í dag. Enn og aftur vitna ég til raforkulaga, nr. 65/2003, og minni á markmið þeirra, að stuðla að þjóðhagslega hagkvæmu raforkukerfi og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu öllu.

Markmið mitt er að draga fram hvernig nýta megi betur raforku sem mögulegt er að framleiða í landinu í núverandi virkjunum, sem hlýtur að vera bæði hagkvæmasti og ekki síst umhverfisvænsti virkjunarkosturinn sem völ er á. Einnig er það í samræmi við stefnu stjórnvalda um sjálfbæra nýtingu orkuauðlinda.

Það liggur fyrir að á núverandi flutningskerfi eru verulegar takmarkanir á einstökum stöðum, t.d. á milli Norður- og Suðvesturlands, á byggðalínu frá Brennimel til Blöndu og til að mynda frá Fljótsdal að Sigöldu. Þessar takmarkanir hafa m.a. haft það í för með sér að Blöndustöð er ekki rekin á fullum afköstum. Eins eru virkjanir sem keyrðar eru meira yfir veturinn en á sumrin þegar notkunin er sem allra mest en við vitum að gríðarlegir toppar eru á raforkunotkun, sérstaklega á aðfangadagskvöld en hins vegar mun minni notkun á sumrin. Allt þetta skiptir máli vegna þess að raforkukerfi verður að vera búið undir að geta tekist á við toppana.

Þetta vekur spurningar um hvort mögulegt sé að ná meiri raforku út úr framleiðslueiningunum á hverjum stað. Jafnvel þótt við vitum ekki hvort sá möguleiki sé fyrir hendi er ástæða til að kanna það. Þegar við horfum á nýjar fjárfestingar í raforkukerfinu er skynsamlegt að athuga í leiðinni hvort ódýrara og gáfulegra sé, út frá umhverfissjónarmiðum, að fullnýta þær fjárfestingar sem þegar eru fyrir hendi. Að þessu snýr fyrri hluti spurningar minnar.

Síðari hluti spurningar minnar snýr að því hvort ekki sé tækifæri til að lækka enn frekar raforkuverð til almennra neytenda og smærri fyrirtækja í landinu með því að byggja upp flutningskerfið og nota þá uppbyggingu til að laða að nýja stórnotendur, t.d. netþjónabú. Þess vegna spyr ég hæstv. iðnaðarráðherra tveggja spurninga:

1. Væri að öðru óbreyttu hægt að auka raforkuframleiðslu í einstökum virkjunum ef flutningskerfi raforku væri eflt?

2. Hvað kostar að virkjun sé ekki fullnýtt og hvað kostar að bæta úr því?