135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

raforkuframleiðsla.

219. mál
[14:58]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Svarið við fyrri spurningu hv. þingmanns er já. Að öllu óbreyttu væri hægt að nýta framleiðslugetu einstakra virkjana betur og mætti jafnvel auka framleiðslu þeirra ef flutningskerfið væri eflt. Þannig hefði t.d. mátt framleiða rafmagn í vatnsaflsvirkjunum á Suðurlandi fyrir álver í Reyðarfirði þegar tafir urðu á afhendingu raforku frá Fljótsdalsstöð ef öflugra flutningskerfi hefði verið sett upp, annaðhvort með nýjum flutningslínum eða endurbótum á byggðalínu. Þeirri raforkuframleiðslu hefði hins vegar þurft að mæta síðar með aukinni framleiðslu í Fljótsdalsstöðinni, en aukinn flutningur sunnan að til Reyðarfjarðar hefði gengið á vatnsbirgðirnar sunnan lands.

Það verður að undirstrika það, sem reyndar hefur komið fram hjá hv. þingmanni í ýmsum spurningum hennar í dag, að kostnaðurinn sem hlýst af fjárfestingum í bættu flutningskerfi er borinn af öllum landsmönnum og getur þess vegna leitt til hærra almenns orkuverðs. Það ræðst að nokkrum hluta af flutningskostnaði sem rennur til Landsnets. Ábatinn sem hlýst af kostnaði af fjárfestingum í flutningskerfinu fyrir stórnotendur verður þess vegna ekki síst að vega á móti áhrifum á almennt orkuverð til annarra í landinu. Þetta verða menn að hafa í huga.

Ég undirstrika það líka, út af spurningu hv. þingmanns og fleiri spurningum í dag, að samkvæmt mati Landsnets fullnægir flutningsgeta byggðalínu í dag þeirri raforkuþörf sem til staðar er. Það er rétt að vekja athygli á því að línan er nánast fullnýtt og getur ekki borið miklu meiri orku en hún gerir núna. Í því sambandi vil ég sérstaklega, sem iðnaðarráðherra og áhugamaður um uppbyggingu fjölbreytts iðnaðar hér í landinu, nefna að í samningum um aflþynnuverksmiðjuna á Akureyri í sumar var kveðið á um að komið gæti til tímabundinna skerðinga þangað til flutningskerfið hefur verið styrkt. Það er líka alveg rétt að það komi fram að Landsnet hefur þurft að grípa til takmörkunar á framleiðslu í Blöndu vegna tímabundinna flutningstakmarkana. Flutningsgeta byggðalínu hefur ekki verið næg og það er náttúrlega ekki gott ástand. Þess vegna er Landsnet farið að huga að frekari fjárfestingu.

Svo spyr hv. þingmaður: Hvað kostar að virkjunin sé ekki fullnýtt og hvað kostar að bæta úr því?

Þessi kostnaður hefur ekki verið kannaður. Þetta er eins og með Byggðastofnun fyrr í dag. Þegar iðnaðarráðherra spyr Landsvirkjun um þessa hluti þá getur hún ekki gefið upplýsingar um sinn eigin kostnað af þessum sökum vegna þess að það er ekki vitað hvað takmörkun á framleiðslu í Blöndu vegna flutningstakmarkana kostar Landsvirkjun. Þar af leiðandi er ekki hægt að bera saman þann ávinning sem fælist í fullnýtingu tilgreindra virkjana við kostnaðinn sem hlytist af styrkingu flutningskerfisins til að flytja aukninguna til notenda. Ábatinn af slíku liggur ekki fyrir meðan þetta er ekki kannað af eigendum virkjana og Landsneti.

Hins vegar kann að vera að sú lagaheimild sem er að finna í raforkulögunum, um að setja upp raforkumarkað, geti leitt þetta í ljós. Það á að hrinda þeim raforkumarkaði af stokkunum á næsta ári og þá skapast, þegar hann verður þroskaður, aðstæður til að meta þetta í skjótri hendingu. Þá yrði kostnaðurinn sýnilegur og þá sjá menn hverju þeir eru að tapa.

Landsnet hefur í samræmi við skyldur sínar skoðað hvaða möguleikar eru hagkvæmastir til þess að styrkja flutningskerfið, bæði byggðalínuna í heild og einstök svæði. Samkvæmt upplýsingum frá Landsneti er kostnaður við spennuhækkun og endurbyggingu byggðalínunnar úr 132 í 220 kílóvolt, sem gæfi 100 megavatta aukna flutningsgetu, áætlaður 22 milljarðar. Svo getur hv. þingmaður, af því að hún er glögg að reikna, reiknað út hvort í þessu kunni að felast besti virkjunarkosturinn í dag miðað við ríkari vatnsstöðu og spár um hugsanlega 10% meira vatn af jöklum vegna hlýnunar. Allt eru þetta atriði sem þarf að taka tillit til.

Nýr 220 kílóvolta byggðalínuhringur, miðað við 300 megavatta flutningsgetu, er áætlað að kosti 34 milljarða kr. Í þessu samhengi má líka geta þess til fróðleiks að Landsnet hefur gert útreikning á kostnaði við svokallaða hálendislínu, sem ekki hefur alls staðar mætt miklum fögnuði. Landsnet hefur áætlað að bygging hálendislínu (Forseti hringir.) kosti 10 milljarða ein sér en ásamt spennuhækkun byggðalínunnar geti kostnaðurinn samtals numið sem svarar 32 milljörðum kr., hæstv. forseti.