135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

raforkuframleiðsla.

219. mál
[15:03]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Hv. fyrirspyrjandi tekur hér athyglisverða afstöðu gagnvart uppbyggingu raforkukerfisins, að öryggi raforkukaupenda muni aukast ef hið almenna kerfi hafi meiri flutningsgetu en nú er og ég tek undir það. Það er öryggismál að bæta úr því. Það er líka öryggismál að hafa framleiðsluna á fleiri stöðum en nú er þannig að hamfarir á einu svæði muni ekki taka úr sambandi framleiðslu og of stóra framleiðslu inn á kerfið.

Það er líka hagkvæmt að mínu viti, virðulegi forseti, að auka öryggið, t.d. með því að virkja á Vestfjörðum. Flytja þarf mikla orku inn á svæðið en jafnvel þótt sá virkjanakostur sé ekki sá allra hagkvæmasti gæti verið ávinningur í því, að teknu tilliti til flutningstapa. Loks vil ég benda á að einnig getur verið ávinningur í að auka framleiðsluna á höfuðborgarsvæðinu þannig að minna þurfi að flytja norður og Blanda verði laus (Forseti hringir.) til atvinnuppbyggingar á Norðurlandi vestra.