135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

raforkuframleiðsla.

219. mál
[15:04]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ólöf Nordal) (S):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir hans skýru svör við öllum spurningunum og hann svaraði þeim eins og hægt var. Ég þóttist vita að seinni hluta spurningar minnar áðan yrði vandi að svara. Þó er fróðlegt að velta fyrir sér kostnaðinum við að eitt megavatt renni út í sjó miðað við að veita því eitthvert annað. Það er í raun og veru sú spurning sem ég hef gróflega velt fyrir mér. Ég geri frekar ráð fyrir að nú þegar við komumst lengra með raforkukerfið munum við hugsa meira á þeim nótum og ég bendi á mikilvægi þess þegar kemur að sjónarmiðunum sem vegast á, nýtingu og verndun. Það skiptir verulegu máli að við nýtum það sem við höfum eins vel og við getum.

Hvað varðar flutningslínurnar og kostnaðinn við að byggja línuna, um það bil 220 millj., eins og hæstv. ráðherra sagði, getum við sagt að eitt megavatt af rafmagni kosti út úr virkjun 200 millj., út frá þumalputtareglu sem notuð er. Maður getur svo velt fyrir sér hvað út úr því kemur.

Svo má heldur ekki gleyma þeirri staðreynd að þegar Landsnet veltir fyrir sér mögulegum flutningsvirkjum viljum við að allar línur sem eru í byggð, og eins og mögulegt er, séu settar ofan í jörð. (Gripið fram í.) Það er afskaplega dýrt og óhagkvæmt og tapið mikið. Menn sjá það ekki fyrir sér sem raunverulegan kost en ég held samt sem áður að þróunin í raforkukerfinu verði ábyggilega með þeim hætti að menn reyni að leita leiða til að fá sem mest út úr þeim fjárfestingum sem fyrir hendi eru. Það er það sem ég legg áherslu á með umræðunni, að menn geri sér grein fyrir hvað við eigum, hvaða möguleika við höfum, um leið og við metum nýja virkjunarkosti og tökum ákvörðun um þá.