135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

netþjónabú.

244. mál
[15:09]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Hæstv. iðnaðarráðherra er iðinn maður og milli þess sem hann hefur aðstoðað íslensku orkufyrirtækin í orkuútrásinni hefur hann leitt hugann að málum sem tengjast því ráðuneyti sem hann veitir forstöðu, þ.e. málefnum iðnaðarins og kannski ekki síst byggðamálum. Hann hefur gefið sér ágætan tíma til að viðra þá hugmynd og þau tækifæri sem felast í stofnun netþjónabúa vítt og breitt um landið sem valkost til að efla atvinnulíf á viðkomandi stöðum. Ég ætla ekkert að draga úr því að það getur vissulega verið áhugaverður kostur að byggja upp netþjónabú vítt og breitt um landið.

Aðdragandi að spurningum þeim sem ég mun varpa fram voru þau orð sem hæstv. ráðherra viðhafði í þinginu um daginn þar sem hann sagði að ráðuneytið og stofnanir þess ættu nú í samstarfi við 10 sveitarfélög um könnun á stofnun netþjónabúa. Í framhaldi af þessum orðum velti ég fyrir mér hvaða 10 sveitarfélög það séu. Ég er viss um að mun fleiri en 10 sveitarfélög vítt og breitt um landið hafa varpað fram þeirri hugmynd að stofna netþjónabú til að styrkja atvinnulíf á viðkomandi svæðum. Það er því spurning um hvort þau sveitarfélög utan þessara 10, sem hafa vissulega hugmyndir um að efla atvinnulífið með stofnun netþjónabúa, eigi greiðan aðgang að vinnunni sem nú er í gangi á vegum ráðuneytisins í samstarfi við sveitarfélögin. Verða þau raunhæfur valkostur í þeirri vinnu?

Einnig er vert að hugsa það hvort hæstv. byggðamálaráðherra, Össur Skarphéðinsson sé með byggðagleraugun uppi þegar þessir valkostir eru skoðaðir því að í kjölfar gríðarlegs niðurskurðar á þorskveiðiheimildum vítt og breitt um land glíma mörg samfélög við mikla erfiðleika. Spurning er hvort hægt sé að koma til móts við sveitarfélögin sem glíma við þann vanda, m.a. með því að skoða möguleika á uppbyggingu netþjónabúa. Því hef ég, hæstv. forseti, lagt fram eftirtaldar spurningar til iðnaðarráðherra um netþjónabú:

1. Er flutningsgeta raforku nægileg í þeim sveitarfélögum þar sem hugsanlegt er að uppbygging netþjónabúa geti hafist? Ef svo er ekki, á hvaða svæðum hamlar ónóg flutningsgeta slíkri uppbyggingu?

2. Við hvaða sveitarfélög á ráðuneytið samstarf um hugsanlega uppbyggingu netþjónabúa?