135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

netþjónabú.

244. mál
[15:12]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Hv. þingmaður varpaði til mín tveimur spurningum en mér fannst athyglisverðust sú spurning sem hann varpaði til mín utan þingplaggsins. Hann spurði hvort ráðherrann væri með byggðagleraugun. Ég get fullvissað hv. þingmann um að hann er með byggðagleraugun alla daga. Mér finnast byggðamálin skemmtilegasti hlutinn en um leið sá langerfiðasti af mínu verki. Ég vísa bara — af því að menn hafa verið að tala um stórframkvæmdir utan Reykjavíkursvæðisins — til frumkvæðis míns varðandi hvernig ég tel að breyta eigi lögum um loftslagsheimildir og úthlutun þeirra.

Hv. þingmaður er, og ég gleðst yfir því, að tala um netþjónabú. Ég vil aðeins leiðrétta, vegna þess að menn þurfa að vera nákvæmir, að ég hef aldrei talað um að sáldra eigi netþjónabúum út um landið. Þvert á móti hef ég vakið athygli á því að forsvarsmenn þeirra fyrirtækja sem hingað hafa komið, og nokkrir hafa rætt við ráðherrann, hafa allir talað um suðvesturhornið.

Hv. þingmaður spyr hvort sveitarfélög, þar sem hugsanlegt er að uppbygging netþjónabúa geti orðið, séu nægilega raforkutengd til að hægt sé að ráðast í slíkar framkvæmdir þar. Einmitt vegna þessarar spurningar réðst Fjárfestingarstofa, sem er ein af þeim stofnunum sem iðnaðarráðuneytið hefur ítök í og greiðir hluta af rekstrarkostnaði af gegnum fjárlög, í það verkefni að kanna málið. Á þessari stundu liggja ekki fyrir upplýsingar um flutningsgetu á rafmagni til allra þeirra sveitarfélaga sem hugsanlegt er að byggja eða reka netþjónabú í eða gagnaver. Hafa ber í huga að slík fyrirtæki eru afskaplega mismunandi, misjafnlega orkufrek eftir stærð og tegund. Það eru margar tegundir gagnavera. Orkuþörf getur verið frá fáeinum megavöttum upp í 80–100 megavött, eins áður sagði. Brátt verða komnar nýjar kynslóðir netþjónabúa en þau nota raforku á tiltölulega lágri spennu og þurfa að vera annaðhvort nærri nothæfu spennuvirki eða reisa það á eigin kostnað. Þar að auki er gerð krafa um mjög mikið afhendingaröryggi sem ég túlka þannig að nánast þurfi tvöfalt flutningskerfi til þeirra. Annað mundi þá grípa inn ef hitt bilaði. Það gæti kallað á nýjar fjárfestingar sem gætu leitt til breytinga á orkuverði ef mikið framboð væri á netþjónabúum. Það eru þó aðrir hlutir sem skipta máli, eins og nálægð og flutningsgeta ljósleiðarakerfis auk framboðs á hæfu starfsfólki. Fleira skiptir því máli en flutningsgeta rafmagns.

Hv. þingmaður spurði út í verkefnið sem ég hef áður greint örlítið frá í þinginu. Fjárfestingarstofan leitaði á sínum tíma til 10 sveitarfélaga sem taka þátt í athuguninni. Hún felst í því að athuga rafmagnstengingar, öryggi þeirra og flutningsgetu, gagnatengingar, öryggi og flutningsgetu, aðgang að vatni til kælingar, lóðir, landsvæði, húsnæði og aðgengi að hæfu vinnuafli. En það sem mér fannst skipta mestu er að hluti athugunarinnar á að fela í sér tillögur til úrbóta á þeim þáttum sem hún leiðir í ljós að kunni að vera vankantar á. Sömuleiðis felur hún í sér grófa kostnaðaráætlun þannig að sá pakki liggi fyrir sem menn þurfa að ráðast í ef slíkt býðst.

Sveitarfélögin sem Fjárfestingarstofa hefur leitað samstarfs við, ég tek fram að nokkur sveitarfélög höfnuðu að taka þátt í þessu, eru Sandgerði, Grindavík, Ölfus, Árborg, Egilsstaðir, Akureyri, Sauðárkrókur, Blönduós, Skagaströnd og Ísafjörður. Þar að auki hefur mér verið bent á sveitarfélag sem virðist hafa alla kosti til að taka þátt í þessari könnun en það er Seyðisfjörður. Hann hefur varaafl sem skiptir svo miklu máli vegna þess að þar byggja menn virkjun í kaupstaðnum, svo að segja. Seyðisfjörður er einnig sá staður þar sem leiðarar við útlönd svo sem ljósleiðarar, hafa að fornu og nýju komið í land þannig að líklegt er að viðræður verði við þann stað. Fleiri sveitarfélög hafa með einhverjum hætti óskað eftir því að fá skoðun á því hvort þau komist inn í verkefnið. Það er hins vegar svo að skoðunin kostar peninga, þó ekkert mjög mikla. Verkefnið allt er talið kosta sex til sjö milljónir. Sveitarfélögin greiða tvo þriðju af þeim kostnaði.

Þetta, frú forseti, er vonandi nægilegt svar til hv. þingmanns. Ég ítreka að hann er kannski sex mánuðum of fljótur á sér að spyrja, til að ég geti gefið honum nákvæmt svar við fyrstu spurningunni en þetta er eins og ég best kann og get á þessari stundu.