135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

netþjónabú.

244. mál
[15:25]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Mér finnst það galli á annars góðum degi að hinn ágæti hv. þm. Birkir Jón Jónsson hefur verið í svo vondu skapi. Hann sem alltaf er svo glaðbeittur og brosandi. Hann kemur hingað og sér ekkert nema svart og talar niður landsbyggðina í öðru hverju orði sínu.

Ég vil ítreka það að í ræðu minni um daginn tók ég mönnum vara fyrir því að hugsa sem svo að hægt væri að sáldra netþjónabúum um landið. Við erum ekki enn komin með eitt. En hugsanlega verða einhver tíðindi af því fyrr en varir. Hver veit? Í öllu falli eru menn í mjög einbeittri viðleitni að kynna Ísland sem kost gagnvart þessari nýju atvinnugrein. Fjárfestingarstofa hefur staðið vel að þeim málum og mun, þegar úttekt er lokið, fara í sérstaka kynningarherferð á þeim svæðum á Íslandi sem teljast hæf, þ.e. út frá hinu raforkulega sjónarmiði sem hv. þingmaður spyr um.

Hv. þingmaður sendir svo að mér gilda eyrnafíkju um nánasarhátt vegna þess að sveitarfélög þurfa að greiða fyrir þetta. Ég verð að senda hana til baka og vona að hún skaði ekki hv. þingmann. En það er nánasarháttur Framsóknarflokksins á síðustu árum sem hefur leitt til þess að fjárframlög til Fjárfestingarstofu eru ekki hærri en raun ber vitni. Það þarf kannski ekki átta ár, ég er ekki að stefna að því, en það þarf nokkur ár til að vinna upp, rífa og tæta sundur þann slóða af skammarstrikum sem Framsóknarflokkurinn skilur eftir sig.

Hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir setti fram ákveðna fullyrðingu um sitt góða byggðarlag. Það liggur ljóst fyrir að vilji ráðherra stendur til þessa. Ég tel að byggðarlagið smellpassi inn í mynstrið sem Fjárfestingarstofa hefur lagt upp í þessu dæmi.

Að öðru leyti tek ég það skýrt fram að netþjónabú eru bara ein tegund af gagnaverum. Sum gagnaverin eru þannig að þau þurfa ekki jafntryggt (Forseti hringir.) gagnaflutningasamband og starfsmenn eru færri, kröfurnar eru ekki þær sömu og í sambandi við hina nýju og stærri tegund þeirra. (Forseti hringir.) Það kynni að vera, frú forseti, að hv. þm. Birkir Jón Jónsson gæti haft eitthvert gagn af því í framtíðinni. (Gripið fram í: Þeim.)