135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

samningur um framleiðslu dagskrárefnis fyrir RÚV.

[15:44]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er hátt reitt til höggs í tilefni af því að Björgólfur Guðmundsson hefur ákveðið að leggja fram styrk til menningarmála, kvikmyndaiðnaðarins og framleiðslu á efni fyrir sjónvarp. Það er raunar rík hefð fyrir því á Íslandi að auðmenn láti fé af hendi rakna til lista og menningar og annarra góðra mála. Ég tel það mikið fagnaðarefni. Björgólfur Guðmundsson hefur verið óspar á fé og framlög til menningar og annarra samfélagslegra viðfangsefna. Ég tel að hann eigi heiður skilinn fyrir það. Það hefur hann ávallt gert, það ég best veit, án skilyrða eða skuldbindinga um að fá eitthvað fyrir sinn snúð.

Varla viljum við leggja stein í götu þeirra sem vilja hlaupa undir bagga með góðum málum. Ríkisútvarpinu hefur hlotnast það happ að þessu sinni að skrifa undir samning við Björgólf Guðmundsson, enda fer ekki á milli mála að Ríkisútvarpið er merkilegasta og mikilvægasta menningarstofnun landsins.

Við eigum að taka þessu eins og það er gert og eins og það er meint. Höfðingsskapur í þágu lista og menningar. Ég sé fyrir mitt leyti ekkert athugavert við þennan gjörning og deili ekki áhyggjum vinstri grænna gagnvart samkeppninni við aðra fjölmiðla eða menningarstofnanir, enda ekkert nýtt af nálinni. Markaðurinn verður að kyngja því að styrkir og kostun fylgja með í þessum pakka.

Ég segi að lokum, af því að ég veit að allir vita að ég er mikill knattspyrnuáhugamaður, að þrátt fyrir þann áhuga minn tel ég miklu gæfulegra að Björgólfur leggi fjármagn í þágu menningar og lista á Íslandi en að verja (Forseti hringir.) honum til frekari kaupa á knattspyrnufélögum í Englandi. (Forseti hringir.)