135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

aðgerðir lögreglu gegn þeim sem nota netið í glæpsamlegum tilgangi.

235. mál
[18:25]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem fram kom hjá hv. þingmanni að það er ekki aðeins ríkislögreglustjóri sem hefur unnið að þessu heldur einnig lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og kynferðisbrotadeild sem var stofnuð þar í byrjun þessa árs eftir að nýskipan lögreglumála kom til sögunnar. Það er því unnið að þessum málum af hálfu lögreglunnar á skipulegan og markvissan hátt varðandi þann þátt sem við höfum gert sérstaklega að umtalsefni hér. Í landi eins og okkar þar sem við notum netið jafnmikið til kennslu og miðlunar á upplýsingum í skólum, allt frá grunnskóla og upp í háskóla, er það raunar ríkari skylda en ella af hálfu opinberra aðila að sjá til þess að allar varúðarráðstafanir við notkun á þessum miðlunarbúnaði séu fyrir hendi og menn geti átt greiða leið að því að kalla þá til ef á þarf að halda þegar menn verða varir við misnotkun á þessum fjarskipta- og miðlunarleiðum.

Ég tek undir með hv. þingmanni að mér þótti ómaklega að honum vegið þegar hann vakti máls á þessari hættu fyrir nokkrum mánuðum. Allar upphrópanir um að það eigi ekki að huga að eftirliti á þessu sviði eins og öðrum finnst mér marklitlar og marklausar og ástæðulaust að láta þær trufla löggjafann eða aðra sem að þessum málum koma og bera ábyrgð á þessu sviði eins og öðrum þegar um öryggi borgaranna er að ræða.