135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

viðurkenning á prófgráðum frá löndum utan EES.

222. mál
[18:28]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Til mín barst fyrirspurn frá hv. þm. Paul Nikolov sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir fylgir hér úr hlaði. Fyrirspurnin er svohljóðandi:

„Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að prófgráður frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins verði viðurkenndar hér svo að prófgráðuhafi geti stundað áframhaldandi nám í framhalds- og háskólum eða fengið útgefið starfsleyfi þegar um löggilt starf er að ræða?“

Viðurkenning á prófgráðum á háskólastigi eða svokölluð akademísk viðurkenning vegna menntunar frá löndum utan EES-svæðisins er í höndum viðkomandi háskóla. Forsenda þess að unnt sé að meta slíkt nám er að umsókn um mat fylgi greinargóð lýsing á náminu, inntaki þess og lengd. Æskilegast er að umsækjandi geti lagt fram svokallaða viðauka með prófgráðu, sem á ensku kallast Diploma Supplement, sem margir háskólar gefa út sem fylgiskjal með prófskírteinum og er orðið nokkuð algengt. Þar er að finna ítarlega lýsingu á því námi sem um ræðir og þeirri þekkingu og ekki síður þeirri færni sem handhafi prófskírteinisins hefur aflað sér í háskólanámi sínu. Háskólar hafa samkvæmt hefð sjálfdæmi um það hvernig þeir meta nám erlendis frá þegar um akademíska viðurkenningu er að ræða.

Ef nemendur koma erlendis frá og vilja hefja nám við framhaldsskóla hér á landi kemur það í hlut viðkomandi framhaldsskóla að meta þá menntun sem þeir hafa þegar aflað sér og hefur menntamálaráðherra gefið út leiðbeiningar um það í aðalnámskrá hvernig að því skuli staðið. Lögð er áhersla á að gætt sé sveigjanleika í slíku mati og horft sé til þess hvort nemandi hafi forsendur til þess að ljúka því námi sem hugur hans stendur til. Ef um er að ræða mat á námi sem getur leitt til starfsréttinda kemur það í hlut viðkomandi fagráðuneytis eða aðila sem ráðuneytið hefur framselt slík verkefni til og að meta menntun frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Hér er einnig brýnt að fyrir liggi skýr lýsing á menntun umsækjanda, umfangi hennar og inntaki svo og á starfsreynslu hans og einnig þeim réttindum sem hann nýtur í heimalandinu þegar svo ber undir.

Menntamálaráðuneytið annast viðurkenningu kennaramenntunar erlendis frá, það er rétt að undirstrika það, og hefur ekki orðið vart sérstakra vandkvæða við að viðurkenna menntun frá löndum utan EES-svæðisins þegar gögn uppfylla þau skilyrði sem ég hef þegar greint frá. Ef í ljós kemur við skoðun að umsækjandi um viðurkenningu uppfyllir sömu eða sambærilegar kröfur um menntun og gerðar eru til íslenskra kennara fær hann útgefið íslenskt leyfisbréf grunn- eða framhaldsskólakennara. Einnig er rétt að greina frá því að í haust var haldið námskeið, sérstaklega skipulagt af menntamálaráðuneytinu í samvinnu við m.a. Endurmenntunar Háskóla Íslands, þar sem farið var yfir viðurkenningu á prófgráðum varðandi þetta efni.