135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

fullorðinsfræðsla.

223. mál
[18:44]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Ég tek undir með hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur. Þetta er mikið hagsmunamál, annars vegar fyrir þá einstaklinga sem hafa hug á að fara til náms að nýju en ekki síður fyrir samfélagið allt, að nýta kosti og hæfileika hvers og eins þannig að hægt verði að miðla því samfélaginu til heilla.

Ég vildi líka nefna að í dag, þrátt fyrir að við séum ekki með rammalöggjöf, erum við að upplifa þá ánægjulegu þróun að sjá aðsókn og ásókn fólks á öllum aldri í nám, fólks víðs vegar að í samfélaginu í dag. Hvað er það að gera? Jú, það er í námi, að gera alls konar hluti. Það finnst mér stórkostleg upplifun, að hitta slíka einstaklinga. Við höfum opnað kerfið og við eigum líka að gera það. Við eigum að hafa tækifæri til menntunar fyrir alla, allt lífið.

En engu að síður, af því að umfangið er að aukast, þá er brýnt að við komum okkur upp heildstæðri rammalöggjöf þar sem skilgreiningarnar eru skýrar, að við getum mótað löggjöf sem heldur áfram að styðja og efla þessa þróun og ásókn fólks í frekara nám.

Ég vil í lokin undirstrika það að með þeim frumvörpum sem við erum að fara að ræða, vonandi í næstu viku, og tengjast leik-, grunn- og framhaldsskóla, er sérstaklega tekið á raunfærnimatinu í framhaldsskólalögunum. Ég held að það skipti mjög miklu máli að aukið svigrúm verði gefið til að fá fólk inn í skólakerfið sem byggir á ákveðnu raunfærnimati, þar sem við tökum mið af því sem fólk kann og getur og þeirri þekkingu sem það hefur áunnið sér í áranna rás.