135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

kristilegt siðgæði í starfsháttum grunnskóla.

240. mál
[18:57]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Auður Lilja Erlingsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessar umræður, þær hafa verið málefnalegar og góðar.

Ég tel að það að taka orðin „kristilegt siðgæði“ úr grunnskólalögunum feli ekki í sér afneitun á sögunni enda tel ég að sú breyting hefði ekki verið gerð ef fólk teldi svo vera. Hins vegar er margt sem við þurfum að taka tillit til í nútímasamfélagi. Það er margt sem mótar siðgæði fólks, bæði hvar það er alið upp og hvaða gildum er haldið að því í æsku og þar held ég að trúarbrögð spili eitt hlutverk en ekki meginhlutverkið.

Hv. þm. Jón Magnússon sagði að einfaldlega væri kristið siðgæði öðruvísi en siðgæði fólks sem aðhylltist önnur trúarbrögð. Þá velti ég fyrir mér hvaða rannsóknir hann hefur séð um það þar sem ég þekki margt kristið fólk og margt trúlaust fólk og fólk sem aðhyllist önnur trúarbrögð og ég hef ekki orðið vör við annað en að það fólk einkennist af hinu vestræna siðgæði. Ég held að fáir sem eru trúlausir mundu tala gegn umburðarlyndi, náungakærleika eða fyrirgefningu.

Mannréttindadómstóll Evrópu í Strassborg dæmdi að norska ríkið hefði brotið á rétti barna til að fá tilhlýðilega menntun hvað varðar hlutleysi í kristinfræði, trúarbrögðum og heimspeki. Ég vona að við þurfum ekki að fá á okkur sambærilegan dóm til að fara að gera öllum jafnhátt undir höfði. Ég tel þær breytingar sem er verið að gera með þessum lögum mjög gott skref og sömuleiðis með tilmælum um að kristinfræðifræðsla eigi að fara fram utan skólatíma, fermingarfræðslan, því að fáir foreldrar vilja vera í þeirri aðstöðu að þurfa (Forseti hringir.) að taka barn sitt úr tíma og frá félögum sínum. Það er ekki raunverulegur valkostur.