135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

verkefnið Framtíð í nýju landi.

266. mál
[19:01]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Framtíð í nýju landi er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar, Rauða krossins, félagsmálaráðuneytis, menntamálaráðuneytis, Alþjóðahúss og Velferðarsjóðs barna á Íslandi. Þetta er þriggja ára tilraunaverkefni sem lýkur þann 1. desember næstkomandi. Markmið þess er að aðstoða víetnömsk börn eða ungmenni á aldrinum 15–25 ára við að setja sér einstaklingsbundin markmið um menntun og færni og aðlögun að íslensku samfélagi og leita úrræða til að auðvelda þeim að ná þeim markmiðum.

Það er ljóst að menntun er lykill að árangri og sjálfsstyrking lykill að þroska. Fjölskyldubönd skipta miklu máli og öll almenn samfélagsleg tengsl eru mikilvæg til þess að ungmenni öðlist hæfni og færni til að takast á við lífið. Verkefnið Framtíð í nýju landi var unnið út frá heildarsýn sem var grundvölluð á fjölþættri, hugmyndafræðilegri nálgun og í verkefninu var reynt að brúa bil ólíkra menningarheima og varðveita eigin menningu.

Frú forseti. Í nútímaþjóðfélagi skiptir miklu máli að vera virkur þjóðfélagsþegn og fylgjast vel með þeim möguleikum og tækifærum sem gefast hverju sinni. Velgengni hvers og eins fer mikið eftir því hversu vel viðkomandi mætir þeim verkefnum og tækifærum sem bjóðast. Menntakerfi okkar tekur mið af þessum þáttum og býður öllum tækifæri til að mennta sig.

Þeir sem flytjast til Íslands og setjast hér að þurfa að njóta sömu tækifæra og aðrir þegnar landsins. Unga fólkið í þeim hópi hefur menningarlegan, mállegan og námslegan bakgrunn sem er oft mjög frábrugðinn þeim bakgrunni sem íslenskir jafnaldrar þeirra búa við. Þeir hafa því aðrar forsendur til að takast á við almennt nám í íslenskum skólum.

Þetta þriggja ára tilraunaverkefni er að mínu mati metnaðarfullt og áhugavert og markmið þess að gera alla þegna þessa lands virka þátttakendur í íslenskum skóla og athafnalífi er til fyrirmyndar. Því er fyrirspurn mín til hæstv. menntamálaráðherra tvíþætt.

Í fyrsta lagi: Hvert er mat ráðherra á verkefninu Framtíð í nýju landi og hverjar eru helstu niðurstöður úr verkefninu?

Í öðru lagi: Hvaða nýmælum hyggst ráðuneytið beita sér fyrir vegna nemenda með annað tungumál en íslensku?