135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

fundarstjórn.

[21:05]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég sé ærna ástæðu til að gera athugasemdir við þau vinnubrögð sem virðist eiga að fara að viðhafa hér. Ég held að þingmenn í dag hafi almennt verið farnir að gera ráð fyrir því að ekki yrði af 2. umr. fjárlaga á morgun eins og áætlað hafði verið af augljósum ástæðum því að ekkert bólaði á afgreiðslu fjárlaganefndar á málinu og hér höfðu engin nefndarálit og engar breytingartillögur litið dagsins ljós.

Nú hallar mjög degi og fáeinar klukkustundir í raun og veru til þess að 2. umr. fjárlaga eigi að fara fram og það er auðvitað ekki boðlegt að þingmenn hafi engar upplýsingar haft fram að þessu um það hvað væri í vændum varðandi afgreiðslu fjárlaganefndar eða meiri hluta fjárlaganefndar, hvaða úrlausn mála, erindi og umsóknir fengjust frá nefndinni og hvernig væri stoppað í þau göt sem augljóslega voru í fjárlagafrumvarpinu þegar það kom fram fyrst í haust. Ég tek það fram að ég er ekki að halda því fram að hér sé við fjárlaganefnd að sakast eða þá sem þar stjórna málum. Ég held að þeim hafi verið ærinn vandi á höndum að fá hið götótta frumvarp í hendur og eiga svo að glíma við það, í viðbót við það hringl sem á að ástunda hér með málefni innan Stjórnarráðsins, að koma þessu öllu heim og saman. Það er augljóst mál, frú forseti, að það eru í raun og veru ekki forsendur til þess að fara að hefja 2. umr. um fjárlagafrumvarpið á morgun. Langeðlilegast hefði verið að slíta þeim fundi sem hér stóð fyrr í dag hvers dagskrá var í raun og veru tæmd fyrir kvöldmat og þá hefði meiri hlutinn á Alþingi staðið frammi fyrir því að þurfa að koma breytingartillögum sínum og nefndarálitum á dagskrá með afbrigðum ef hann hefði viljað veita sér þau og það held ég að hefði sagt alla söguna um það að við þessar aðstæður er auðvitað ekki boðlegt að hefja hina efnislegu umræðu strax á morgun.

Nú er það svo, virðulegur forseti, að það er hlutverk forsetans að gæta að sóma þingsins við aðstæður af þessu tagi og sjá til þess að umræður og öll störf fari sómasamlega fram og með vönduðum hætti. Ég vil því beina því til forseta og ítreka þá ósk mína að forseti hlutist til um að fresta fyrirhugaðri umræðu um fjárlagafrumvarpið a.m.k. fram á föstudag. Samkvæmt starfsáætlun þingsins er fundur á föstudaginn og því skiptir ekki öllu máli hvort umræðan fer fram deginum fyrr eða seinna. Mér sýnist nú reyndar að ekkert veitti af því að leyfa vikunni að líða og taka umræðuna frekar eftir helgi og fjárlaganefnd gæti þá eftir atvikum reynt að nota tímann og koma einhverju meiru frá sér og skila framhaldsnefndaráliti við 2. umr., stoppa í fleiri göt sem augljóslega eru enn í málinu. Samkvæmt upplýsingum sem við höfum fengið úr fjárlaganefnd í gegnum fulltrúa okkar stendur hvort sem er til að fresta ýmsum hlutum til 3. umr., a.m.k. eru þeir ekki tækir til afgreiðslu strax. Ég fer fram á það að forseti felli úrskurð sinn í þessum efnum og verði við óskum okkar um að fresta umræðunni og geri þingmönnum aðvart um það í kvöld, haft verði samband við þingmenn þannig að þessari óvissu ljúki og þingmenn viti að hverju þeir eiga að ganga á morgun.