135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

fundarstjórn.

[21:15]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf):

Frú forseti. Það sem hér er vikið að er mjög einfalt mál, hvort fresta eigi 2. umr. um fjárlög vegna ársins 2008 sem liggur fyrir í starfsáætlun þingsins að vera skuli á morgun. Hafa hv. þingmenn Vinstri grænna óskað eftir því að forseti úrskurði um það. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði að það hallaði mjög af degi. Um leið þakka ég hv. þingmanni fyrir þá hvatningu sem hann veitti til handa fjárlaganefnd en það er ljóst að fjárlaganefnd hefur, auðvitað með hliðsjón af starfsáætlun þingsins, ákveðna verkáætlun og hún lauk verkefni sínu á fundi fjárlaganefndar á mánudaginn. Hins vegar er pappírsvinna á nefndasviði viðamikil og verður að segjast eins og er að með hliðsjón af því verklagi sem hefur verið viðhaft á Alþingi undanfarin ár — og hv. þingmenn sem hér hafa talað hafa vissulega verið þátttakendur í — verð ég sem kem nýr að verklaginu að segja að það er fjölmargt sem má breyta. Ég mun beita mér fyrir því að það verði gert, ekki bara í störfum fjárlaganefndar heldur líka ýmsu í tengslum í vinnu við fjárlagagerð. Mun ég skýra það nánar út í ræðu minni við 2. umr. fjárlaga.

Hallar mjög af degi — það minnti mig á söguna af því þegar ég beið eftir símtali frá manni sem hafði lofað að hringja í mig og ég hringdi í hann kl. 10 um kvöld og sagði: Ætlaðirðu ekki að hringja í mig í dag? Þá sagði sá hinn sami: Það eru 24 tímar í sólarhringnum. Þannig hefur það oft verið á hinu háa Alþingi, menn hafa nýtt tímann til fullnustu og verið hér langt fram á kvöld og jafnvel langt fram á nætur. Hvort það er til eftirbreytni er mál hvers og eins að dæma um, en af minni hálfu er ljóst að nefndin kláraði sitt verk. Hv. þingmenn sem sitja í hv. fjárlaganefnd höfðu upplýsingar um niðurstöðu þar og hafa í raun og veru getað búið sig undir umræðuna á undanförnum dögum, enda hafa allar þessar upplýsingar legið ljósar fyrir og ljóst hefur verið á umliðnum dögum í hvað stefndi.