135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

breytingar á þingsköpum.

[10:38]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Alþingi Íslendinga verður að hlýða kalli tímans. Það eru breyttir tímar og við verðum að taka það til greina í vinnubrögðum okkar. Það er ekki mönnum bjóðandi að hafa ræðutímann eins og hann hefur verið og þetta segi ég þó að ég sé í stjórnarandstöðu. Hér hafa stundum verið fluttar ræður sem staðið hafa í marga klukkutíma, heilu næturnar, og þetta er vopn sem stjórnarandstaðan hefur oft beitt til að reyna að koma málum af dagskrá.

Ég get t.d. rifjað upp ræðu eins hv. þingmanns sem ekki er staddur hér í dag en (Gripið fram í.) hann talaði heila nótt þannig að hann las upp úr Der Spiegel og þýddi lesefnið í leiðinni. Þetta er auðvitað ekki mönnum bjóðandi. (Gripið fram í.) Það borgar sig … Virðulegi forseti. Ef ég fæ frið fyrir hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni sem gjammar inn í þann stutta tíma sem ég hef hér til ráðstöfunar, þá ætla ég að reyna að halda áfram með ræðu mína. Við verðum að taka okkur tak. Það er ekki verið að skerða málfrelsi. Við megum tala í 15 mínútur, síðan í 5 og við megum tala eins oft og við viljum í 5 mínútur í staðinn fyrir að hafa tvær ræður við 2. umr. og tala eins lengi og okkur er stætt og eins lengi og blaðran heldur. Það er ekki mönnum bjóðandi og það þarf að breyta þessum vinnubrögðum. Það er ekki hægt að setja þetta upp eins og vinstri grænir hafa gert hér, hæstv. forseti, að þetta sé kaup og sala. Þetta er ekki kaup og sala.

Við framsóknarmenn viljum breyta þinginu til nútímalegri hátta. Nú er miklu meira sjónvarpað og meira sett á netið. Við fáum ekki neitt út úr þessum löngu ræðum. Við skulum stytta ræðutímann, gera Alþingi að fjölskylduvænni vinnustað og standa saman um það. Það er ósk okkar framsóknarmanna og því styðjum við það sem hæstv. forseti hefur lagt sig fram um að gera, að vera í góðu samstarfi við okkur til að ná fram eðlilegum breytingum.