135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

breytingar á þingsköpum.

[10:41]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er álitamál hvort maður á fremur að lýsa miklum vonbrigðum eða furðu með vinnubrögð forseta í þessu þingskapamáli. Hér á við hið fornkveðna að heggur sá er hlífa skyldi. Forseti segir í sundur friðinn um grundvallarvinnureglur á Alþingi, sjálf þingsköpin. Sá sem umfram alla aðra menn á að leggja áherslu á að skapa hér samstöðu og frið, sýna sanngirni í samskiptum, sá aðili einmitt bregst friðarskyldu sinni.

Mig undrar framganga beggja stjórnarflokkanna í þessu máli. Ég hélt að enn sætu þingræðissinnar á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn en ekki þjónar framkvæmdarvaldsins. Samfylkingin boðar samræðustjórnmál en þau birtast okkur nú í því að koma í veg fyrir samræður. Fólkið sem fyrir nokkrum mánuðum nýtti sér hér rétt sinn til að stöðva einkavæðingu á vatni og andæfa einkavæðingu Ríkisútvarpsins ætlar nú að standa að því að skera þennan sama rétt niður við trog.

Forseta hefur verið a.m.k. þrennt alveg ljóst hvað varðar afstöðu okkar vinstri grænna í þessu máli frá því í haust að hann hóf leiðangur sinn. Í fyrsta lagi þær miklu takmarkanir á málfrelsi þingmanna sem tillögur hans fela í sér. Það að taka með öllu af stjórnarandstöðunni möguleikann til að knýja fram lengri umræður um umdeild stórmál sem ríkisstjórnin reynir að troða í gegnum þingið með hraði og hægja þannig á færibandinu væri óaðgengilegt fyrir okkur. Við erum einfaldlega ekki tilbúin til þess að stjórnarandstaðan leggi frá sér eða réttara væri að segja selji frá sér það eina vopn sitt sem raunverulega bítur þegar í harðbakkann slær og sú litla vígstaða sem stjórnarandstaða hefur haft á Alþingi Íslendinga er ekki verslunarvara þegar Vinstri hreyfingin – grænt framboð á í hlut.

Við höfum einnig frá byrjun mótmælt því að úrbætur á almennri starfsaðstöðu þingmanna og efndir á gömlum loforðum væru keyptar með veikari vígstöðu stjórnarandstöðunnar í umræðum. Og við höfum í þriðja lagi lagt til að hækkaður yrði þröskuldurinn til að veita afbrigði þannig að núverandi meiri hluti geti ekki sjálfur (Forseti hringir.) skammtað sér afbrigði eins og hann byrjaði að gera strax í vor. Ég fordæmi það að forseti Alþingis skuli rjúfa hefð um vönduð samstöðuvinnubrögð um grundvallarlöggjöf Alþingis, sjálf þingsköpin.