135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

breytingar á þingsköpum.

[10:54]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Hér hafa stór orð fallið um málfrelsi í landinu. Það er mjög alvarlegur hlutur ef þingmenn telja að málfrelsi í þingsölum sé ógnað. Sjálfur hef ég ekki þann skilning á og get að nokkru leyti tekið undir með hv. þm. Helga Hjörvar að í langflestum tilvikum eiga menn að geta komið málum sínum að með 15 mínútna ræðutíma og öðrum 5 mínútna.

Ég tek samt undir með þeim varnaðarorðum sem féllu hjá hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni, það er mikilvægt að við náum samstöðu um þetta mál og það er kannski mikilvægara en að við afgreiðum það á sem allra skemmstum tíma. Þess vegna tel ég allt í lagi að það verði rætt. Ég geri mér grein fyrir því að þessar stuttu ræður núna eru ekki þær einu. Við verðum með þetta á dagskrá aftur í næstu viku og ég tel sem sagt mikilvægt, einmitt í þessu máli, að við náum samstöðu allra flokka um þetta grundvallaratriði.