135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

2. umr. fjárlaga.

[11:21]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég geng út frá því sem vísu að okkur öllum sem í þessum sal störfum sé afar annt um virðingu Alþingis Íslendinga og ég tel að það sé sameiginlegt verkefni okkar að ná niðurstöðu í þeim efnum að hér sé starfað með þeim hætti að allir geti vel við unað og telji að virðingar Alþingis sé gætt. Ég tel, hæstv. forseti, að verið sé að taka fjárlagafrumvarpið til 2. umr. á afbrigðilegan hátt. Það má rétt vera að ekki hafi verið beitt afbrigðum samkvæmt þingskapalögum til að fá málið í gegn en málið er að fara í gegn á afbrigðilegum nótum. Mig langar að fá svör frá hæstv. forseta við þeirri fyrirspurn minni áður en þessi umræða hefst hversu oft það hafi gerst að nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar og breytingartillögu meiri hluta fjárlaganefndar sé dreift 12 tímum áður en umræða hefst. (Gripið fram í: Um nótt.) Og það að nóttu til. Ég verð að fá svör við þessari fyrirspurn áður en þessi umræða um fundarstjórn forseta klárast og ég veit að hægt er að fletta því upp í tölvum þingsins. Ég held að hæstv. forseti skuldi okkur svar við þessari fyrirspurn til að við fáum staðfestingu á því sem við höldum fram, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að hér sé verið að fara fram með afbrigðilegum hætti.

Hæstv. forseti hefur sagt að við hefðum getað kíkt yfir öxlina á fulltrúa okkar í fjárlaganefnd til að komast yfir upplýsingar um breytingartillögu meiri hlutans. Nú spyr ég hæstv. forseta og það krefst líka svara: Þekkir hæstv. forseti ekki pappírana sem unnið er með í fjárlaganefnd? Veit hæstv. forseti ekki hversu óaðgengilegir þeir pappírar eru fyrir þá sem ekki hafa verið að vinna með þá sem vinnuskjöl? Áttar hæstv. forseti sig ekki á því að vinnuskjölin og hönnun vinnuskjala er hluti af þeim starfstækjum sem við þingmenn höfum og að þau starfstæki sem hv. þingmenn í fjárlaganefnd hafa eru allt öðruvísi en þau starfstæki sem við höfum sem ekki sitjum í nefndinni? Þau starfstæki koma ekki í okkar hendur fyrr en pappírunum frá meiri hluta fjárlaganefndar er dreift í þinginu. Aðstæður mínar í gær voru þær að ég vissi ekki þegar ég fór hér úr húsi klukkan sjö að efnt yrði til útbýtingarfundar á tíunda tímanum. Ég átti þess ekki kost að koma hingað í húsið til að sækja mína pappíra. Í morgun fór ég með barnið mitt til tannlæknis og kom því ekki í hús fyrr en klukkan hálftíu. Þá var klukkutími í að umræðan hæfist. Það er óforsvaranlegt að bjóða okkur þingmönnum upp á þetta og ég krefst þess að hæstv. forseti svari því hvort hér sé ekki um afbrigðilega afgreiðslu að ræða, afbrigðilega stuttan tíma sem okkur er gefinn til að kynna okkur málin.