135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

breytingar á þingsköpum.

[11:39]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég tek einmitt undir orð hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar áðan um að fjárlögin væru í raun eitt stærsta fasta mál Alþingis. Þar birtist stefna og áherslur ríkisstjórnar á hverjum tíma í tölum, sundurgreint eftir viðfangsefnum. Þar kemur líka fram tekjuöflun, hvernig að henni er staðið. Það er mjög mikilvægt að þetta sé mjög vel unnið. Ég tek undir þau orð.

Hins vegar verð ég þá að spyrja hvort það sé í takt við góð vinnubrögð að dreifa hér meirihlutaáliti og breytingartillögum undir kvöld, eða undir nótt, daginn fyrir umræðuna. Nei. Nógu erfitt er að afla upplýsinga í fjárlaganefnd, m.a. frá framkvæmdarvaldinu. Þegar ég tala um vandaða fjárlagavinnu er ég ekki að áfellast störf fjárlaganefndar eða einstakra fjárlaganefndarmanna sem ég tel að hafi verið mjög góð miðað við þær aðstæður sem þeim voru boðnar.

Ég vek athygli á því, einmitt af því að það kom fram hér, að einn liðurinn í fjárlagafrumvarpinu er tæplega 100 millj. kr. til þingmanna vegna breyttra starfshátta þingsins og þingskapa. Þetta var rætt í nefndinni og ég spurði um gögn sem lægju að baki og hvort þetta tengdist órjúfanlega því skilyrði að breytingar á málfrelsi og öðrum þáttum innan þingsins væri fastur og óaðskiljanlegur hluti af þessu máli.

Ég man ekki orðrétt hvað formaður sagði en mig minnir að hann hafi sagt eitthvað í þá veruna að að hans mati væri það ekki, þetta væri sjálfstætt mál. Hann getur þá leiðrétt það. Ég bar það mál inn í þingflokkinn og þá kom fram þar að forseti hefði upplýst að þessi mál væru föst saman og það væri óbreytanleg afstaða forseta að svo væri. Mér var nokkur vandi á höndum í þessu máli (GÁ: Eins og oft áður.) og benti á það. — Helsti vandi formanns Framsóknarflokksins er sá að hafa skrifað ævisögu sem fyrrverandi formaður vill ekki lesa. (GÁ: Hann hefur aldrei sagt það.) Það er á prenti í dag. Mun aldrei lesa hana heldur, hugsa ég. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Ég hvet til þess að umræðu um fjárlögin verði frestað (Forseti hringir.) og þau tekin á hæfilegum tíma. Ég treysti forseta til að taka á sig rögg og breyta dagskrá þingsins eins og hún liggur hér fyrir.