135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

breytingar á þingsköpum.

[11:51]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Mér finnst afskaplega mikilvægt að svör fáist frá hæstv. forseta við þeim fjölmörgu spurningum sem komið hafa fram í þessari umræðu. Við höfum verið að ræða um vinnubrögðin og fundarstjórn forseta og hversu vel menn séu í stakk búnir til að takast á við umræðu um það stóra mál sem fjárlagafrumvarpið sannarlega er. Það stendur hér upp úr hverjum manni að þetta sé eitt stærsta mál sem fjallað er um á Alþingi á hverjum vetri. Meira að segja talsmenn stjórnarflokkanna í fjárlaganefnd láta hafa það eftir sér hér í umræðunni að þessi vinnubrögð séu ekki til fyrirmyndar.

Það vekur því athygli þegar hv. formaður þingflokks Frjálslynda flokksins, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, ber blak af ríkisstjórninni rétt eins og hann sé einn helsti og fremsti talsmaður hennar og talsmaður þeirra vinnubragða sem hér eru viðhöfð, jafnvel þótt bæði formaður og varaformaður fjárlaganefndar hafi sagt að þau vinnubrögð séu ekki til eftirbreytni. Þegar það liggur fyrir hlýtur maður — og einnig í ljósi þess að hæstv. forseti hefur sagt að hann vilji beita sér fyrir bættum vinnubrögðum og aukinni virðingu Alþingis — að spyrja: Vill forseti þá ekki raunverulega leggja sitt af mörkum til þess að góð samstaða geti tekist um málsmeðferðina við 2. umr. um fjárlagafrumvarpið og koma til móts við þær rökstuddu óskir sem komið hafa fram, bæði á fundi í gærkvöldi og svo í dag, um að fresta 2. umr. um fjárlagafrumvarpið?

Forseti sagði rétt áðan að honum fyndist mikilvægt að ná samstöðu allra um bætt vinnubrögð. Við hljótum að spyrja: Er það í boði af hálfu hæstv. forseta að ná fullkominni samstöðu meðal þingmanna og þingflokka um bætt vinnubrögð og aukna virðingu Alþingis, sem við öll sannarlega hljótum að vilja beita okkur fyrir? Þessum spurningum er enn ósvarað af hálfu hæstv. forseta og við hljótum að óska eftir því að hann bregðist við þeim.