135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[11:55]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2008, frá meiri hluta fjárlaganefndar, en meiri hlutann skipa ásamt mér hv. þm. Kristján Þór Júlíusson, varaformaður nefndarinnar, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Guðbjartur Hannesson, Illugi Gunnarsson, Björk Guðjónsdóttir, Ármann Kr. Ólafsson og Ásta Möller en þau eru meðflutningsmenn mínir á þessum breytingartillögum.

Störf nefndarinnar við afgreiðslu frumvarpsins hafa verið með hefðbundnum hætti. Nefndin hóf störf 12. september sl. og átti viðtöl við fulltrúa sveitarfélaga sem gerðu henni grein fyrir erindum sínum. Þá hefur nefndin kallað fyrir fulltrúa ráðuneyta og einstakra stofnana.

Frá því að nefndin hóf störf við afgreiðslu frumvarpsins hefur hún haldið 31 fund og rætt við hundruð aðila. Fulltrúar frá fjármálaráðuneyti komu á fund nefndarinnar til viðræðna um tekjuhlið frumvarpsins.

Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. þingskapa getur fjárlaganefnd vísað til annarra fastanefnda þeim þáttum fjárlagafrumvarpsins sem fjalla um málefnasvið þeirra. Með bréfi, dags. 10. október sl., óskaði nefndin eftir álitum fastanefnda þingsins um þá þætti frumvarpsins sem varða málefnasvið hverrar um sig. Nefndirnar hafa skilað álitum og eru þau birt sem fylgiskjöl með nefndarálitinu eins og fyrir er mælt í þingsköpum. Um er að ræða þingskjöl 339–344.

Nefndin hefur lokið afgreiðslu flestra þeirra erinda sem henni bárust, en nánar verður gerð grein fyrir helstu áherslum milli 2. og 3. umræðu í lok ræðu minnar.

Breytingartillögur þær sem eru til umfjöllunar við 2. umr. nema samtals 1,26 milljörðum til hækkunar á sundurliðun 2 í frumvarpinu. Mun ég gera grein fyrir nokkrum helstu gjaldatilfærslum, en varaformaður fjárlaganefndar, hv. þm. Kristján Þór Júlíusson, mun gera ítarlega grein fyrir sundurliðunum gjaldahliðar í sinni ræðu hér á eftir.

Grein er gerð fyrir meginbreytingum sem varða tekjuhlið frumvarpsins í nefndaráliti og sundurliðuðum breytingartillögum. Þær byggja á endurskoðaðri tekjuáætlun efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytis, en nú er gert ráð fyrir að tekjur verði 469,3 milljarðar kr. á næsta ári sem er 8,15 milljarða kr. hækkun frá frumvarpinu. Tekjujöfnuður verður um 37,7 milljarðar kr. sem er hækkun um tæpa 6,9 milljarða.

Mestu breytingar á tekjuhliðinni má rekja til endurskoðaðra áætlana í tekjuskatti lögaðila sem hækkar um 1,5 milljarða. 5 milljarða kr. breyting er til hækkunar í virðisaukaskatti og 1 milljarðs kr. hækkun á stimpilgjöldum. Hér er um veltutengda skattstofna að ræða og skýrist hækkun þeirra af endurskoðaðri spá efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Í því ljósi vil ég minna á að forsendur tekjuhliðar fjárlagafrumvarpsins byggja á þjóðhagsspá fyrir árin 2007–2012 í samræmi við haustskýrslu efnahagsskrifstofunnar sem gefin var út 1. október sl. Spáin er endurskoðuð reglulega.

Hæstv. forseti. Í nefndarálitum og þingskjölum er einnig gerð grein fyrir breytingu sem lögð er til við 5. gr. frumvarpsins, um lántökur, endurlán og ríkisábyrgðir. Þar er gert ráð fyrir lánsfjárheimild til handa Byggðastofnun upp á 1 milljarð króna, til viðbótar við þá 2 milljarða sem kynntir voru í fjárlagafrumvarpinu við 1. umr. Einnig er um að ræða nokkrar breytingar á 6. gr. heimildum sem varaformaður fjárlaganefndar mun betur gera grein fyrir í ræðu sinni um leið og hann fer ítarlega yfir sundurliðun á gjaldahliðinni, líkt og ég greindi frá fyrr.

Við myndun ríkisstjórnar í vor voru sett áform um endurskipulagningu á verkaskiptingu ráðuneyta. Ákveðið var að sameina tvö ráðuneyti í eitt, þ.e. ráðuneyti sjávarútvegs og landbúnaðar, og breyta Hagstofu Íslands úr ráðuneyti í sjálfstæða ríkisstofnun. Breytingartillögur meiri hlutans og skýringar í nefndaráliti eru á sama fjárlaganúmeragrunni og frumvarpið. Þá hefur verið flutt sérstakt frumvarp um breytta verkaskiptingu heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og félagsmálaráðuneytisins. Í breytingartillögu á sérstöku þingskjali eru fjárlagaliðir færðir til samræmis við þau lagafrumvörp. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir að umræddar breytingar eru viðamiklar og hefur verið leitast við að skýra þær út og um leið velta fyrir sér hinu tæknilega. Talið er langeðlilegast að fjárlagafrumvarpið 2008 verði afgreitt með hliðsjón af því hvernig sá meiri hluti sem að því stendur ætlar að haga skipan mála í Stjórnarráðinu frá og með 1. janúar 2008.

Best og gleggst fyrir Alþingi og alþingismenn er að meginatriði nauðsynlegra breytinga á fjárlagafrumvarpinu verði gerð ljós við 2. umr. þannig að fyrir liggi þegar frumvarpið með áorðnum breytingum verður prentað fyrir 3. umr., eftir samþykkt breytingartillagna við 2. umr., hvernig frumvarpið líti í megindráttum út eftir afgreiðslu Alþingis.

Um hina tæknilegu framsetningu geta verið ólíkar skoðanir og dreg ég ekki dul á það, hæstv. forseti, að hér er hin sígilda umræða um hænuna og eggið uppi, þ.e. hvort umræddar breytingar sem hér eru kynntar á fjárlagafrumvarpinu séu hænan eða eggið með tilliti til þess frumvarps sem liggur fyrir um breytingar innan Stjórnarráðsins.

Í breytingartillögunum hafa einnig verið útfærðar áður kynntar mótvægisaðgerðir sem ríkisstjórnin ákvað að grípa til í því skyni að draga úr neikvæðum áhrifum af tímabundnum samdrætti í þorskveiðum. Hér hafa einstaka liðir verið útfærðir, en um er að ræða tillögur upp á vel á annan milljarð. Varaformaður fjárlaganefndar mun betur gera grein fyrir þeim sundurliðunum í ræðu sinni.

Hæstv. forseti. Ég ætla að bregða mynd á þær útgjaldatillögur sem meiri hluti fjárlaganefndar leggur til við 2. umr. Stærstu útgjaldaliðirnir og mestu framlög sem meiri hlutinn leggur til eru til heilbrigðismála, félagsmála og menntamála. Áhersluatriði meiri hlutans í þeirri fjárlagagerð sem átt hefur sér stað á undanförnum dögum er að auka framlög til velferðarmála og menntamála og standa vörð um þær stofnanir sem veita almenningi þjónustu á þeim sviðum.

Meiri hlutinn leggur hér til að 1.558 millj. verði varið sérstaklega til menntakerfisins eða málefna menntamálaráðuneytisins. Tæpur 1 milljarður rennur til félagsmála og nær sama upphæð rennur til heilbrigðisráðuneytisins, til heilbrigðisstofnana í landinu, ef ekki er tekið tillit til tímabundinnar lækkunar fjárveitinga til byggingar hátæknisjúkrahúss. Það verk er of stutt komið miðað við þær fjárveitingar sem lagt var upp með við 1. umr., en hægt er að taka hér fram að áætlaðar eru samt sem áður 800 millj. í þá framkvæmd á næsta ári.

Við 2. umr. fjárlagafrumvarps er lögð til 200 millj. kr. hækkun fjárveitinga til Landspítalans og 50 millj. kr. til sjúkrahúss Akureyrar umfram það sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Þá er lagt til að samtals 430 millj. kr. fari til Heilbrigðisstofnunarinnar Akranesi, Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og St. Jósefsspítala til styrktar núverandi starfsemi sjúkrahúsanna en jafnframt til að gera þeim kleift að efla klíníska starfsemi sína með því að taka til sín aukin verkefni og nýta þannig betur mannafla og fastafjármuni sem fyrir eru. Er áformað að kanna sérstaklega hvernig fækka megi tilvísunum þessara sjúkrahúsa til Landspítala til að draga úr verkefnaálagi hans og með því að fjölga tilteknum aðgerðum á þessum sjúkrahúsum og Sjúkrahúsi Akureyrar sem nú eru unnin á Landspítala. Þá er ekki síst áformað að þessi sjúkrahús taki fyrr og í ríkara mæli við sjúklingum af viðkomandi svæðum eftir sérhæfða sjúkrahúsmeðferð á Landspítala. Vil ég hér einnig geta þeirra breytinga sem lagðar voru til við 2. umr. fjáraukalaga, fyrir um viku, er 3 milljarðar voru m.a. lagðir til umræddra heilbrigðisstofnana í sama tilgangi, þ.e. lækka uppsafnaðan halla eða styrkja rekstrargrunn.

Eins og áður hefur komið fram í ræðu minni mun varaformaður hv. fjárlaganefndar, hv. þm. Kristján Þór Júlíusson, fara allítarlega yfir útgjaldatillögur meiri hlutans í sundurliðunum. Ég tel að það hafi verið mjög brýnt að bregðast við ýmsu er varðar málefni einstakra stofnana og jafnvel félagasamtaka vegna fjárlaga ársins 2008. Að baki öllum þessum tillögum liggur heilmikil vinna, eins og nefndarmenn vita og allir hv. þingmenn. Ég er sannfærður um að við höfum í þessu starfi bætt hlut margra stofnana til muna vegna starfsemi á þeirra vegum á árinu 2008.

Stór hluti vinnu fjárlaganefndar undanfarnar vikur hefur verið að fjalla um atriði er tengjast húsafriðun, bátafriðun eða uppgerð gamalla báta, svo og ýmsum fornleifaverkefnum. Í ljósi þess að umræddum umsóknum og beiðnum um fund hefur fjölgað um nær 40% á milli ára tel ég að skoða verði í heild sinni umrætt vinnulag sem í nokkru gæti leitt af sér styrkingu sjóða en ekki síður að umræddir fundir fari fram mun fyrr á árinu en ella. Við munum nú fylgja eftir úthlutunartillögum okkar og fylgjast með þeim verkefnum sem hafa verið í gangi eða eru sett af stað.

Hæstv. forseti. Ég vil hér einnig nota tækifærið og gera að umtalsefni nokkur atriði sem lúta að gerð fjárlaga og vinnu Alþingis í kjölfar framlagningar frumvarpsins. Það er afar mikilvægt í mínum huga að vel takist til um gerð rammafjárlaga á komandi árum, þau eiga að vera það leiðarljós sem stofnanir geta stuðst við. Þá styrkir það vinnu ráðuneytanna, en ekki síður hefur fjárlaganefndin aðra aðkomu og skýrari að yfirferð frumvarpsins og vinnu við breytingartillögur. Það er ekki heppilegt vinnulag að þurfa á fjölmörgum löngum fundum í aðdraganda þessarar vinnu að kalla eftir minnisblöðum og skýringum sem þyrftu að koma á hraða ljóssins. Það er ekki heppilegt að stór hluti af tíma fjárlaganefndar fari í það á þessum tíma ársins að hitta aðila vegna einstakra verkefna vítt og breitt hringinn í kringum landið — það má gera á öðrum tíma.

Ég hef boðað að fjárlaganefndin fari ekki í frí eftir 3. umr. fjár- eða fjáraukalaga. Ég vil styrkja yfirferð þingsins á lokafjárlögum, taka til umfjöllunar allar stjórnsýsluúttektir Ríkisendurskoðunar en ekki hvað síst styrkja eftirlitshlutverk þingsins sem tengist framkvæmd fjárlaga.

Á undanförnum árum hefur allt að fjórðungur fjárlagaliða ráðstafað fjármunum umfram heimildir. Agi og festa skiptir miklu þegar kemur að fjármálastjórn og ráðstöfun fjármuna. Vissulega geta verið eðlilegar skýringar á því af hverju ráðstöfun er ekki í samræmi við heimildir en í samanburði við þær þjóðir sem við berum okkur gjarnan við þekkist það ekki að ráðstöfun fari fram án heimildarákvæða. Það er því hlutverk okkar allra sem komum að fjárlagagerðinni og framkvæmd fjárlaga að tryggja að við höldum okkur við þann ramma og það skipulag sem okkur er skapað.

Ákvæði reglugerðar um framkvæmd fjárlaga eru skýr og gefa fyrirmæli um að virða beri fjárlögin til fjárheimilda en ekki sem áætlun sem aðeins beri að hafa til hliðsjónar. Það er skýrt að Alþingi fer með fjárveitingavaldið og það er á ábyrgð Alþingis, ráðuneyta og forstöðumanna stofnana að sjá til þess að fjárlögin séu virt.

Á fundi fjárlaganefndar í júní sl. gaf ég skýr fyrirheit um það að fjárlaganefndin mundi á komandi mánuðum og árum sinna því hlutverki sínu er lýtur að eftirliti með framkvæmd fjárlaga. Það tengist þeirri ábyrgð sem fjárlaganefndinni er falin fyrir hönd Alþingis, fjárlaganefndinni sem fer með fjárveitingavaldið. Síðustu mánuðina hefur nefndin breytt verulega um vinnulag og hefur fjallað ítrekað um framkvæmd fjárlaga.

Það ber einnig að nefna að mikilvægt er að reglur um flutning fjárheimilda á milli verkefna og á milli ára verði gerðar skýrari en þær virðast nú vera. Skipaður hefur verið starfshópur innan fjárlaganefndar til að sinna því verkefni og einnig munu Ríkisendurskoðun og fjármálaráðuneyti koma að því.

Þá ber að leggja áherslu á að sameiginlegur skilningur um grundvallaratriði er varðar framkvæmd fjárlaga þarf að vera hverju sinni til staðar hjá þeim aðilum sem vinna að framkvæmdinni og/eða eftirlitinu. Á það virðist skorta að nokkru.

Það liggur fyrir, hæstv. forseti, að Ríkisendurskoðun hefur á undanförnum árum gert athugasemdir, í skýrslum sínum um framkvæmd fjárlaga, við að stofnanir hafi farið fram úr fjárheimildum án þess að gripið sé til aðgerða eins og reglur segja til um. Ítreka ber því mikilvægi þess að endurrýna og gera úrbætur á verklagi sem miða að því að framkvæmd fjárlaga sé með betri hætti en nú er. Niðurstaða fjölmargra skýrslna, greinargerða og yfirlita frá fjármálaráðuneytinu til fjárlaganefndar sýna að þess sé þörf.

Fjárlaganefndin mun taka þátt í þessu átaki með fjármálaráðuneytinu og Ríkisendurskoðun á næsta ári og er von mín að sú niðurstaða leiði okkur að markvissari ríkisrekstri og meiri aga og festu í kerfinu, en það eru þeir hlutir sem við höfum leitað eftir og viljum finna stað.

Hæstv. forseti. Ég vil hér gera að umtalsefni nokkur atriði sem munu verða skoðuð enn frekar milli 2. og 3. umr. Má þar fyrst nefna það verkefni stjórnarmeirihlutans að styrkja stöðu aldraðra og öryrkja. Með hliðsjón af breytingum innan Stjórnarráðsins er ljóst að verkefni munu flytjast milli ráðuneyta, málefni aldraðra og öryrkja munu því heyra að mestu undir félagsmálaráðuneytið. Vegna þessa hafa þau mál verið skoðuð og munu birtast okkur við 3. umr. fjárlaga þann 10. desember nk. Án þess að gefa hér nein loforð er mikilvægt að þau fyrirheit sem lagt var upp með til að styrkja stöðu aldraðra og öryrkja gangi eftir og Alþingi geti stutt umræddar breytingartillögur sem verða teknar hér til umfjöllunar.

Frá því á haustdögum hefur verið að starfi nefnd á vegum félagsmálaráðherra sem hefur tvíþætt hlutverk, í fyrsta lagi að skoða aðgerðir sem komi til framkvæmda strax á næsta ári til að bæta hag lífeyrisþega, en stefnt er að því að nefndin skili niðurstöðum sínum í upphafi desembermánaðar. Því er von á þeim niðurstöðum á næstu dögum og er þar unnið að því að fram komi tillögur til að bæta hag lífeyrisþega, en líkt og ég sagði áðan munu þær koma fram við 3. umr. fjárlaga. Þá er einnig unnið að því á vegum félagsmálaráðuneytisins að móta tillögur í samræmi við stjórnarsáttmálann sem miða að því að einfalda almannatryggingakerfið og skoða samspil þess og lífeyriskerfisins.

Það ber að ítreka að stjórnarmeirihlutinn hefur einsett sér að vinna að einföldun almannatryggingakerfisins. Eins er brýnt að taka til sérstakrar skoðunar samspil skatta, tryggingabóta, greiðslna úr lífeyrissjóðum og atvinnutekna einstaklinga til að tryggja meiri sanngirni og hvetja til tekjuöflunar og sparnaðar. Boðað hefur verið að dregið verði úr tekjutengingum og skerðingum bóta í almannatryggingakerfinu. Öll þau mál eru í vinnslu og er það trú mín að við 3. umr. þann 10. desember liggi fyrir skýrari línur í þeim verkefnum sem lúta að því að styrkja stöðu aldraðra og öryrkja, m.a. í kjölfar tillagna nefndar hæstv. félagsmálaráðherra.

Stjórnarmeirihlutinn hefur einnig lýst því yfir að ákveðið verði að hraða uppbyggingu 400 nýrra hjúkrunarrýma fyrir aldraða og fjölga einbýlum. Þess sjást merki í fjárlagafrumvarpinu þar sem farið er fram með verkefni sem voru kynnt við framlagningu frumvarpsins þann 1. október sl. Þar má nefna hjúkrunarheimili í Kópavogi, hjúkrunarheimili í Mosfellsbæ og hjúkrunarheimili í Reykjanesbæ. Í núverandi breytingartillögum er lögð til 160 millj. kr. tímabundin fjárveiting til að flýta framkvæmdum við 1. hæð viðbyggingar við Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Með því er áformað að flýta fyrir flutningi heilsugæsluþjónustu úr sjúkrahúsbyggingunni og skapa þar aðstöðu fyrir aðra starfsemi. Gert er ráð fyrir 160 millj. kr. til framkvæmdanna á árinu 2009 sem er lokaframlag. Þá er gerð tillaga um 20 millj. kr. tímabundna hækkun á framlagi til að flýta gerð viðbyggingar umræddrar Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, en áformað er að þar verði 40 rúma hjúkrunardeild á 2. og 3. hæð. Þá er einnig gert ráð fyrir að á næsta ári, í samræmi við yfirlýsingar ráðuneyta, að skoðuð verði áfram uppsetning á hjúkrunarheimilum í Garðabæ, á Ísafirði og í Hafnarfirði. Þau mál eru öll í skoðun og munu birtast okkur á næstu vikum og mánuðum.

Ég vil hér einnig geta þess að félagsmálaráðuneytið hefur á þessu ári unnið að endurnýjun þjónustusamninga við þau sveitarfélög og hagsmunasamtök er hafa tekið að sér að sjá um þjónustu við fatlaða, samkvæmt lögum um málefni fatlaðra og þeim reglugerðum er settar hafa verið með stoð í þeim lögum, gegn ákveðinni greiðslu úr ríkissjóði. Af þeim hópi á eftir að semja m.a. við Styrktarfélag vangefinna. Styrktarfélagið tekur með samningi að sér hluta af verkefnum sem svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík er falið gagnvart íbúum þess. Umræddur þjónustusamningur er í endurskoðun, en leitast verður við að styrkja rekstrargrunn vegna þjónustunnar og skoða um leið uppsafnaða fjárvöntun sem er nokkur. Öll þessi mál eru til yfirferðar.

Hæstv. forseti. Ég hef áður vikið að því að við 2. umr. frumvarps til fjárlaga flytjast nokkrir fjárlagaliðir milli ráðuneyta. Stærstu flutningarnir, ef flutninga má kalla, eru frá heilbrigðisráðuneyti til félagsmálaráðuneytis í samræmi við fyrirhugaðar breytingar á verkaskiptingu ráðuneytanna. Um er að ræða tugi milljarða og er þess vegna afar mikilvægt milli 2. og 3. umr. að endurrýna þær tillögur sem hér eru sýndar og mun ég fara þess á leit fyrir hönd fjárlaganefndar að félagsmálaráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti hafi með sér samráð og samvinnu um endurrýni á ráðstöfun fjár, fjárheimildum, á nokkrum tilgreindum fjárlagaliðum sem snerta verkefnatilflutninginn.

Það liggur fyrir að á milli 2. og 3. umr. fjáraukalaga, svo og fjárlaga, verði ýmis verkefni skoðuð enn frekar. Má þar nefna yfirferð á símenntunar- og fjarkennsluliðum, hvernig bæta megi aðstöðumun nemenda í framhaldsskólum, yfirferð á erindi Sambands íslenskra sveitarfélaga sem m.a. tengist niðurgreiðslum til hitaveitna og fráveituframkvæmdum sveitarfélaga. Þá er ljóst að skoða verður þau verkefnaumsvif sem tengjast Vatnajökulsþjóðgarði, breytingum hjá Náttúrufræðistofnun Íslands í ljósi frestunar á flutningum, yfirferð á Flugmálastjórn Íslands, almennri endurrýni á tillögum um skiptingu fjárveitinga á milli ráðuneyta eins og ég hef áður nefnt. Þá hafa einnig verið tekin upp á nefndarfundum fjárlaganefndar málefni Háskólans á Bifröst, háskólans á Hólum og háskólans á Hvanneyri, en ekki þarf síður að skoða þá þjónustusamninga sem eru nú í yfirferð sem m.a. heilbrigðisráðuneytið gerði okkur grein fyrir á fjárlaganefndarfundi, svo sem þjónustusamning við Samtök áhugamanna um áfengisvandamálið, SÁÁ. Hið sama á við um heilbrigðisstofnun á Reykjalundi en fjárlaganefnd hefur fengið fulltrúa beggja þessara aðila á sinn fund og rætt einnig málið við heilbrigðisráðuneytið. Þá er mikilvægt að fyrir liggi að nokkru sundurliðun á liðnum Viðhald fasteigna á svæðum sem verða fyrir aflasamdrætti þannig að fyrir liggi hvaða fasteignir er um að ræða. Þá eru fjárlaganefnd og efnahags- og skattanefnd nú með til yfirferðar málefni Þróunarfélagsins á Keflavíkurflugvelli, en gera má ráð fyrir breytingum við 3. umr. fjárauka- og fjárlaga, bæði á tekju- og gjaldahlið vegna þessa verkefnis. Efnahags- og skattanefnd mun síðan einnig gera grein fyrir áhrifum skattalagabreytinga á tekjur ríkissjóðs fyrir 3. umr. fjáraukalaga og fjárlaga.

Hæstv. forseti. Fram kom við 1. umr. fjárlaga að nauðsynlegt væri að fjárlaganefnd færi ítarlega ofan í málefni ráðuneyta og undirstofnana þeirra. Eins og ég sagði áðan stendur í nefndarálitinu að nefndin hefur haldið 31 fund og fengið hundruð gesta á fundi sína til að fá skýra mynd á rekstur einstakra stofnana og ráðuneyta. Af því tilefni vil ég árétta að gott samstarf var í nefndinni og ég vil sérstaklega þakka nefndarfólki í fjárlaganefnd fyrir gott samstarf í þeirri vinnu. Að sjálfsögðu getur stjórn og stjórnarandstöðu greint á í ýmsum málum, það geta verið uppi ólíkar skoðanir. Ég ítreka hins vegar þann vilja minn sem formaður að ná fram sem bestum upplýsingum og rökræðum í starfi nefndarinnar og þeir sem eldri og reyndari eru en ég í störfum fjárlaganefndar hafa vafalaust tekið eftir þeirri stefnubreytingu sem innleidd hefur verið í vinnubrögðum nefndarinnar. Þar hefur verið tekið upp nýtt vinnulag sem á eftir að þróast enn frekar. Um leið og ég þakka nefndarmönnum meiri hlutans og minni hlutans þann stuðning sem hefur myndast um hið nýja vinnulag vil ég samt sem áður sérstaklega þakka hv. þm. stjórnarandstöðunnar, þeim Jóni Bjarnasyni, Guðjóni A. Kristjánssyni og Bjarna Harðarsyni. Nærvera þeirra umliðnar vikur og mánuði hefur verið okkur hinum ómetanleg í því aðhaldi sem þeir sýna okkur í stjórnarmeirihlutanum.

Þó að stjórnarandstaðan skrifi ekki upp á álit meiri hlutans má sjá fingraför þeirra hv. þingmanna víða og vona ég að þeir muni styðja einstakar tillögur í atkvæðagreiðslunni á morgun. Um leið vil ég minna á að í breytingartillögunum eru atriði sem snerta styrkingu nefndasviðs, styrkingu aðstoðar til formanna stjórnarandstöðuflokkanna og styrkingu aðstoðar við hv. þingmenn sem ekki eru ráðherrar og eru úr landsbyggðarkjördæmum. (Gripið fram í.)

Þá ber að þakka starfsfólki nefndasviðs Alþingis sérstaklega, þá sérstaklega fjárlaganefndarskrifstofu, sem hefur lagt á sig ómælda vinnu undir gífurlegu vinnuálagi. Það starfsfólk á heiður skilið fyrir skipuleg og fagleg vinnubrögð í hvívetna en nefndarmenn meiri og minni hluta hafa notið aðstoðar þeirra í hvívetna. Þá hefur nefndin einnig notið aðstoðar Ríkisendurskoðunar og fjármálaráðuneytis. Einnig hafa einstök ráðuneyti veitt nefndinni upplýsingar og aðstoð.

Hæstv. forseti. Það er með mikilli ánægju sem ég lýk máli mínu og ítreka það sem áður hefur komið fram hér á hinu háa Alþingi, við höfum öll sett okkur afar metnaðarfull markmið á mörgum sviðum sem öll eiga það sameiginlegt að stuðla að aukinni velsæld íslensku þjóðarinnar. Þetta er auðvitað meginmarkmið stjórnmálanna, að bæta kjör almennings og skapa hér fjölskylduvænt samfélag þar sem fólki líður vel og um leið að skapa umhverfisvænt samfélag sem við getum verið stolt af og skapa hér samkeppnishæft og aðlaðandi umhverfi fyrir okkar kröftuga atvinnulíf hér á landi.