135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[12:21]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Svavarssyni, formanni fjárlaganefndar, fyrir greinargóða framsögu með tillögu nefndarinnar við 2. umr. Ég vil jafnframt þakka nefndinni fyrir gott starf við að koma öllum þessum tillögum til skila til þingsins. Þó er um óvenju flókið og viðamikið verkefni að ræða að þessu sinni þar sem bæði er verið að gera breytingar á verkaskiptingu í Stjórnarráðinu og eins eru í frumvarpinu tillögur um mótvægisaðgerðir sem þurfti að færa út á einstaka liði.

Hv. þingmaður gerði að sérstöku umræðuefni þann þátt er varðar Tryggingastofnun og málefni aldraðra og öryrkja. Því miður var ekki komið að niðurstöðu í því máli þegar nefndin lauk störfum vegna 2. umr. Ég sé ekkert óeðlilegt við það þar sem málefnið er viðamikið, ný stjórn að taka við og verkaskipting í gangi.

Ég vildi því staðfesta það sem kom fram hjá hv. formanni nefndarinnar að ríkisstjórnin gerir ráð fyrir því að fá niðurstöðu í þessu máli fyrir 3. umr. þannig að Alþingi hafi mynd af því og hægt verði að taka afstöðu til þeirrar stöðu sem uppi verður þegar málin verða kláruð við 3. umr.