135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[12:23]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. formanni fjárlaganefndar Gunnari Svavarssyni fyrir nefndarálitið sem hann hefur flutt og tek undir orð hv. þingmanns um um gott samstarf um vinnulag í nefndinni. Að sjálfsögðu greinir okkur á í pólitískum atriðum en það er einlægur vilji allrar nefndarinnar að bæta vinnubrögð frá því sem verið hefur. Það hefur torveldað vinnubrögð í fjárlaganefnd hversu frumvarpið var vanbúið frá fjármálaráðherra. Það var mjög illa unnið. Ég minnist þess ekki að hafa fengið jafnilla unnið fjárlagafrumvarp frá fjármálaráðherra og þetta, bara tæknilega. En sú tæknivinna leggst á starfslið nefndarinnar sem er aldeilis fullhlaðin verkum. Á slíkum vinnubrögðum þarf að verða breyting.

Ég ætla hins vegar að spyrja hv. þingmann um tekjuforsendur fjárlaga. Við höfum upplifað það á síðustu árum að lítið hefur verið að marka grunnforsendur fjárlaga, sérstaklega hvað varðar tekjur og stöðu efnahagsmála í þjóðfélaginu.

Nú er t.d. gert ráð fyrir því að á þessu ári verði 0,7% hagvöxtur í tillögum og vinnu fjármálaráðuneytisins þótt að allir viti að hann verði líklega um og yfir 4%. Það hefur verið upplýst að fjármálaráðuneytið muni ekki endurvinna forsendur fjárlaga fyrr en í janúar á næsta ári en það sem nú er unnið eftir sé frá því á miðju sumri. Þetta finnst mér mjög óviðunandi (Forseti hringir.) og spyr hv. þingmann hvort hann muni beita sér fyrir því að þetta verði (Forseti hringir.) endurskoðað á milli 2. og 3. umr.