135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[12:26]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka góð orð frá hv. þingmanni í garð fjárlaganefndar. En um leið má segja að hann hefði mátt sleppa þeirri sneið sem fjármálaráðuneytið fékk í ræðu hans. En það verður hver að hafa sinn háttinn á í því.

Ég vil í ljósi þessa ítreka atriði sem ég fór yfir varðandi tekjuhliðina, að forsendur tekjuhliðar fjárlagafrumvarpsins byggja á þjóðhagsspá fyrir árin 2007–2012 í samræmi við haustskýrslu efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins en spáin verður endurskoðuð reglulega og umræddar breytingar sem koma nú fram í breytingartillögunni byggja á endurskoðaðri tekjuáætlun umræddrar skrifstofu.

Jafnframt vil ég ítreka atriði er tengjast efnahags- og skattanefndinni. Ég minnti á að efnahags- og skattanefndin hefði frumvarpið til yfirferðar og umræðu og mundi skila séráliti til okkar um tekjuforsendur í fjáraukalögum fyrir 3. umr. og í fjárlögum vegna 2008 fyrir 3. umr. Það er í samræmi við 25. gr. þingskapa eins og komið hefur fram áður í umræðu um fjárlög.

Hvað varðar starfsemi efnahagsskrifstofunnar fór ég yfir það hér í umræðu þegar frumvarpið var lagt fram að efnahagsskrifstofa fjármálaráðuneytisins reynir eftir bestu getu að birta áætlanir. Reynslan hefur sýnt að áætlanagerð hennar er hvorki verri né betri en áætlunargerð annarra sem spá um efnahagsmál á íslenskum fjármálamarkaði.