135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[13:31]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (frh.):

Frú forseti. Ég geri hér grein fyrir nefndaráliti 1. minni hluta fjárlaganefndar en auk mín stendur hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson, þingmaður Frjálslynda flokksins, að áliti þessu.

Ég hef í fyrri ræðum vikið að þeirri miklu óvissu og umróti sem nú er í efnahagsmálum þjóðarinnar og miklum aðsteðjandi vanda í hagstjórn sem markað hefur efnahagsumhverfið og hefur áhrif á afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2008. Ljóst er að orsakir þess vanda sem nú er við að glíma er m.a. að leita í mistökum fyrri ríkisstjórnar sem skellti skollaeyrum við varnaðarorðum og stuðlaði að gríðarlegum stóriðjuframkvæmdum sem öllum var ljóst að mundu reyna mjög á hagstjórnartæki og þanþol efnahagslífsins. Nægir í því sambandi að vitna í varnaðarorð Seðlabankans og erlendra ráðgjafarstofnana á sviði efnahagsmála.

Með pólitískum ákvörðunum og þrýstingi þáverandi stjórnarflokka, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, voru áformin keyrð áfram og öll andstaða og varnaðarorð höfð að engu. Gilti þá einu hvort menn legðust gegn framkvæmdunum vegna umhverfisspjalla sem þeim fylgdu, vöruðu við efnahagsáhrifum eða því að ruðningsáhrifin yrðu dýrkeypt fyrir annað atvinnulíf og skuldsettan almenning og reyndu mjög á hagstjórnina.

En ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lét ekki þar við sitja heldur lækkaði hún tekjuskatt mitt í þenslunni, einkum þó á hátekjufólki, sem hafði aukin áhrif til þenslu eins og áformin um stóriðjuna. Ofan í kaupið var fyrri ríkisstjórn bundin af kosningaloforðum Framsóknarflokksins um hækkun á lánshlutfalli íbúðalána. Hin mikla þensla sem orðið hefur á íslenska fasteignamarkaðnum á þátt í því efnahagsumróti sem við stöndum frammi fyrir og höfum upplifað að undanförnu.

Þessu til viðbótar er það staðreynd að fyrri ríkisstjórn og Seðlabankinn gengu aldrei í takt í hagstjórn, samanber það er þeir lækkuðu bindiskyldu bankanna sem tók gildi í ársbyrjun 2004. Ríkisstjórnin lagði oftar en ekki stein í götu viðleitni Seðlabankans til að halda aftur af verðbólgu og kæla niður hagkerfið. Afleiðingarnar eru alkunnar. Gríðarlegur viðskiptahalli, verðbólga og ítrekaðar vaxtahækkanir Seðlabankans til að halda aftur að þenslu og verðbólgu hefur undir árslok skilað því að stýrivextir eru einhverjir þeir hæstu á byggðu bóli, eða af hálfu Seðlabankans 13,75% og vaxtastig í landinu, hjá þeim sem verða að taka lán, hvort sem það eru langtímalán eða skammtímalán, er líklega með því hæsta sem gerist. Það er að sliga heimili og atvinnulíf.

Ástandið í dag er jafnframt afleiðing þess að ný ríkisstjórn sem tók við völdum í maímánuði síðastliðnum hefur ekkert aðhafst í hagstjórninni. Tækifærin sem ríkisstjórnin fékk til að senda efnahagslífinu og þjóðarbúskapnum öllum sterk skilaboð um að stigið yrði á bremsur var ekki nýtt. Ríkisstjórnin hefur verið með afbrigðum daufleg, gert lítið úr vandanum og drepið umræðu um hagstjórn á dreif. Ef eitthvað er hefur sú gjá breikkað síðustu mánuði sem myndaðist í tíð fyrri ríkisstjórnar á milli Seðlabankans og fjármálalífsins annars vegar og ríkisstjórnar hins vegar. Formenn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks hafa dregið í efa gagnsemi vaxtahækkana Seðlabankans og virkni peningamálastefnunnar. Tæpast flokkast það sem jákvætt framlag eða mikill stuðningur við viðleitni Seðlabankans.

En eitt er víst. Ástandið er með öllu óviðunandi. Það finnur hver einstakur á sér í samfélaginu. Vaxtakostnaður er óheyrilega hár. Verðbólgan er of mikil. Greiðslubyrði á lánum heimilanna er gríðarleg og ljóst að þúsundir fjölskyldna eiga í miklum erfiðleikum með að ná endum saman og standa skil á afborgunum lána. Hið háa vaxtastig og vaxtamunur á milli Íslands og annarra landa hefur styrkt gengi krónunnar með innstreymi erlends fjármagns sem þýðir að rekstrarskilyrði útflutnings og samkeppnisgreina er bágborið og síst mega þær við því, sérstaklega sjávarútvegurinn vegna ákvarðana um niðurskurð á þorskafla. Hinn gríðarlegi uppsafnaði viðskiptahalli er ávísun á vaxandi skuldabyrði þjóðarbúsins. Hann gæti haft alvarlega afleiðingar til lengri tíma litið.

Frú forseti. Jafnvægisleysið í hagkerfinu og hagstjórnarvandamálin sem við blasa verða hættulegri með hverjum mánuði. Loks bætist við mikill óróleiki á verðbréfamarkaði og óvissa með þróun alþjóðaefnahagsmála á komandi mánuðum. Einnig er við mikið jafnvægisleysi og misgengi að glíma hér innan lands. Einkum er staðan ólík milli þenslusvæðisins við Faxaflóann, á suðvesturhorni landsins, og landsbyggðarinnar. Þetta jafnvægisleysi er á sinn hátt hluti hagstjórnarvandans og tengist einnig afkomu útflutnings- og samkeppnisgreina, t.d. sjávarútvegs og ferðaþjónustu sem vega þungt í efnahagslífi landsmanna, einnig landbúnaðar og margs konar hugverkaatvinnu.

Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2008 er gert ráð fyrir að heildartekjur ríkissjóðs verði um 461 milljarður króna og þar af nemi skatttekjur um 422 milljörðum kr. Samkvæmt því er gert ráð fyrir að tekjur verði 85 milljörðum kr. meiri en á fjárlögum ársins 2007. En þegar betur er að gáð kemur í ljós að tekjur ríkisins á árinu 2007 verða líklega um 456 milljarðar, samanber endurskoðaða tekjuáætlun við 2. umr. fjáraukalaga, eða um 80 milljörðum kr. hærri en gert var ráð fyrir á yfirstandandi fjárlögum. Tekjur ársins 2008 eru því áætlaðar 5 milljörðum kr. hærri, sé miðað við endurskoðaða tekjuáætlun 2007. Ný tekjuáætlun fjármálaráðuneytisins gerir ráð fyrir að tekjur ríkisins hækki um 8 milljarða kr. og verði rúmir 469 milljarðar kr. Munar þar mest um hækkun á virðisaukaskatti.

Frú forseti. Það er augljóst að áætlanagerð af hálfu ríkisstjórnarinnar í þessu frumvarpi virðist ekkert traustari eða betur undirbyggð en áætlanir fyrri ára. Helstu forsendur frumvarpsins eru t.d. að hagvöxtur ársins 2008 verði um 1,2% og samdráttur í þjóðarútgjöldum verði tæplega 5% en viðsnúningur verði í utanríkisviðskiptum sem beri uppi hagvöxtinn. Gert er ráð fyrir að verulega dragi úr viðskiptahalla og hann verði tæplega 9% af landsframleiðslu, atvinnuleysi aukist og verði um tæp 3% af vinnuafli. Loks er gert ráð fyrir að verðbólgan minnki niður í 3,3% á árinu 2008 og það dragi úr einkaneyslu.

Helstu óvissuþættir frumvarpsins eru áform um frekari stóriðjuframkvæmdir, ástand á alþjóðamörkuðum, gengi íslensku krónunnar og komandi kjarasamningar. Hér er ekki um að ræða smávægilega óvissuþætti. Þeir veikja verulega tiltrú á að tekjuáætlun og fjárlagafrumvarpið í heild sinni sé trúverðugt. Það eitt að láta ógert að lýsa yfir hvort ráðist verði í nýjar álverksmiðjur og nýjar stóriðjuframkvæmdir eða ekki á næsta ári, segja allir aðilar, allar greiningardeildir og aðrir sem vinna með grunntölur efnahagslífsins, að skipti sköpum. Það skiptir sköpum. Hér verður allt í bullandi þenslu áfram ef ákvörðun um stóriðju verður tekin.

En ríkisstjórnin skilar auðu í þessu og segir kannski og kannski ekki. Aðeins sá þáttur sýnir hversu óábyrg fjármálastjórnin er, þ.e. fari í gang nýjar og auknar stóriðjuframkvæmdir þá verður áframhald á þenslu, áfram háir vextir, verðbólga o.s.frv. Það er ástand sem mundi vera mjög skaðlegt bæði fyrir atvinnulíf og einstaklinga. Viljum við halda við slíku ástandi? Nei, ég held að einstaklingurinn, hinn almenni borgari þessa lands, vilji ekki áframhaldandi þenslu, háa vexti og vaxandi skuldabyrði þjóðarbúsins. Áframhaldandi aukna greiðslubyrði heimilanna. Nei. En það er ekkert í þessu frumvarpi sem gefur almennum borgurum landsins vísbendingu um hvað er í vændum. Þar skilar ríkisstjórnin auðu og gefur ekkert upp. Það gerir það að verkum að fjárlagafrumvarpið í heild sinni verður mun ómarktækara en annars væri, svipað og verið hefur á undanförnum árum.

Fyrir dyrum eru síðan kjarasamningar. Ég held ef við rifjum upp kosningaloforð fyrir síðustu kosningar þá hafi flestir flokkar lofað því að kjör hinna lægst launuðu, þeirra sem vinna á heilbrigðisstofnunum, á sjúkrahúsum, elliheimilum, hvort heldur hjúkrunarfólk, sjúkraliðar, starfsfólk í mötuneytum eða ræstingum, yrðu betri. Allt þetta fólk þarf betri kjör til þess að þessar stofnanir og þessi þjónusta geti sinnt sínum verkefnum á samkeppnishæfum vettvangi.

Við þekkjum flest af eigin raun stöðu aldraðra á elli- og hjúkrunarheimilum. Ég held að við þekkjum öll stöðuna á leikskólunum, að vegna kjara í samfélaginu eru starfsmenn á leikskólum ekki samkeppnisfærir og þess vegna er ekki hægt að starfrækja leikskóla með eðlilegum hætti. Það verður að forgangsraða á nýtt. En því miður sér þess ekki stað í þessu fjárlagafrumvarpi.

Ljóst er að margar forsendur við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2008 eru gagnrýnisverðar. Þó má gera ráð fyrir að mikill þróttur verði í efnahagslífinu. Miðað við nýjustu tíðindi er vart hægt að gera ráð fyrir að úr þeim þrótti dragi svo fljótt og frumvarpið gerir ráð fyrir, þ.e. þenslunni. Mikil þensla er á vinnumarkaði og engin merki um að úr henni dragi í bráð. Þvert á móti er vinnumarkaðurinn í vexti og hálaunastörfum að fjölga.

Það samfélag sem við sjáum nú einkennist af gríðarlegum tekjumun sem er að kljúfa íslenskt samfélag, annars vegar er stór hópur hátekjufólks, sem hefur notið sjálftökuréttar hvað varðar kaup og kjör og skattalækkunarstefnu fyrrv. ríkisstjórnar, skattalækkanirnar komu fyrst og fremst hinum tekjuhæstu til góða, hins vegar eru það hinir tekjulægri. Sá hópur stækkar og bilið breikkar milli hópanna. Það veldur auknu ójafnvægi í samfélaginu sem við nú stöndum frammi fyrir. Þess vegna er brýnt að við fjárlagagerðina, þegar ríkissjóður stendur vel, sé með markvissum hætti komið til móts við tekjulægsta fólkið, eldri borgara, öryrkja og fólkið í umönnunarstéttunum. Hvergi er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að það kosti neitt og hvergi er gert ráð fyrir því að í kjarasamningum verði að gera stórátak í þessum efnum. Ekki er minnst á það í frumvarpinu.

Virðulegi forseti. Það er ýmislegt fleira sem má velta fyrir sér í forsendum frumvarpsins um að verðbólga minnki í 3,3% árið 2008. Eru þær trúverðugar? Hver var spáin fyrir þetta ár? Jú, að hún yrði um 4%. Viðmiðunarmörk Seðlabankans eru 2,5% og verðbólgan mælist nú milli 5 og 6% miðað við síðustu 12 mánuði. Við ákvörðun stýrivaxta Seðlabankans leitast menn við að spá um ástand efnahagsmála meira en ár fram í tímann. Við nýjustu ákvörðun um hækkun stýrivaxta hlýtur Seðlabankinn að gera ráð fyrir að verðbólguþrýstingur sé meiri en áður var áætlað. Að mörgu leyti er rökrétt að gera ráð fyrir meiri verðbólgu árið 2008 en reiknað er með í frumvarpinu. Fyrir liggur að óvissuþættir eru það veigamiklir að gera má ráð fyrir miklum frávikum frá áætluninni, heildartekjur ríkissjóðs gætu þess vegna orðið mun hærri en lagt er upp með í frumvarpinu. Ráðaleysi ríkisstjórnarinnar við stjórn efnahagsmála er því óhuggulegt. Það gefur lítið tilefni til að vænta þess að það dragi úr þenslu og aukið jafnvægi komist á í hagkerfinu. Öll teikn eru á lofti um að því miður sé um að ræða verulegt vanmat á hagspá og hagrænum þáttum í forsendum tekjuáætlunarinnar sem útgjaldaáætlun sumarsins byggist á.

Eins og ég vék að áðan hefur á undanförnum árum komið í ljós að hagspár fjármálaráðuneytisins hafa reynst meira og minna fjarri öllum raunveruleika og í grundvallaratriðum gagnslaust eða gagnslítið plagg til að byggja á stjórn efnahagsmála og meta framvinduna í þeim efnum. Á undanförnum árum hafa tekjur ríkissjóðs alltaf verið mun hærri en fjárlög viðkomandi árs hafa gert ráð fyrir. Það er vegna þess að þenslan í þjóðfélaginu hefur verið mun meiri en áætlað var sem sýnir hve áætlanirnar eru illa undirbyggðar. Mikil óvissa ríkir áfram um þróun efnahagsmála á næsta ári og því erfitt að spá fyrir hverjar tekjur ríkissjóðs verða, m.a. af því að forsendur eru ekki gefnar. Verði um verulegan samdrátt að ræða, ef það breyttist nú þannig, erum við búin að veikja svo tekjugrunn ríkissjóðs með skattalækkunum á hátekjufólki sérstaklega, getur líka orðið erfitt fyrir ríkissjóð að hafa nægar tekjur til að standa undir velferðarkerfinu, þeim útgjöldum sem við viljum að hann standi undir. Stefna ríkisstjórnarinnar á undanförnum árum, að færa skattbyrðina af hæstu tekjum, færa hana af fyrirtækjunum sem mestum arði skila, yfir á lægri tekjur, yfir á neysluskatta, hefur leitt til þess að tekjugrunnur ríkissjóðs verður veikari og veikari. Það er verulegt áhyggjuefni.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs munum leggja fram breytingartillögur varðandi tekjuhlið frumvarpsins, hvernig megi bæði styrkja hann og gera hann breiðari, létta hlutfallslegri skattbyrði af lægstu tekjum og færa skattbyrðina og þátttöku í velferðarkerfinu yfir á þá sem hæstar hafa tekjurnar, yfir á þá sem fá hæstu fjármagnstekjurnar o.s.frv. Breytingartillögur munu koma frá okkur hvað það varðar.

Hægt væri að hafa mörg orð um hagstjórnina, frú forseti, en ég held að hagstjórn ríkisstjórnarinnar sé einn veikasti þátturinn í stýringu samfélagsins og það hvernig allt þjóðfélagið kemur til með að virka. Ég minni t.d. á að nú nýlega breytti matsfyrirtækið Standard & Poor´s horfum á lánshæfismati ríkissjóðs úr stöðugum í neikvæðar án þess þó að gengið væri það langt að færa lánshæfismatið tölulega niður. En mjög alvarleg skilaboð voru gefin. Reyndar þurfti það ekki að koma á óvart í ljósi efnahagsstefnu fyrri ára. Seðlabankinn og fleiri aðilar, sem hafa verið að leggja mat á stöðuna, hafa varað við því á undanförnum árum, ekki síst á síðasta ári. Í fréttatilkynningu Seðlabanka Íslands sagði m.a., með leyfi forseta:

„Endurskoðun á horfunum endurspeglar vaxandi og þrálátt ójafnvægi í íslenska hagkerfinu, auk skorts á aðhaldi í ríkisfjármálum. Þótt skammtímaraunvextir Seðlabankans hafi farið yfir 8% er virkni miðlunar peningastefnunnar takmörkuð af snarpri aukningu í erlendum lántökum heimila og lítilli svörun vaxta á íbúðalánum við auknu aðhaldi peningastefnunnar. Endurnýjaður vöxtur í neyslu og seinkun á aukningu útflutnings leiða til þess að viðskiptahallinn mun ekki lagast eins hratt og búist var við. Áframhald á mikilli lántöku til húsnæðiskaupa kyndir undir verðhækkunum á húsnæði sem aftur dregur úr hjöðnun verðbólgu. Þetta er undirrót þess að Seðlabankinn hækkaði stýrivexti í 13,75% í nóvember 2007. Hagvöxtur hefur verið mikill í síðustu uppsveiflum í fjárfestingu og útlánum og á húsnæðismarkaði“ — sem sýnir óstöðugleika hans — „… munu þessir þættir auka áhættuna á harðri lendingu íslenska hagkerfisins.“

Ég er síst að mæla því bót að Seðlabankinn rjúki upp með vextina, alls ekki. En honum eru sett skilyrði samkvæmt gildandi lögum. Seðlabankinn er hluti af efnahagsstjórninni sem er á ábyrgð forsætisráðherra ríkisstjórnarinnar. Seðlabankinn getur í sjálfu sér ekki gert annað í þessum efnum en að fylgja þeirri stefnu og bregðast við henni með þeim fátæklegu tækjum sem hann hefur, það eru nánast alfarið stýrivextirnir. Þess vegna er það furðulegt þegar jafnvel hæstv. forsætisráðherra, Geir H. Haarde, gagnrýnir Seðlabankann fyrir ákvarðanir sem hann er knúinn til að taka samkvæmt lögum. Forsætisráðherra er yfirmaður efnahagsmála og gæti þá, ef hann vildi hafa aðra skipan á, komið þeim skilaboðum með beinum hætti á framfæri. Þarna hafa þeir verið samstiga, formenn stjórnarflokkanna, um að berja á Seðlabankanum í staðinn fyrir að taka á eigin málefnum innan ríkisstjórnarinnar.

Þó að matsfyrirtækið Standard & Poor´s hafi ekki breytt lánshæfismati íslenska ríkisins heldur eingöngu breytt horfunum úr stöðugar í neikvæðar eru það slæm tíðindi fyrir ríkissjóð. Þegar mati á horfum hefur verið breytt eru miklar líkur á að innan nokkurra mánaða verði lánshæfismatinu breytt í takt við þær breytingar sem gerðar voru á horfunum. Fari svo að lánshæfismatið verði lækkað yrðu afleiðingarnar þær að íslenska ríkið fengi verri lánakjör á erlendum og innlendum lánamarkaði. Að vísu er ríkið sjálft ekki stór lántakandi vegna sterkrar stöðu ríkissjóðs. Lánshæfismatið hefur fyrst og fremst áhrif á lánshæfismat allra íslenskra ríkisfyrirtækja eins og Landsvirkjunar, Íbúðalánasjóðs o.s.frv. en einnig á lánshæfismat bankanna og annarra þeirra sem taka lán á erlendum vettvangi.

Í öllum meginatriðum er álit Standard & Poor´s samhljóða greiningu og áliti Seðlabanka Íslands eins og það birtist í Peningamálum árið 2007 í 3. hefti. Bæði forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafa gagnrýnt Standard og Poor´s fyrir það álit. Forsætisráðherra segir m.a. í viðtali við Morgunblaðið 21. nóvember, með leyfi forseta:

„Auðvitað er það óheppilegt að þeir skuli breyta horfunum en ég tel að rökstuðningnum fyrir því sé nokkuð ábótavant.“

Fjármálaráðherra tekur öllu dýpra í árinni enda virðist hann ekki átta sig á ástandinu eins og við höfum svo oft rekið okkur á hér í þingsal. Hann segir orðrétt í sama viðtali, með leyfi forseta, og kemur ekki á óvart að hann skuli taka svo til orða:

„Stundum áttar maður sig hreint ekki á álitum sem koma frá þessum aðilum. Það er sífellt talað um sömu hlutina, alveg sama hverjar aðstæðurnar eru. Það er sama hvort við erum búin að skera framkvæmdir ríkissjóðs niður í 1% af landsframleiðslu eða hvort þær eru 2% af landsframleiðslu. Það eru sömu athugasemdirnar sem koma frá þeim við aðstæður sem eru allt aðrar. Það hlýtur að segja manni að þeir eru ekkert að skoða aðstæðurnar hérna hjá okkur.“

Ég held að fjármálaráðherra ætti að byrja á að skoða sjálfur aðstæðurnar hjá sér, sem hann virðist ekki gera. Það er voðalega ódýrt að skamma aðra fyrir eigin aðgerðarleysi og stefnuleysi. (Gripið fram í: Hvar er fjármálaráðherra? Er hann ekki við?) Ætli það sé ekki eins og hann segir sjálfur, hæstv. ráðherra, hann áttar sig hreinlega ekki á þessu. Það er hin klassíska setning fjármálaráðherra þegar verið er að ræða efnahagsmál og fjármál, hann áttar sig hreinlega ekki á þessu, ég vitnaði orðrétt í ummæli hans áðan, frú forseti. (Gripið fram í: Hann kann að hafa áttað sig á því að þú sért í ræðustól.) En þessar yfirlýsingar eru einmitt sérkennilegar af því að það er Seðlabankinn, það eru innlendir aðilar sem útvega og senda allar þessar upplýsingar til Standard & Poor´s. Matsfyrirtækin finna ekki þessar upplýsingar upp hjá sjálfum sér. Nei, þetta eru upplýsingar sem eru m.a. sendar frá Seðlabanka Íslands og liggja til grundvallar því mati sem verið er að gera, enda er þetta álit að stórum hluta samdóma áliti Seðlabanka Íslands sem verið hefur undanfarna mánuði og missiri. En fjármálaráðherra áttar sig bara ekkert á þessu. Hann ætti kannski að fá kennslustund hjá Seðlabankanum í þessum efnum.

Frú forseti. Það vekur sérstaka athygli, þegar rýnt er í fjárlagafrumvarpið og breytingartillögur meiri hlutans við 2. umr. fjárlaga, að engrar stefnubreytingar verður vart í áherslum frá tíð fyrri ríkisstjórnar. Þess sér hvergi stað að núverandi ríkisstjórn hyggist efna umfangsmikil kosningaloforð, sérstaklega Samfylkingarinnar, á sviði velferðarmála, leggja aukna áherslu á umhverfismál eða annað í þeim dúr sem hafa þó verið áherslur af hálfu þess flokks á undanförnum missirum. Ég man til þess að við stóðum saman að mörgum tillögum í velferðar- og í umhverfismálum til að undirstrika stefnu okkar í þeim málum. Það fer lítið fyrir því nú þegar Samfylkingin er komin undir sæng Sjálfstæðisflokksins.

Ekki sjást mikil merki þess að gera eigi stórátak í menntamálum, líkt og lofað var, til rannsókna og þróunarmála. Þar sést ekkert stórátak. (Gripið fram í.) Hvernig var það annars með skattleysismörkin sem Samfylkingin lofaði að hækka? Ég man ekki hve hátt hún fór í þeim efnum. Þau voru í Borgarnesræðu komin upp á 150 þús. kr., skattleysismörkin. (Gripið fram í.) Það var Borgarnesræða hv. þm. Ellerts B. Schrams, hv. þingmanns Samfylkingarinnar. (Gripið fram í.)

Skattleysismörkin standa áfram í 90 þús. kr. sem fyrrverandi ríkisstjórn hækkaði síðast á kjörtímabilinu, sem hafði verið lofað fjórum árum áður en hafði staðið í stað allt kjörtímabilið og ríflega það, fyrrverandi ríkisstjórnar. Þá voru mörkin loksins hækkuð fyrir mikinn þrýsting. Ekki hvað síst fyrir sameiginlegan þrýsting þingmanna Vinstri hreyfingar – græns framboðs, Samfylkingarinnar og Frjálslynda flokksins voru skattleysismörk hækkuð upp í 90 þús. kr. Nú fylgja þau ekki einu sinni verðlagi og ekki einu sinni hækkun á launavísitölu. Þau fylgja ekki því sem er að gerast í samfélaginu. Þetta eru efndir á loforðum Samfylkingarinnar varðandi skattleysismörkin.

Ég býst við að margir verði fyrir miklum vonbrigðum því annað eins var lagt undir í þessum efnum. Ég er alveg sammála því að það er grunnforsenda að skattleysismörk haldi í við þróunina í þjóðfélaginu og þau verði hækkuð. Fyrir lægst launaða fólkið er kannski ein besta kjarabótin að fá skattleysimörkin hækkuð.

Ég minnist slagsins sem var tekinn á síðastliðnum vetri, þar sem þingmenn Samfylkingarinnar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Frjálslynda flokksins stóðu saman að mjög metnaðarfullri og öflugri tillögu í velferðarmálum sem skapaði grunn fyrir sameiginlega baráttu þessara flokka á síðasta þingi fyrir bættum kjörum. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins rann undan í þeirri baráttu og ýmis ákvæði sem hún ætlaði ekki að hrinda í framkvæmd fyrr en 2009, 2010, 2011 eða 2012, voru knúin fram með harðri umræðu þessara flokka á þingi. Þannig að varðandi kjör eldri borgara og varðandi þetta mál. sýnist mér Samfylkingin hafa náð meiri árangri með okkur í stjórnarandstöðu en með því að að fara í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og láta allt standa óbreytt.

Á einu sviði ber fjárlagafrumvarpið í sér grundvallarstefnubreytingu frá því sem verið hefur á fyrri árum. Það eru stóraukin útgjöld til hernaðarmála. Okkur kom á óvart að á síðastliðnu sumri þurfti allt í einu að stunda heræfingar á íslenskri grund, svo skyndilega kom það upp að brjóta þurfti fjárreiðulög. Fara í þau útgjöld án þess að hafa heimild til þess á fjárlögum að ráðast í heræfingar. Um það var síðan sótt á fjáraukalögum, fjármagn til að fjármagna heræfingar Samfylkingarinnar á síðasta sumri undir forustu utanríkisráðherra. Nú koma aftur inn í frumvarpið stóraukin útgjöld, nýr liður sem heitir Varnarmál og er um hermál. Hér á að fara stofna sérstaka hermálastofnun sem hafa á umsjón með heræfingum. Erlendir herir fá að koma hingað og æfa sig á íslenskri grund og íslenska ríkið borgar.

Í þessu felst kannski ein stærsta stefnubreytingin sem við verðum vör við í frumvarpinu núna. Ég minnist þess ekki í lýðveldissögunni að á Íslandi hafi verið rekin sérstök heræfingastofnun. Við litum svo á að á meðan erlendur her var á Íslandi væri hann hér í nauðungarskyni. Meira að segja þeir sem voru fylgjandi hersetunni lýstu því yfir að her ætti aðeins að vera hér á ófriðartímum. Það hefur verið stefna stjórnvalda allt fram undir það síðasta. Menn gátu metið hvenær þeir töldu að það væru friðar- eða ófriðartímar en samt sem áður var haldið fast í að það væri ekki Ísland sjálft sem ætlaði að hervæðast, reka hér heræfingabúðir eða kosta heræfingar.

Eitt fyrsta málið sem kemur fyrir þingið er hins vegar að koma upp sérstakri stofnun sem hafi umsjón með og deili út fjármagni til heræfinga hér á landi, á annan milljarð kr. beint til þeirra mála. (Gripið fram í: Bíddu nú við.) Þegar litið er á bæði árin, árin 2007 með fjáraukalagabeiðnum sem þá komu inn vegna heræfinganna og svo aftur núna, er innan árs um hátt í 2 milljarða að ræða tengda hernaði og nýjum verkefnum í hernaði og heræfingum hér á landi.

Ég hefði heldur viljað sjá þá peninga renna til velferðarmála, til að hækka skattleysismörk ellilífeyrisþega og öryrkja, standa við kosningaloforð hvað það varðar. Nei, þá eru hermálin valin, sem eru í raun hinn nýi þáttur þessarar ríkisstjórnar, hið nýja yfirbragð sem þessi ríkisstjórn fær með tilkomu Samfylkingar í ríkisstjórn. Fyrsti málaflokkurinn sem er tekinn upp er stofnun til að kosta og stýra heræfingum erlendra herja hér á landi. Það er að mínu viti ekki í takt við íslenska þjóðarsál.

Virðulegi forseti. Í nefndaráliti okkar er ítarlega fjallað um einstaka málaflokka, m.a. um velferðarmálin og það rakið hvernig þeirra sér stað í fjárlagafrumvarpinu.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sagði m.a. að flokkarnir hefðu einsett sér að „mynda frjálslynda umbótastjórn um kraftmikið efnahagslíf, öfluga velferðarþjónustu, bættan hag heimilanna og … málefni yngstu og elstu kynslóðanna eru forgangsmál ríkisstjórnarinnar og hún mun leggja áherslu á að auka jöfnuð með því að bæta kjör þeirra hópa sem standa höllum fæti.“

Jafnframt sagði: „Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir markvissum aðgerðum í þágu barna og barnafjölskyldna á Íslandi. Í því skyni verði mótuð heildstæð aðgerðaáætlun í málefnum barna og ungmenna.“

Fyrri ríkisstjórn fór þá leið að fella niður hátekjuskatt og að lækka skattprósentu á almenn laun og fyrirtæki. Ætla mætti, með hliðsjón af stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að nú væri röðin komin að lágtekjufólki, öryrkjum og öldruðum að njóta skattalækkana. Ég minntist á það áðan að fyrstu skilaboð sem þessir hópar fengu voru að ekki var á þá minnst í stefnuræðu forsætisráðherra, þótt það hafi verið eitt aðalmálið fyrir síðustu kosningar.

Þessa sjást þó ekki merki í fjárlagafrumvarpinu. Sem dæmi má nefna að barnabætur hækka einungis um 300 millj. kr., eða 3,5%, og ná ekki að fylgja eftir þróun verðlags. Komugjöld hækka, bæði á heilsugæslustöðvar og til sérfræðilækna og viðmiðunarmörk fyrir afsláttarkort í heilbrigðisþjónustunni hækka, svo dæmi séu tekin. Með tvennum hætti eru sjúklingaskattar, skattar á þá sjúklinga sem þurfa mest og oftast að leita slíkrar þjónustu, hækkaðir, bæði komugjöld og viðmiðunarmörk afsláttarkorta. Var þetta á stefnuskrá Samfylkingarinnar? Mig minnir að á stefnuskránni hafi verið að þessi komugjöld ættu að lækka og að í umræðu á Alþingi fyrir ári höfum við verið sammála í þeim efnum, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og þingmenn Samfylkingarinnar. En nú er Samfylkingin komin í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og þá er sjálfsagt að hækka sjúklingaskattana. Jú, Sjálfstæðisflokkurinn vill það og þá er sjálfsagt af Samfylkingunni að verða við því. Kannski er þetta erfðagóss þeirra eitthvað sem þeim þykir vænt um og vilji halda við, þ.e. sjúklingaskattarnir. Komugjöldin eru sem sagt hækkuð.

Ég hef áður minnst á hækkun skattleysismarka, að þeirra sér ekki stað. Í umræðunni um tekjur láglaunafólks þar sem þingmenn Vinstri grænna og Samfylkingar voru samstiga ásamt þingmönnum Frjálslynda flokksins, sagði Atli Gíslason, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, með leyfi forseta:

„Við eigum ekki að skattleggja fólk sem er með tekjur undir framfærslumörkum, það er þjóðarskömm en það hefur verið raunin í mörg, mörg ár. Það hefur verið raunin að öryrkjar með lágmarkslífeyri eru skattlagðir og það er ótrúlegt að fólk með 100 þús. kr. framfærslueyri á mánuði þurfi að borga 37% af síðasta tíu þúsund kallinum.“

Kjör þessa fólks hafa ekki verið bætt. Enn stendur óbreytt sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar sem hún var knúin til að taka í mars á síðastliðnu ári hvað þetta varðar. Er furða þótt að almenningur bíði eftir efndum á loforðum Samfylkingarinnar fyrir síðustu alþingiskosningar?

Sama má reyndar líka segja um húsnæðismálin. Þar hafa vextir hækkað mjög hratt og staða ungs fólks á þeim vettvangi, íbúðakaupenda, verður æ erfiðari. En Íslendingar hafa litið á það sem sjálfsagðan hlut samfélagsgerðar sinnar að fólk eigi möguleika á að koma sér þaki yfir höfuðið. Íbúðarhúsnæði er grunnþörf. Við höfum ekki litið á að íbúðarhúsnæði sem slíkt ætti að lúta almennum reglum og lögum um verslun og þjónustu. Húsnæði er grunnþörf og réttur einstaklingsins, réttur fjölskyldunnar til þess að koma sér upp eigin húsnæði eða eiga aðgang að leiguhúsnæði á hæfilegum kjörum er frumréttur. En nú er þetta að færast, ef fer fram sem horfir, í þá átt að þetta verði aðeins réttur auðmanna, réttur þeirra sem hafa hæstar tekjurnar. Venjulegt fólk á orðið erfitt með að fjármagna kaup á húsnæði.

Hvað var það fyrsta sem hæstv. félagsmálaráðherra nýrrar ríkisstjórnar, Jóhanna Sigurðardóttir, gerði? Jú, það var að lækka lánshlutfall Íbúðalánasjóðs úr 90% niður í 80% sem bitnaði harðast á því fólki sem er úti á landi, á því fólki sem er að reyna að kaupa íbúðirnar á lægsta verðinu. Það bitnar harðast á því fólki. Fyrsta aðgerðin í húsnæðismálum var að skerða möguleika fólks úti á landi, þar sem fólk hefur hvað lægstar tekjur, að skerða einmitt möguleika þess fólks til þess að kaupa og koma sér upp íbúð. Það voru fyrstu aðgerðir Samfylkingarinnar í húsnæðismálum.

Þá hafa vaxtagjöld vegna íbúðalána hafa farið hækkandi sem hlutfall af ráðstöfunartekjum heimilanna og hafa farið úr 5,5% árið 1994 í 7,2% árið 2005. Á sama tíma hafa vaxtabætur sem hlutfall vaxtagreiðslna lækkað úr 26% í tæp 15% sem sýnir minnkandi stuðning vaxtabótakerfisins. Nettóvaxtagjöld vegna íbúðalána að frádregnum vaxtabótum til heimilanna hafa jafnframt hækkað töluvert eða úr 4% af ráðstöfunartekjum heimilanna árið 1994 upp í 6,1% árið 2005. Þegar tekin eru öll vaxtagjöld vegna allra lána hafa þau hækkað úr 6,7% upp í 9,8% af ráðstöfunartekjum heimilanna á sama tíma. Það er ljóst að hækkun vaxta og vaxtabóta hefur því ekki farið saman og þó að vaxtabótakerfið sé að stærstum hluta að þjóna því fólki sem á erfitt með húsnæðiskaup þá er stuðningurinn of lítill. Vaxtabætur hafa ekki fylgt þróuninni á markaði og þótt gert sé ráð fyrir 6,3% hækkun vaxtabóta í fjárlagafrumvarpinu þá dugar það engan veginn til því að húsnæðisverðið hefur hækkað mun meir. Þetta kemur fram í skýrslu sem unnin var um aðstæður fólks á húsnæðismarkaði fyrir félagsmálaráðuneytið. Í skýrslunni kemur einnig fram að langir biðlistar séu eftir félagslegu leiguhúsnæði hjá sveitarfélögum og Öryrkjabandalagi Íslands, eða um 1.650 manns. Um 70% þeirra eru með heildartekjur undir 150.000 krónum á mánuði og flestir eru einhleypir og barnlausir en einstæðir foreldrar eru um 30%. Yfir 700 börn eru á framfæri þeirra sem eru á biðlistunum. Er þetta í takt við þá stefnu sem boðuð var með börnin í forgang? Nei. Í könnunni kemur fram að mikill húsnæðiskostnaður er nátengdur almennum greiðsluerfiðleikum fólks og sterkar vísbendingar eru um að erfitt sé fyrir ungar barnafjölskyldur að koma inn á fasteignamarkaðinn og fólk með tekjur undir meðaltekjum. Því lægri sem tekjurnar eru þeim mun erfiðara er það. Einstæðir foreldrar eru í sérstaklega erfiðri stöðu á húsnæðismarkaði. Þetta segir orðrétt í fyrrnefndri skýrslu. Þrátt fyrir kannanir og yfirlýsingar hefur ekkert gerst og nefnd sem félagsmálaráðherra skipaði í sumar um eflingu húsnæðislánakerfisins, sérstaklega um félagslega þáttinn og leigumarkaðinn og átti að skila áliti fyrir 1. nóvember, hefur ekki skilað af sér.

Ég vara við hugmyndum um að veikja Íbúðalánasjóð, að ætla að láta Íbúðalánasjóð einungis til dæmis, eins og raddir hafa verið um, gegna hlutverki gagnvart bara ákveðnum þjóðfélagshópum. Íbúðalánasjóður á að vera öflugur og allir eiga að hafa þar rétt. Hann á að tryggja rétt allra, jafnan rétt allra til þess að koma sér þaki yfir höfuðið. Ég held að fátt sé mikilvægara í því ríkisstjórnarsamstarfi sem við nú horfum fram á en einmitt að verja Íbúðalánasjóð því að einkavæðingaröflin eru jú sterk innan Samfylkingarinnar þó að þar séu líka sterk félagshyggjuöfl sem ég vona að standi í lappirnar. En einkavæðingaröflin eru þar líka sterk og ef þau ná saman, einkavæðingaröflin í Samfylkingunni og einkavæðingaröflin í Sjálfstæðisflokknum þá býð ég ekki í málin, sem þau virðast hafa gert ef marka má fjárlagafrumvarpið sem við hér nú fjöllum um. Því að hverjir eru megindrættir þessa frumvarps? Jú, það er einkavæðingarherferð í heilbrigðismálum. Verum minnug þess sem forsætisráðherra Geir Haarde sagði á fundi með flokksmönnum sínum í Valhöll. Hann sagði eitthvað í þá veruna að nú væri einmitt tækifærið. „Við gátum ekki gengið eins langt í einkavæðingu heilbrigðiskerfisins með Framsóknarflokkinn en núna liggur það allt opið.“ Enda fengu þeir heilbrigðisráðuneytið á silfurfati. Hvað sjáum við í frumvarpinu? Jú hér og hvar, alls staðar í kaflanum um heilbrigðismál stendur: 30 milljónir til þess að undirbúa breytingar á rekstrarformi hér og rekstrarformi þar í heilbrigðisþjónustunni. Og hvað hefur verið lagt fram? Jú, frumvarp sem lýtur einmitt að því hvernig megi koma á viðskiptaumhverfinu sem kröftugast inn í heilbrigðismálin. Heilbrigðismálin sem hafa verið grunnur íslenskrar velferðarþjónustu skulu nú vera markaðsvara ef áform heilbrigðisráðherra Sjálfstæðisflokksins ná fram að ganga.

Það var ekki hægt að komast með Framsóknarflokkinn eins langt og hæstv. forsætisráðherra vonast til að hann geti farið með Samfylkinguna. Þetta er alvarlegt umhugsunarefni, frú forseti, og það er víst að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs munu verja heilbrigðiskerfið, verja velferðarkerfið, verja það gegn einkavæðingaráformum þessarar ríkisstjórnar.

Frú forseti. Það eru fleiri atriði sem væri hér líka vert að koma inn á og er ítarlega farið í í þessu nefndaráliti. Ég nefni byggðamálin. Ég minntist áðan í ræðu minni á þá miklu mismunun, þann mikla ójöfnuð sem er að verða á milli fólks sem býr á höfuðborgarsvæðinu og úti um land, þó að hér sé líka fólk sem á erfitt og ójöfnuður er vaxandi hér einnig. Þegar farið er að ræða og taka á málefnum heilla landshluta, heilla atvinnugreina í formi sértækra aðgerða sundurliðaðra í smáatriðum, í hvers konar farveg erum við þá komin? Erum við ekki ein þjóð? Eru ekki hagsmunir íbúanna á Vestfjörðum, Norðurlandi eystra, á Raufarhöfn, Þórshöfn, Skagaströnd, Blönduósi, Hvammstanga, Stykkishólmi og Ólafsvík, Ísafirði, Patreksfirði, Kópavogi, Hafnarfirði, Reykjavík, eru ekki hagsmunir okkar allra sameiginlegir? (Gripið fram í: Suðurlandi.) Selfossi, Vestmannaeyjum? (Gripið fram í: Vík.) Við erum öll eitt en nú er verið að keyra inn hér sértækar aðgerðir sundurliðaðar og menn tala um mótvægisaðgerðir sérstakar. Þegar maður rýnir svo í það hvar fjárveitingin lendir, jú, þá fer hún í flestum tilvikum til þess að fjölga störfum á Reykjavíkursvæðinu. Það þarf nefnilega að stýra þessum mótvægisaðgerðum og þeim verður ekki stýrt annars staðar en héðan. Þegar maður horfir á hvar fjármunamyndunin verður af hálfu hins opinbera þá verður hún hér. Byggðamálin, atvinnumál byggðanna fá því þann sess hér að þau sé eitthvert vandræðamál. Ég er algjörlega andvígur svona nálgun á málum.

Við eigum að vera með öfluga grunnþjónustu, öflugt grunnkerfi. Einkavæðing Símans, hvað kallaði hún yfir okkur? Jú, hún kallaði yfir okkur mun lakari þjónustu úti um allt land, hækkun á verði á símþjónustu. Nú nýverið voru fréttir í blöðum sem röktu það mjög ítarlega hvernig verð á farsímaþjónustu hefur hækkað eftir einkavæðingu og sölu Símans.

Svo er það uppbygging fjarskiptakerfisins. Það var stofnaður fjarskiptasjóður og hluti af fjármagni Símans átti að fara til eflingar fjarskiptamála í landinu. Það hefur ekkert gerst í þeim málum. Eina sem gerst hefur er að einstök sveitarfélög eru að reyna að koma upp fjarskiptaþjónustu innan sinna vébanda. Fjarskiptasjóður er ekki enn farinn að vinna að neinu marki og allt er þar í lamasessi. Þær ályktanir sem við þingmenn fáum utan af landi snúa einmitt ekki hvað síst að vanefndum í fjarskiptamálum. Átti ekki að vera búið að vera með Ísland altengt og vera kominn með háhraðatengingar inn á hvert heimili fyrir árslok 2007 og sumt átti að vera komið árið 2006? Það bólar ekkert á neinum stóraðgerðum í þessum efnum. Þetta er eitt mesta óréttlæti sem landsbyggðin má núna búa við. Á þessu er ekki tekið.

Ég hef áður minnst á hvernig verið er að draga tennurnar úr landbúnaðinum. Tilfærslur á verkefnum og að rústa landbúnaðarráðuneytið er gert kerfisbundið til þess að lama landbúnaðinn, lama það atvinnulíf, þá menningu og það fólk sem starfar innan þessa atvinnuvegar. Stofnanir landbúnaðarráðuneytisins eru jú burðarásar, eru stofnburðarásar í íslenskum landbúnaði. Nú þarf að lama þær, sundra þeim, skipta Skógræktinni upp í fleiri þætti, Landgræðslunni og svo framvegis. Þetta eru hinir nýju áherslupunktar í ríkisstjórninni. Þarna virðast ná saman einkavæðingar- og frjálshyggjuöflin í Sjálfstæðisflokknum og Samfylkingunni, einmitt með því að rústa stofnanir landbúnaðarins. (Gripið fram í.)

Frú forseti. Þess vegna er alveg ástæða til þess að vera á verði. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höldum þessari stefnu fram og það veldur okkur vonbrigðum hvernig (SVÓ: Hvaða stefna er það?) stefna Samfylkingarinnar hefur runnið inn í stefnu Sjálfstæðisflokksins í þessum efnum.

Við höfum flutt hér allnokkrar breytingartillögur sem þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs munu gera nánari grein fyrir seinna í umræðunni, bæði hvað varðar tekjur og gjöld. Tekjutillögurnar miða að því að styrkja tekjugrunn ríkissjóðs og jafna byrðarnar, láta þá borga sem breiðust hafa bökin.

Við erum með tillögur um eflingu sýslumannsembættanna, löggæslunnar úti um land. Við erum að horfa á það nú á undanförnum missirum að stöðugt er verið að skerða sýslumanns- og löggæsluþjónustuna úti um land. Ríkislögreglustjóri, sérsveitir ríkislögreglustjóra eru efldar. Umfang þeirra er aukið en oft og tíðum á kostnað löggæslunnar úti um land. Við leggjum því til að almenn löggæsla hjá sýslumannsembættunum úti um land verði efld.

Við leggjum til jöfnun á flutningskostnaði. Það er loforð sem hefur verið gefið. Það var gefið fyrir síðustu kosningar, þ.e. jöfnun á flutningskostnaði. Við leggjum til að staðið verði við það.

Við leggjum líka til og flytjum tillögu um að felld verði á brott úr þessu fjárlagafrumvarpi heimild til ríkisins að selja Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar. Ég legg til að færð verði brott úr þessu fjárlagafrumvarpi sú heimild ríkisins til þess að selja hana. Við þekkjum reynsluna. Á liðnu ári og reyndar á fjárlögum þessa árs eru heimildir til ríkissjóðs til þess að selja bæði Hitaveitu Suðurnesja og Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar. Á vordögum ákvað ríkisstjórnin að nýta sér þessa heimild og seldi Hitaveitu Suðurnesja. Þar með hófst það einkavæðingarferli í orkugeiranum sem við erum enn að slást við. Í því ferli var meira að segja komið í veg fyrir, það var hindrað að sveitarfélögin eða opinberar orkuveitur gætu keypt með beinum hætti hlut ríkisins í hitaveitunni.

Nú hefur komið fram ósk frá borgarstjóra Reykjavíkur, Degi B. Eggertssyni, sem ég er alveg sammála, um að taka upp viðræður við ríkið um að það kaupi aftur hlutinn sem það seldi vegna þess að það hafi verið svo vitlaus aðgerð og ekki bara vitlaus heldur stórskaðleg aðgerð að selja hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja með þeim hætti sem gert var og hleypa síðan af stað ferli sem ekki sér fyrir endann á. Mér finnst mjög skynsamlegt að ríkissjóður leysi aftur til sín þennan selda hlut í Hitaveitu Suðurnesja. Því flyt ég breytingartillögu um að veitt verði heimild á fjárlögum fyrir ríkissjóð til að leysa aftur til sín hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja og að felld verði brott heimild til að selja Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar. Hver vill það? Ríkisstjórn sem tók þá ákvörðun í vor að selja Hitaveitu Suðurnesja er ekki treystandi. Langbest væri að taka þessa heimild út, enda hafa heimamenn, bæði á Akranesi og í Borgarfirði, ályktað mjög afdráttarlaust um að þeir vilji ekki að ríkið setji hitaveitu þeirra, Deildartunguhver, á markað.

Ég flyt einnig tillögu um að ríkið fái heimild til að breyta Matís, að það flytji frumvarp um að breyta Matís, sem gert var að hlutafélagi um síðustu áramót, aftur í ríkisstofnun. Það hefur sýnt sig að þetta hefur kostað stórfé, starfsemin er óskilvirkari og væri miklu betur komin áfram sem ríkisstofnun. Sömuleiðis Flugstoðir, sem breytt var um síðustu áramót í hlutafélag sem reynist síðan ekki meira hlutafélag en svo að það fær ekki einu sinni úthlutað virðisaukaskattssnúmeri því þetta er svo klár ríkisstofnun. Það gerir hins vegar að verkum þegar stofnunin er orðin að hlutafélagi að þá er ekki hægt að hafa sama eftirlit. Það fylgir ekki sömu lögum og reglum eins og um ríkisstofnun væri að ræða og hefur í för með sér aukinn kostnað. Að mínu mati er nauðsynlegt að leita heimilda til að breyta þessu aftur. Þetta voru mistök, það er bara að viðurkenna það og breyta því aftur.

Frú forseti. Það eru nokkur atriði enn sem ég á eftir að fara yfir við 2. umr. fjárlagafrumvarpsins. Ég á eftir að koma inn á stjórnlagabreytingarnar, breytingar á stjórnsýslunni, breytingar á ráðuneytum sem koma hér inn í umræðuna, bæði framkvæmd þeirra og kostnaður. Í kostnaðarmatinu sem fylgir frá fjármálaráðuneytinu segir að þetta kosti ekki neitt, að þessar breytingar og uppstokkun á ráðuneytum eigi ekki að kosta neitt. Við vitum nú þegar að svo er ekki, ég er með minnisblað frá fjármálaráðuneytinu varðandi þetta mál sem sýnir hversu illa það er unnið. Þessi uppstokkun á ráðuneytum er náttúrlega gríðarlega kostnaðarsöm, við gerum okkur öll grein fyrir því. En í umsögn á minnisblaði frá fjármálaráðuneytinu 25. nóvember 2007 segir, með leyfi forseta:

„Meðfylgjandi er listi yfir flutning fjárheimilda á milli fjárlagaliða vegna breyttrar verkaskiptingar. Í öllum tilvikum er um að ræða millifærslu fjárheimilda frá einu ráðuneyti til annars en ekki auknar fjárheimildir. Við tilfærslu verkefna er því miðað við að kostnaður lækki jafnmikið hjá ráðuneyti sem lætur frá sér verkefnin og hann hækkar hjá ráðuneyti sem tekur við því.“

Af hálfu fjármálaráðuneytisins er gert ráð fyrir að þessi tilflutningur kosti ekki neitt en það eru þegar komnar fram tillögur, beiðnir um fjárveitingar upp á nokkur hundruð milljónir króna vegna þessara breytinga. Því er alveg ljóst að breytingarnar á Stjórnarráðinu sem hér á að fara að keyra í gegn eru keyrðar áfram á verulega fölskum eða ónákvæmum forsendum hvað kostnað varðar.

Sama er að segja um tillöguna um fjármagn vegna breytinga á þingsköpum, sem ég kem nánar að í seinni ræðu minni, þar er líka verið að fara á svig við lög. Verið er að flytja tillögur við 2. umr. um fjárlagafrumvarpið, eins og ég gat um áðan, þar sem greiða á atkvæði um einstakar tillögur sem hafa ekki fjárlagaheimildir og ekki er búið að samþykkja lögin sem að baki þeim standa.

Herra forseti. Ég fer nú að ljúka við að gera grein fyrir nefndaráliti 1. minni hluta fjárlaganefndar, þess sem hér stendur og hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar. Nefndarálitið er allmiklu ítarlegra en ég hef gert grein fyrir hér og rakið til að undirstrika betur þau mál sem ég hef farið inn á.

Ég vil við lok fyrstu ræðu minnar — ég kem með fleiri athugasemdir og ábendingar og fjalla frekar um einstaka þætti síðar í dag — þakka samnefndarfólki mínu í fjárlaganefnd fyrir gott samstarf. Við eigum enn eftir mörg störf óunnin í haust og ég tek undir þau áform og yfirlýsingar hv. formanns fjárlaganefndar um að nefndir komi mun sterkar bæði að undirbúningi við gerð fjárlaga og einnig að eftirliti og eftirfylgni með þeim. Þetta er krafa sem við höfum verið með á undanförnum árum og mun ekki standa á mér í þeim efnum að fylgja því vel eftir, ég bind reyndar miklar vonir við að nefndin nái að taka á vinnulaginu þó að það valdi mér vonbrigðum að hún skuli ekki hafa gert það með fullnægjandi hætti fyrir afgreiðslu þess frumvarps sem við nú fjöllum um.

Ég vil líka taka skýrt fram að þrátt fyrir mjög harða gagnrýni okkar á að nefndaráliti meiri hlutans skuli ekki hafa verið dreift fyrr en á kvöldfundi eða undir nótt í gærkvöldi sem ég tel að geti hafa verið af tæknilegum ástæðum, þá ber forseta þingsins líka að tryggja að meðferð málsins á þingi fái nægan tíma og eins undirbúningur einstakra þingmanna sem þurfa að búa sig undir þá umræðu. Fjárlögin og fjárlagafrumvarpið er stærsta mál þingsins og forseta var í lófa lagið að verða við kröfu okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um að þessari umræðu yrði frestað þannig að mönnum gæfust tök á að undirbúa sig og fara yfir tillögur og álit meiri hlutans. Ég legg líka áherslu á vinnulagið hér, þetta gríðarlega álag á starfsfólk þingsins, öflugt, duglegt og gott starfsfólk sem er búið að vera hér dag og nótt að vinna frumvarpið tæknilega til 2. umr. og hefur gert það af mikilli fagmennsku og trúmennsku, en þá ætti einmitt forseti þingsins að fylgjast með því að þetta vinnulag í nefndunum er ekki það vinnulag sem við a.m.k. í orði kveðnu segjumst vilja hafa og ekki síst gagnvart starfsliði þingsins sem leggur nótt við dag og því hefði verið sanngjarnt og eðlilegt að fresta 2. umr. fjárlaga þegar ljóst var að það væri mjög knappt vinnulega séð að ná því inn í þingið fyrir tilskildan tíma.

Ég vil því þakka því ágæta fólki sem starfar á nefndasviði þingsins fyrir frábært vinnuframlag undir erfiðum kringumstæðum og tel að þingið og forseti þingsins og stjórn þingsins hafi ekki tekið tilhlýðilegt tillit til starfsaðstæðna sem voru komnar upp. Það hefði kannski verið réttara að jafna álagið og fresta umræðunni eins og við lögðum til, bæði hvað varðar vinnu starfsliðs þingsins og einnig einstakra þingmanna til að setja sig inn í málin og til leggja fram breytingartillögur eins og réttur þeirra er.