135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[14:44]
Hlusta

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það stendur auðvitað ekki steinn yfir steini í málflutningi hv. þm. Jóns Bjarnasonar. Ég hugsa að hv. þingmaður hafi áttað sig á því í andsvari mínu að hann hafi kannski gengið fulllangt í ræðu sinni því að nú segist hann svo sannarlega til í að breyta vinnubrögðum en í fyrri ræðu sinni skammaðist hann yfir því að þetta væri bara tal út í loftið og engu hefði verið breytt.

Ég mun síðar í umræðunni ræða efnislega það sem er í fjárlagafrumvarpinu og snýr að þeim þáttum sem hv. þingmaður nefndi en ég vil þó segja varðandi þau tvö atriði sem hann nefndi í velferðarmálunum að það var fyrsta verk þessarar ríkisstjórnar að fá samþykkja aðgerðaáætlun í málefnum barna og unglinga þannig að því er auðvitað vísað til föðurhúsanna að ekkert sé að gerast í þeim efnum. Hv. formaður fjárlaganefndar og hæstv. fjármálaráðherra sögðu þegar umræðan hófst að milli 2. og 3. umr. yrði settir fjármunir sérstaklega til lífeyrisþega og eldri borgara. Ég vona að hv. þingmaður hafi hlustað á það, það var sagt hér (Forseti hringir.) og ég ítreka að það verður gert milli 2. og 3. umr. og ég mun koma að því síðar í ræðu minni í dag.