135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[14:48]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að sértækar aðgerðir eigi að vera algjörar undantekningar. Samfélagið á að vera uppbyggt með þeim hætti að allir eigi þar sama rétt eins og stjórnarskráin kveður á um. Stjórnarskráin kveður á um jafnrétti allra þegna, jafnrétti atvinnugreina. Þess vegna ætti ekki að þurfa að vera með sértækar aðgerðir nema í hreinum undantekningartilfellum en ekki eins almennt eins og hér er verið að leggja til. Þess vegna sagði ég þessi orð, hæstv. forseti. Við erum ein þjóð og eigum að byggja upp samfélagið með með öflugu velferðarkerfi, með öflugum grunnstoðum.

Hins vegar eru mótvægisaðgerðirnar. Já, ég gagnrýni þær vegna þess að þær virðast alls ekki svara þeim væntingum sem gefnar voru. Hvar sjáum við stuðning við sjómenn, við þá sem verða hvað harðast úti í þorskskerðingunni eða skerðingu á afla og öllu sem því fylgir? Þar er ekkert fyrir sjómenn. Útgerðarpláss vítt og breitt um landið sem verða fyrir skerðingu eru ekki svo ánægð með þessar tillögur, það vitum við báðir, hv. þingmaður.

Ég tel að því miður sé staða margra þeirra byggða sem niðurskurður á þorskafla snertir mun alvarlegri en fjárlagafrumvarpið hér tekur á þótt verið sé að kynna einhverjar sértækar mótvægisaðgerðir. (Forseti hringir.) Þær hefðu í reynd átt að vera mun sýnilegri, ákveðnari og miklu meiri í frumvarpinu ef það átti að standa undir þeim væntingum sem gefnar voru.