135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[14:54]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja að ýmislegt kom upp í huga minn á þeim langa tíma sem hv. þm. Jón Bjarnason notaði til að flytja sitt mál varðandi fjárlaganefndina. Í fyrstu datt mér í hug gamla setningin um leikhúsið við Austurvöll þegar formaður flokksins hvíslaði að ræðumanni til að bæta við málflutning hans. Mér datt einnig í hug þegar hann var að úthúða vinnunni í fjárlaganefndinni að sjaldan launar kálfurinn ofeldið. Efst er mér þó í huga púkinn á fjósbitanum. Ég hef nefnilega stundum á tilfinningunni eftir stutta veru hér í þinginu að sumir nærist mest á því — og það er heill þingflokkur sem ég er með í huga — að geta fundið einhvers staðar einhverja hluti sem þeir geta pikkað í og þeim mun fleiri sem þeir eru, þeim mun ánægðari eru þeir. Þar víkja öll markmið heildarinnar eða málefnanna fyrir sérhagsmunum til að geta komið höggi á eitthvað.

Mig langar til að heyra hv. þm. Jón Bjarnason flytja pistil um það sem hann lagði til í fjárlaganefnd og var hafnað af meiri hlutanum. Það er nefnilega svo, og það hef ég upplifað í fleiri nefndum, að hv. þingmenn Vinstri grænna hafa ekki komið með neinar tillögur heldur setið og skrifað andstöðuálitin á meðan vinnan fer fram. Það er vinna sem mér þóknast ekki og ég átti von á að við tækjum þátt í að reyna að ná fram sem bestri niðurstöðu í öllum málum. Menn geta síðan haft sérálit og haft skoðanir á því sem ekki næst fram.

Annað sem mér fannst athyglisvert í ræðu hv. þingmanns var að hann gagnrýnir í öðru orðinu harkalega að gerðar skuli vera breytingar á Stjórnarráði án þess að lög liggi fyrir. Samtímis lýsir hann eftir aðgerðum í málum þar sem lög hafa ekki verið afgreidd þó að við séum með þau inni, eins og jafnréttismálin og málefni í aðgerðum barna og fleiri mál sem koma senn inn sem lagafrumvörp. Hvað af þessu vill hv. þm. Jón Bjarnason taka út vegna þess að lögin eru ekki þegar samþykkt í þinginu? Það er þessi tvískinnungur sem mér fannst einkenna ræðuna hjá hv. þingmanni.