135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[14:58]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að ég geti tekið undir þá skoðun að við vildum sjá miklar breytingar í velferðarmálum, málefnum aldraðra og öryrkja. Þær breytingar hafa verið boðaðar að hluta á milli 2. og 3. umr. og við skulum sjá hvað kemur upp úr þeim potti áður en við förum að fjargviðrast yfir því.

Ég verð að lýsa yfir ánægju minni með þær væntingar sem komu fram í ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar til Samfylkingarinnar og mun örugglega reyna að standa undir þeim væntingum. Ég held þó að til of mikils sé ætlast að þær væntingar verði allar uppfylltar á fyrsta ári í nýju stjórnarsamstarfi. Hlutverk okkar verður þá að fylgja því eftir að kjör þeirra sem minna mega sín í samfélaginu og kjör aldraðra verði bætt í framhaldinu.

Þá er betra að menn komi að því starfi og vinni heils hugar að reyna að ná því fram í stað þess að fjargviðrast yfir því sem ólokið er.