135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[16:05]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Kannski hef ég ekki tekið nógu sterkt til orða þegar ég orðaði það þannig að ég hefði sagt að hv. þingmaður teldi allt í kaldakoli. Hann bætti um betur og sagði að þetta væri einfaldlega glórulaust plagg sem lagt væri fram, fjárlögin, og hefur raunar skorað á þann sem hér stendur, ásamt hv. formanni fjárlaganefndar, að endurskoða markmið og meginlínur varðandi fjárlagafrumvarpið. Það verður ekki gert og það getur hv. þingmaður sagt sér sjálfur.

Varðandi þá umræðu sem hann vitnar til, um Davíð Oddsson, vil ég benda hv. þingmanni á að sá einstaklingur er hættur í pólitík og kominn hinum megin við borðið. Það er örugglega margt til í þeim varnaðarorðum sem sá mæti maður leggur fram í þessum efnum.

Stóru línurnar í þeim útgjöldum sem við leggjum til núna eru til verkefna sem þegar eru í vinnslu og löngu hafa verið ákveðin ásamt því að bætt er við á ýmsum sviðum mannlífsins, ekki beint til stórra uppbyggingarverkefna heldur miklu fremur í að bæta þá þjónustu sem við veitum og viljum veita víða um land, sérstaklega á svæðum sem eiga undir högg að sækja. Það ber að þakka.