135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[16:07]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Bjarna Harðarsyni fyrir góða ræðu og vel fram setta, jafnt sem öðrum talsmönnum minni hluta fjárlaganefndar. Ég hef náð að hlýða á báðar ræður minni hlutans og haft gagn og gaman af eins og jafnan þegar ég á orðastað við fjárlaganefndarmenn.

Ég hrökk aðeins við þegar farið var að tala um Kristin Þorkelsson, sem var afar góður og greindur maður og var líklega samlíkingin sú … (BjH: Bjarnason.) var hann Bjarnason? Kristinn Bjarnason … (BjH: Þorkelsgerði.) Þorkelsgerði, hænsnabóndi, þjóðarhænan, sem var afar góður og greindur maður eins og hv. þm. Bjarni Harðarson sagði en ég held að eins sé komið á fyrir okkur þremur í þeim efnum.

Ég var hins vegar að tala um þennan flutning á stjórnarráðsliðunum og sagði að ólíkar skoðanir væru á því hvort ætti að koma á undan. Það má vel vera að einhverjum finnist frekar eiga að afgreiða fjárlagaliðina óbreytta og fara síðan fram með stjórnarráðsliðina en hins vegar er þetta niðurstaðan, að gera þetta með þessum hætti til að skýra út fyrir þinginu hvernig þetta komi hugsanlega til með að verða.

Ég ætla í síðara andsvari mínu að víkja að umræðunni um þensluáhrif og útgjaldastýringu.