135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[16:09]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarni Harðarson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að koma inn á stjórnarráðsmálið. Ég tel að það væri mikilvægur sparnaðarliður. Ég trúi því að þær 200–300 millj. kr. sem þegar eru komnar fram í útgjaldaspá hins opinbera varðandi tilflutning verkefna innan Stjórnarráðsins séu ekki nema brot af þeim kostnaði sem þar muni falla til. Það er þekkt að við svona breytingar verða verkefni innan hins opinbera alltaf dýrari fyrst á eftir. Það styðja allar skýrslur og úttektir sem gerðar hafa verið á breytingum sem þessum.

Varðandi eggið og hænuna, því það er auðvitað mikilsverð umræða, þá er það einfaldlega þannig að í venjulegum hænsnabúskap byrja hænur ekki að verpa fyrr en þær hafa náð ákveðnum aldri. Ég held að hér sé aftur á móti reynt að láta allt gerast í senn, hænuna verða til og varpið hefjast. (Gripið fram í.) Ég er reyndar ekki svo kunnugur hænsnabúskap að ég viti hversu gamlar þær þurfa að verða til að byrja að verpa (Gripið fram í.) en ég tel eðlilegast að þingið samþykki fyrst lög um breytingar á Stjórnarráðinu og taki eðlilegan tíma í vetur til að ræða þær breytingar og þær tækju síðan gildi ári síðar.

Það liggur ekkert á með framkvæmd eins og þessa. Eitt ár breytir engu til eða frá og ráðherrar Samfylkingarinnar eru óðum að venjast því að sitja svo gott sem ráðuneytislausir, sem ráðherrar án ráðuneytis eða með mjög lítil ráðuneyti og ekkert því til fyrirstöðu að þeir geri það í eitt ár. Ég sé ekki annað en að þessi verkefnaflutningur megi vel bíða. Það væri hægt að ganga eðlilega frá lagabreytingunum og þær tækju gildi frá og með fjárlögum sem verða samþykkt á næsta þingi.