135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[16:12]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarni Harðarson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Hér kem ég til að svara tveimur missögnum. Ég hef ekki sagt að ég telji að tekjuáætlunin sé svo vanáætluð sem hv. þingmaður sagði. Ég sagði í dag að ég teldi að yfirkeyrslan yrði 20 milljörðum kr. meiri heldur en gefið er upp í fjárlagafrumvarpi og miða þar við reynslu undanfarinna ára, eðlilegt hlutfall miðað við það. Ég geri athugasemdir við tekjuáætlunina og tel einfaldlega erfitt að áætla tekjurnar við þær aðstæður sem núna eru. Þess vegna fór ég ekki sérstaklega í það í ræðu minni en um það er fjallað í nefndarálitinu. Það eru mjög margir óvissuþættir varðandi tekjurnar, m.a. varðandi fjármagnstekjur út af óvissu á hlutabréfamörkuðum og ég sé því ekki ástæðu til að fara út í það í smáatriðum.

Varðandi útgjaldaaukann þá kom ég að því í minni ræðu. Það er vissulega rétt að það er útgjaldaauki í okkar tillögum en við erum að tala um að útgjaldaauki ríkissjóðs sé líklega 60 milljarðar kr. á milli ára. Við erum að leggja til sparnaðaraðgerðir í þeim efnum en höfum í mótvægisaðgerðum okkar talið að verja mætti til þess 2–3 milljörðum meira heldur en ríkisstjórnin gerir í sínum tillögum. Þetta er ekki 6 milljarða kr. útgjaldaauki í okkar tillögum. Þetta er 2–3 milljarða kr. útgjaldaauki því að margar af þeim tillögum sem við leggjum til eru þegar í tillögu ríkisstjórnarinnar og margt þar sem er gott og ber að þakka. En við töldum að í mótvægisaðgerðum væri nauðsynlegt að gera ögn betur.