135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[16:15]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við erum í 2. umr. um fjárlög fyrir árið 2008 og af ýmsu er að taka. Í þjóðfélaginu er mikið umrót og óvissa í efnahagsmálum. Sem dæmi má nefna að verðmætaaukning á hlutabréfamarkaði á þessu ári hefur nánast öll gengið til baka á síðustu vikum. Vextir eru háir og þar að auki verðtryggðir. Það er alls engin sæla að skulda við þessar aðstæður 10 millj. kr., eins og margur gerir.

Fram undan eru lausir kjarasamningar og óvissa um hvenær og hvernig sátt næst. Í því sambandi vil ég minna á frumvarp þingmanna Frjálslynda flokksins, sem ég hef mælt fyrir, um rétt við gerð kjarasamninga og upphafshækkanir launa. Það mælir fyrir um það að ef kjarasamningar dragast á langinn skuli launamenn eiga rétt á að umsamdar hækkanir virki aftur fyrir sig til ákveðins tíma.

Ég tel að frumvarpið gæti m.a. orðið til þess að ekki verði efnt til verkfalla ef hægt gengur að semja á vinnumarkaði. Ef frumvarpið, um að breyta lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, fengi að fara í gegn yrði það til þess að launamenn væru nokkuð öruggir um að þegar að lokum semdist giltu umsamdar hækkanir frá því að kjarasamningar falla úr gildi. Þetta er saga sem verkalýðshreyfingin þekkir. Það getur tekið langan tíma að koma á kjarasamningum sem síðan leiðir kannski til mikilla átaka á vinnumarkaði sem ekki er æskilegt. Ég held að frumvarpið sé af hinu góða að því er snýr að launamönnum á vinnumarkaði og því fyrirkomulagi að meiri akkur sé í því að ná samningum en ella. Þessi mál tengjast kjarasamningum og hækkunum launa.

Vandamálin í hagstjórn marka umhverfið nú við afgreiðslu fjárlaga. Tilflutningur verkefna milli ráðuneyta er enn í óvissu en samt á að setja lög um fjárhaginn á undan verkaskiptingu, að því er virðist eins og verklagið er núna. Á þessu er ekki góður bragur, hæstv. forseti. Betra hefði verið að menn væru komnir mun lengra með frumvarpið sem á að færa verkefni á milli ráðuneyta og nýskipan í Stjórnarráðinu en raun ber vitni. Miklu betra væri að það frumvarp lægi nú þegar fyrir og hefði verið afgreitt sem lög frá Alþingi áður en við færum í þá umræðu sem fjárlögin marka. Þar er að sjálfsögðu verulegur tilflutningur, og var kynnt í breytingartillögum meiri hlutans. Þar má sjá að verkefni flytjast á milli ráðuneyta, eins og boðað hefur verið, en lagagrunnurinn fyrir þeim verkefnaflutningi liggur ekki fyrir. Það hefði verið betra verklag ef ríkisstjórnin hefði fyrr lagt tillögurnar fyrir þingið og við hefðum verið búin að afgreiða þær áður en við færum í fjárlagaumræðuna, þó að tilflutningur verkefna fengi auðvitað ný númer o.s.frv. sem tilheyra þeim ráðuneytum sem þau flytjast til. Við munum sjálfsagt ræða þetta mál nánar þegar það kemur til meðferðar hér. Vík ég ekki fleiri orðum að því. Bendi bara á, hæstv. forseti, að á þessu mætti gjarnan vera betri bragur, að við værum með lögin klár.

Fólkið í landinu býr við tvenns konar aðstæður og það gjörólíkar. Hér suðvestanlands býr fólk við ríkjandi þenslu á vinnumarkaði, þenslu í verklegum framkvæmdum, eins og húsbyggingum. Í 101 Reykjavík, í nágrenni við Alþingishúsið, niðri á hafnarsvæðinu, stefnir í framkvæmdir upp á tugi milljarða við tónlistar- og ráðstefnuhús. Ríki og borg taka fullan þátt í því verki þó að framkvæmdaraðili sé fyrir því.

Sjálfvirkt fjölgar opinberum störfum um tugi og jafnvel hundruð við fjárlagagerð, eða leggja grunninn að því. Sú fjölgun verður að öllu jöfnu að langmestu leyti hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Hér er stjórnsýslan, hér eru ráðuneytin, hér er megnið af stærstu stofnunum landsins o.s.frv. og hér fjölgar opinberum störfum sjálfkrafa ef hægt er að orða það svo. Við tökum kannski ekki eftir því hvernig þetta gerist en það er hins vegar svo að þegar rætt er um að fjölga störfum úti á landi er það oftar en ekki talið eftir. Fram fer um það mikil umræða ef störf eiga að færast út á land. Það þykir í mörgum tilfellum alveg sérstök byggðaaðgerð ef vinna á störf á landsbyggðinni, sem á náttúrlega alls ekki að vera. Umræðan ætti alls ekki að vera þannig vaxin en hún er það. Það er sjálfvirkni að því er varðar stærsta þjónustukjarna landsins — og ég er ekki að segja að ekki verði svo í framtíðinni að opinberum störfum fjölgi mest þar sem stærsti hluti þjóðarinnar býr — en vel er hægt að horfa á hlutina öðrum augum en við höfum gert á undanförnum árum. Það er hægt að leitast við að færa störf út á land til þess m.a. að viðhalda byggð og tryggja búsetu og gera störf á landsbyggðinni fjölbreyttari.

Á þetta þurfum við að horfa og ég hef fulla trú á því að fjárlaganefnd muni skoða þessa hluti með meiri athygli á komandi missirum en okkur hefur tekist á undanförnum árum. Fyrsta skrefið í þá átt er að viljinn sé til staðar. Mér finnst, hæstv. forseti, og segi það hreint út, vera vilji til þess í fjárlaganefnd, hjá forustumönnum fjárlaganefndar, að skoða þessi mál með öðru hugarfari en við höfum að einhverju leyti verið föst í á undanförnum árum.

Á landsbyggðinni stefnir í minnkandi atvinnu og jafnvel lækkandi tekjur næsta árið ef ekki lengur, jafnvel til nokkurra ára, eins og atvinnustefnan í fiskveiðum er. Ég held að allir þingmenn geri sér grein fyrir því að mjög líklegt er að mál þróist á þann veg. Hin mikla þensla, sem hefur verið misskipt eftir landsvæðum, hefur valdið ákveðnum ruðningsáhrifum. Hún hefur jafnvel verið dýrkeypt fyrir annað atvinnulíf og dýrkeypt fyrir skuldsettan almenning.

Skuldir heimilanna eru miklar, hæstv. forseti, og þær vaxa hratt við núverandi aðstæður, núverandi vaxta- og verðbólgustig. Þessu fylgja hættumerki. Oft er sagt að ríkisstjórnin geri lítið úr vandanum. Ríkisstjórnin vill jú að fólk á landsbyggðinni trúi því að þar sé allt í meiri blóma en stefnir í að óbreyttu og næg atvinna sé fram undan. Svo er því miður ekki og ég óttast mjög að þegar kemur fram á næsta ár muni menn standa frammi fyrir því að horfurnar á landsbyggðinni séu ekki góðar. Ég óttast að við þurfum að horfa á vaxandi afkomuvanda fólks á landsbyggðinni. Það kann að leiða til þess að fólk flytji á suðvesturhornið þar sem líklegt er að þensla verði áfram og mikil umsvif.

Þetta er óviðunandi ástand, hæstv. forseti. Mikill vaxtakostnaður, sem nú um stundir er óheyrilega hár, og verðbólga, sem eykur greiðslubyrðina með vísitölu verðtryggingar, auka á vandann. Greiðslubyrði af lánum heimilanna vex og getur orðið gríðarleg og ljóst er að fjölskyldur eru nú þegar, komið hafa fram um það upplýsingar, þúsundum saman í miklum erfiðleikum með að ná endum saman og standa skil af afborgunum lána.

Hið háa vaxtastig og vaxtamunurinn milli Íslands og annarra landa hefur styrkt gengi krónunnar, m.a. með innstreymi erlends fjármagns, sem aftur þýðir að rekstrarskilyrði útflutnings- og samkeppnisgreina eru bágborin um þessar mundir jafnvel þó að verð á sjávarafurðum hafi farið hækkandi erlendis fram til þessa. Það er ljóst að sjávarútvegurinn má síst við því nú, sjávarútvegurinn alveg sérstaklega vegna ákvarðana sem teknar hafa verið um niðurskurð þorskafla. Við höfum á undanförnum árum séð mikinn uppsafnaðan viðskiptahalla og í því felast hættumerki til lengri tíma.

,,Í frumvarpi til fjárlaga 2008 er gert ráð fyrir að heildartekjur ríkissjóðs verði um 461 milljarðar kr., þar af nemi skatttekjur um 422 milljörðum kr. Samkvæmt því er gert ráð fyrir að tekjur verði 85 milljörðum kr. meiri en er í fjárlögum ársins 2007.“

Ég vek athygli á að ég miða við fjárlög ársins 2007.

„Þegar betur er að gáð kemur í ljós að tekjur ríkisins árið 2007 verða líklega um 456 milljarðar kr., sbr. endurskoðaða tekjuáætlun við 2. umræðu fjáraukalaga, eða um 80 milljörðum kr. meiri en gert var ráð fyrir í fjárlögunum. Tekjur ársins 2008 eru því áætlaðar um 5 milljörðum kr. hærri ef miðað er við endurskoðaða tekjuáætlun 2007. Ný tekjuáætlun fjármálaráðuneytis gerir ráð fyrir því að tekjur ríkisins hækki um 8 milljarða kr. og verði 469,4 milljarðar kr. Munar þar mest um hækkun á virðisaukaskatti um 5 milljarða kr. en einnig er gert ráð fyrir að tekjuskattur hækki um 1,5 milljarða kr. og stimpilgjöld um milljarð.“

Auk þess munar 4 milljörðum kr. á sölu eigna á Keflavíkurflugvelli.

„Gjöldin eru áætluð um 430 milljarðar kr. og tekjujöfnuður verði tæplega 31 milljarður kr. Gert er ráð fyrir að útgjöldin aukist um 63 milljarða kr. milli ára, sé miðað við fjárlög 2007 en um 42 milljarða kr. sé miðað við áætluð útgjöld árið 2007. Miðað við fyrri fjárlög þar sem útgjöldin hækkuðu um tæpan 21 milljarð kr., eða um rúm 5% af upphaflegri áætlun, má gera ráð fyrir að útgjaldahækkunin á árinu 2008 verði um 24 milljarðar kr., eða um 17%.“

„Fulltrúar fjármálaráðuneytisins sem kynntu þjóðhagsspá ráðuneytisins og gerðu grein fyrir forsendum tekjuáætlunarinnar lögðu áherslu á að mikið hafi verið lagt upp úr því að bæta áætlanagerð undanfarin ár. Mikilvægt er að sá þáttur fjárlagagerðarinnar sé eins markviss og frekast er kostur. Engu að síður er mjög athyglisvert að veruleg frávik eru í endurskoðaðri tekjuáætlun ársins 2007 frá fjárlögum ársins. Samkvæmt endurskoðaðri áætlun eru heildartekjur ríkissjóðs áætlaðar um 80 milljörðum kr. meiri en fjárlögin gerðu ráð fyrir og er það rúmlega 21% frávik. Um er að ræða það mikla skekkju að efast má um að finna megi fordæmi um svipað í öðrum löndum sem við berum okkur gjarnan saman við. Helstu skýringar sem gefnar hafa verið á frávikunum eru að um hafi verið að ræða verulegt vanmat í hagspá og á hagrænum þáttum. Mikill og viðvarandi þróttur efnahagslífsins er meginskýring á meiri tekjum en fjárlög 2007 gerðu ráð fyrir, einkaneysla hafi verið mun meiri en gert var ráð fyrir og atvinnuleysi hafi minnkað á árinu. Ljóst er að gagnrýna má ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga 2008. Gera má ráð fyrir að áfram verði mikill þróttur í efnahagslífinu og miðað við nýjustu tíðindi er vart hægt að gera ráð fyrir því að úr þeim þrótti dragi eins fljótt og frumvarpið gerir ráð fyrir.“

Mikil þensla er á vinnumarkaði, einkum suðvestan lands, og engin merki um að úr þeirri þenslu dragi þar, þvert á móti er vinnumarkaðurinn enn þá í vexti, að því er virðist. Hvergi eru nein merki um samdrátt í framleiðni stóriðju og ýmissa þjónustufyrirtækja á Faxaflóasvæðinu, að ógleymdum byggingarframkvæmdum á suðvesturhorninu, eins og ég hef áður vikið að. Almennt séð eykst kaupmáttur en lægstu launin sitja eftir.

Sú þróun er auðvitað mikið áhyggjuefni, hæstv. forseti. Ekki þarf að hafa áhyggjur af því að laun fólks batni en það er mikið umhugsunarefni þegar misgengið milli þeirra sem hafa lægstu launin og þeirra sem hafa mun hærri laun vex. Við þessu þarf að bregðast og í komandi kjarasamningum verður áreiðanlega tekist á um hvernig fara eigi að að því að hífa upp raunlaun lágtekjufólksins. Spuningin verður: Hvernig komum við rauntekjum til fólksins? Ávinningurinn liggur ekki endilega í því að ná fram prósentuhækkun og fá síðan vaxandi þenslu til baka þannig að þegar upp verður staðið gefi raunlaunin láglaunafólkinu sáralítið.

Við í Frjálslynda flokknum höfum lagt nokkuð til þessara mála á hv. Alþingi. Við höfum lagt fram frumvarp um hvernig hækka megi persónuafsláttinn, sérstaklega fyrir láglaunafólk, og viljum að það verði gert með lögum. Við höfum lagt til að tekinn verði upp sérstakur persónuafsláttur svo að fólk sem er með 150 þús. kr. í tekjur eða minna greiði ekki skatt, skattleysismörkin hækki úr 90 þúsundum, sem þau eru í dag, upp í 150 þúsund. Persónuafslátturinn mun svo að lækka eftir því sem tekjurnar hækka og hverfur út við tekjur sem eru t.d. um 250 þús. kr.

Ég tók eftir því nýlega að á ráðstefnu BSRB flutti Stefán Ólafsson erindi þar sem hann var í raun að útfæra nákvæmlega sömu hugmynd þó að viðmiðunartölur hans hefðu verið hærri en hér er miðað við. Mig minnir að hann talað um tekjur yfir 300 þús. kr. þegar persónuafslátturinn gengi út.

Hvers vegna er reynt að útfæra málið með þessum hætti? Jú, auðvitað vegna þess að verið er að reyna að búa til leið til að hífa upp rauntekjur lágtekjufólksins án þess að það fari upp eftir öllum launastiganum. Þess vegna höfum við, þingmenn Frjálslynda flokksins, unnið að því að leggja málið fram og höfum rætt það á hv. Alþingi og ég veit að þingmenn þekkja umræðuna og hafa fylgst með henni.

Tökum dæmi af manni, konu, öryrkja, eldri borgara eða láglaunamanni sem er með 150 þús. kr. í mánaðarlaun. Viðkomandi mundi ekki greiða skatta ef aðferðin yrði lögfest. Aðeins við það eitt að taka upp slíkan persónuafslátt og skattleysismörk sem miðuðust við 150 þús. kr. mundu rauntekjur slíks launamanns hækka um tæplega 22 þús. kr. á mánuði. Mér er til efs, hæstv. forseti, að meiri rauntekjuaukning fyrir láglaunafólkið en það komi í gegnum launabreytingar úr næstu kjarasamningum þegar upp verður staðið. Við í Frjálslynda flokknum leggjum því til að þessi leið verði gaumgæfilega skoðuð vegna þess að ég tel að útfærslan geti liðkað mjög fyrir gerð kjarasamninga. Nánast allir kjarasamningar eru lausir á næsta ári, sumir þegar um áramót en aðrir fram eftir árinu. Ef stjórnvöld gerðu það væri stigið stórt skref í baráttunni við að hífa upp rauntekjur láglaunafólksins, við hvaða aðstæður sem það býr. Við, þingmenn Frjálslynda flokksins, hvetjum til þess að málið verði skoðað gaumgæfilega og teknar upp viðræður milli ríkisvalds og launaþegasamtakanna um hvort þetta sé ekki ein af leiðunum sem auðveldað gæti gerð næstu kjarasamninga. Ég held að betra sé að huga að breytingum fyrr en seinna.

Við, þingmenn Frjálslynda flokksins, höldum því ekki fram að viðmiðunartölurnar 150 og 250 þúsund í tillögunni okkar séu eina færa leiðin. Við höfum bent á aðferðina og minnum á að skattleysismörkin eru nú aðeins 90 þúsund. Eldri borgarar og öryrkjar greiða talsverðan skatt af afkomulaunum sínum og láglaunafólk einnig. Ég held ég muni rétt að lægstu taxtar sem samið er um á vinnumarkaði eru í kringum 130 þús. kr. og þá sjá allir hvaða áhrif þetta gæti haft.

Það mundi líka taka á svokölluðum lýðræðishalla, þ.e. hvernig hallar á fólk sem hefur af einhverjum ástæðum ekki miklar tekjur sér til framfærslu, hvort sem það eru öryrkjar, aldraðir eða einstæð foreldri sem mörg hver eiga í miklum erfiðleikum.

Í tengslum við þetta mál vil ég vekja athygli á að hv. þm. Jón Bjarnason og ég höfum lagt fram sérstaka tillögu um að lagfæra ákveðinn galla sem ég tel að hafi verið hjá okkur í meðferð svokallaðra safnliða í fjárlaganefnd. Sú tillaga snýr að Fjölskylduhjálp Íslands sem er hjálparsamtök sem styðja við þá sem minna mega sín í þjóðfélaginu með styrktargjöfum og matargjöfum, ekki bara hér í Reykjavík heldur einnig í nærsveitunum. Við tókum á þeim málum með nokkuð myndarlegum hætti sem sneri að Mæðrastyrksnefnd sem unnið hefur að góðu málefni og hjálpar fólki sem ekki hefur nægilegt sér til framfærslu. Ég bendi einnig á að Fjölskylduhjálpin hefur veitt mörgum liðsinni á undanförnum árum og ég treysti því að fjárlaganefnd muni endurskoða málin milli 2. og 3. umr. Ég mun leggja til að tillagan verði dregin til 3. umr. og að fjárveitinganefnd gefist kostur á að skoða málið milli 2. og 3. umræðu.

Rétt áður en ég gekk inn í þingsalinn barst mér bréf sem geymir allmörg erindi frá fólki sem sótt hefur hjálp og stuðning til Fjölskylduhjálparinnar. Þau verða eðlilega ekki lesin upp hér og eru ekki til þess ætluð. Ég segi frá því til að vekja athygli á því hvaða fólk sækir þangað. Það er fólk sem m.a. félagsmálastofnanir í Reykjavík hafa vísað til Fjölskylduhjálparinnar til að sækja eftir aðstoð vegna þess að það getur ekki framfleytt sér. Ég er þess alveg fullviss að hv. fjárlaganefnd muni endurskoða málið á milli 2. og 3. umr. og tel að við höfum gert þar nokkur mistök í okkar afgreiðslu. Okkur getur alltaf yfirsést við slíka vinnu, það er bara mannlegt. Ég mun sýna meðnefndarmönnum mínum í fjárlaganefnd gögnin en ekki öðrum. Ég mun ekki afhenda þau til eftirprentunar af neinu tagi, enda er um trúnaðarskjöl að ræða. Þau sýna í reynd þann vanda sem mjög margir búa við — eitt dæmið í bréfasafninu sýnir einstæða móður sem vinnur fulla vinnu en hefur ekki nema 93 þús. kr. útborgaðar í mánaðarlaun og það dugar einfaldlega ekki til framfærslu. Ég treysti því að við endurskoðum málin og förum yfir það sameiginlega hvort þarna megi ekki taka á.

Það gætir nokkurs krepputals, hæstv. forseti, í spám fjármálaráðuneytisins og Seðlabankans, um 15–20% samdrætti. Ég tel mjög ólíklegt að svo mikill samdráttur verði á næsta ári. Ég bendi á að hér suðvestanlands er enn þá allt á fullu og ekki hægt að sjá nein merki þess að úr því dragi úr því hvað varðar húsbyggingar og ýmsar framkvæmdir. Auk þess má gera ráð fyrir að samneyslan verði meiri en gert er ráð fyrir í frumvarpinu enda eru lögð til aukin útgjöld til ýmissa málaflokka. Hver einkaneyslan hins vegar verður er erfitt að spá um. Spár undanfarinna ára um minnkandi einkaneyslu hafa ekki gengið eftir. Það kann að vera vegna þess að á suðausturhorni landsins er þenslan mikil og við sjáum framkvæmdir í kring um okkur á næsta og þar næsta ári fyrir tugi milljarða, í næsta nágrenni Alþingishússins.

Fjárlagafrumvarpið, hæstv. forseti, gerir ráð fyrir meiri samdrætti í þjóðarútgjöldum, þ.e. einkaneyslu, samneyslu og fjármunamyndun og sama má segja um aðrar helstu hagstærðir. Þar spila margir þættir inn í, t.d. vaxtaákvarðanir Seðlabankans og gengi íslensku krónunnar. Þróun á húsnæðismarkaði skiptir einnig miklu máli en hækkun fasteignaverðs hefur verið einn helsti verðbólguvaldurinn á undanförnum árum. Gera má ráð fyrir áframhaldandi umsvifum í byggingariðnaði þar sem aukin fólksfjölgun með miklu aðstreymi erlendra ríkisborgara frá ESB-löndum og mikill kaupmáttur mun áfram halda uppi eftirspurn eftir húsnæði.

Eftir miklar vaxtahækkanir á húsnæðislánum í kjölfar stýrivaxtahækkunar Seðlabanka Íslands og yfirlýsingar forsætisráðherra um að fólk ætti að halda að sér höndum í fasteignakaupum er fasteignamarkaðurinn nú e.t.v. tímabundið í nokkru uppnámi. Forsendur fjárlagafrumvarpsins um 1,2% hagvöxt eru ekki í takt við það sem greiningardeildir bankanna spá. Ég fjallaði nokkuð um þetta efni í ræðu minni við 1. umr. fjárlaga og ef við lítum á hagspár eru þær núna á bilinu 2–3,8% en í nýjustu spá Seðlabankans, þ.e. Peningamálum 2007, 3. útgáfu, er gert ráð fyrir 0,4% hagvexti. Spyrja má hvort svartsýni Seðlabankans um framvindu íslenskra efnahagsmála fái staðist. Ég get svo sem ekki fullyrt um það.

Greinilegt er að þeir sem eru að gefa sig út fyrir að vera spámenn í íslensku þjóðfélagi, ýmsar stofnanir og þeir sem vinna þar, spá hverjir í sína áttina. Ef við göngum út frá því að umsvif efnahagslífsins verði meiri en forsendur frumvarpsins gera ráð fyrir þá liggur fyrir að tekjur af virðisaukaskatti eru vanáætlaðar í frumvarpinu. Einnig mætti benda á, hæstv. forseti, að virðisaukaskattur, t.d. af hækkun á eldsneytisverði gefur þjóðfélaginu auknar tekjur af þeim skattstofni. Ef ég man rétt var áætlað að virðisaukaskattur af eldsneytissölunni einni og sér mundi gefa um 1,5–2 milljarða kr. í auknar tekjur á næsta ári. Hér erum við að tala um skatta sem bætast ofan á þá orkugjafa sem við notum almennt í flestar samgöngur hér á landi.

Svo ég víki að fjármagnstekjuskattinum, hæstv. forseti, þá hefur hann aukist mikið á undanförnum árum og í frumvarpinu er gert ráð fyrir að tekjur af honum aukist á næsta ári. Fjármagnstekjuskatturinn er hins vegar kvikur tekjustofn og getur m.a. endurspeglað þá þróun sem orðið hefur á hlutabréfamarkaði. Því er óvarlegt að treysta um of á hann til tekjuöflunar eða að tekjur af honum aukist. Ég hef ekki fengið svör um það frá hagspekingnum hvaða áhrif það hefði á fjármagnstekjuskatt ef svo heldur fram sem horfir um þróun á hlutabréfamarkaði. Hverjar yrðu þá arðgreiðslur á næsta ári? Hvernig mun það endurspeglast í tekjum af fjármagnstekjuskatti? Ég held að það sé rétt að benda á þetta við 2. umr. fjárlaga. Vissulega eru blikur á lofti eins og ég veit að allir hv. þingmenn gera sér grein fyrir og sú hækkun sem varð fyrr á þessu ári á verðmæti fyrirtækja á verðbréfamarkaði er nánast öll horfin og stefnir í það að óbreyttu að hún gangi öll til baka.

Atvinnuleysi hefur verið undir 1% mestan hluta ársins 2007. Rök eru fyrir því að atvinnuleysi muni aukast hratt á næsta ári og verða 2,9% á ársgrundvelli. Ég tel a.m.k. að svo gæti farið á landsbyggðinni. En ég er ekki viss um að þau rök séu haldbær á suðvesturhorni landsins. Þess sjást a.m.k. ekki bein merki og ef litið er til framkvæmdagleðinnar sem hér virðist ríkja hjá mörgum, m.a. öflugum byggingarfyrirtækjum, í byggingu verslana, íbúðarhúsnæðis o.s.frv. þá er ekki að sjá að hér stefni í mikið atvinnuleysi. Áfram gæti orðið mikil eftirspurn eftir vinnuafli jafnvel þó að úti á landi dragist atvinna saman.

Við skulum ekki gleyma því, hæstv. forseti, að það er ekki mikil hefð fyrir því hjá landsbyggðarfólki að sitja kyrrt í byggðunum sínum atvinnulaust. Þaðan hefur atvinnuleysið yfirleitt flust með því að fólk hefur fært sig um set. Það er nokkuð sem við alþingismenn hljótum að hafa verulegar áhyggjur af því að þannig birtist okkur samdráttur á vinnumarkaði á landsbyggðinni. Þetta gæti einkum orðið í sjávarbyggðunum sem eru háðar þorskveiði því að þar getur fólki haldið áfram að fækka og líklegt að það flýi atvinnuleysið og sæki inn á þenslusvæðið svo framarlega sem atvinna verður áfram næg á suðvesturhorninu. Gegn slíku misgengi í afkomu fólks þarf að vinna með markvissum aðgerðum sem jafna lífskjörin í landinu.

Í því eru fólgin mikil verðmæti fyrir framtíð Íslands að landið verði sem víðast í byggð og afkoma landsmanna tryggð, hvar sem þeir búa. Í því sambandi vil ég vekja sérstaka athygli á þremur þingmálum Frjálslynda flokksins.

Í fyrsta lagi bendi ég á þingsályktunartillögu um að auka þorskaflann innan þessa fiskveiðiárs um 40 þús. tonn. Við teljum ekki, og höfum fært fyrir því rök í þingmáli og í umræðu, að rök séu fyrir þeim niðurskurði sem ákveðinn hefur verið af ríkisstjórn og sjávarútvegsráðherra hefur tekið upp sem sína stefnu og fylgt eftir.

Við teljum einnig að það gæti orðið nokkur bót að því fyrir hinar minni sjávarbyggðir að heimila takmarkað frelsi til handfæraveiða á eigin bát. Við höfum lagt fyrir þingið mál um að skoða þann möguleika til aukins athafnafrelsis fólks í sjávarbyggðunum.

Ég vek einnig, hæstv. forseti, athygli á frumvarpi sem við höfum lagt fyrir þingið um sérstakan frádrátt þegar launþegar þurfa að sækja atvinnu sína um langan veg og kosta til þess verulegum fjármunum. Ég held að það gæti verið góður kostur, sérstaklega í þeirri stöðu þegar atvinnuástand á landsbyggðinni gæti orðið mjög ótryggt og mjög misjafnt milli staða eftir kvótastöðu og þeim möguleikum í sjávarútvegi sem hafa verið undirstaða byggðanna um langan tíma en menn hafa treyst á sjávarútveg sem nokkra kjölfestu hverrar byggðar. Þessi hugmynd um breytingu á heimildum í skattalögum gengur út á að ef fólk eyði meiri fjármunum í að sækja sér atvinnu en 180 þús. kr. á ári þá megi draga það frá sem umfram þá upphæð er frá tekjum áður en skattlagt er. Auðvitað yrði fólk að sýna fram á að kostnaðurinn sé beinlínis vegna atvinnusóknar, vegna ferðalaga vegna atvinnu, á eigin bíl með því að færa akstursbók eða tilgreina flugfargjöld og þess vegna ferjufargjöld.

Umfram allt yrði slík heimild til þess, hæstv. forseti, að fólk flytti ekki úr byggð sinni heldur gæti tekið þann kost að ferðast til næsta byggðarlags ef þar væri atvinnu að fá. Menn gætu haldið búsetu sinni þar sem þeir hafa búið vegna þess að slíkur umframkostnaður fengist greiddur. Allir hafa einhvern kostnað af því að sækja atvinnu en þarna þarf að viðurkenna að þegar fólk þarf að leggja út meiri kostnað en eðlilegt getur talist þá megi draga þann kostnað frá tekjum áður en skattlagt er. Við höfum hins vegar lagt til að á slíkri heimild yrði hámark, að 600 þús. kr. á ári væri hámark þess sem fólk mætti nýta sér frádráttinn. Sú tala er þó ekki heilög frekar en hin fyrri, 180 þús. kr. lágmarkið, en þetta eru viðmiðunartölur sem við höfum komist að með því að velta málinu fyrir okkur.

Slíkar breytingar mundu víða á landsbyggðinni bæta stöðu þeirra sem búa þar sem upp kemur atvinnubrestur um lengri eða skemmri tíma og gætu orðið til að fólk þraukaði nokkurn tíma án þess að bregða búi eða flytjast úr byggðum úti á landi. Ég tel að okkur þingmönnum beri til þess skylda eins og ástandið er að standa vörð um landsbyggðina og reyna að koma í veg fyrir aukinn flótta þaðan. Nógur hefur flóttinn verið utan af landi á undanförnum árum þótt við hefðum fulla vilja til að koma í veg fyrir það og reyna að tryggja stöðu landsbyggðarinnar. Þingmál okkar er viðleitni í þá átt, hæstv. forseti, alveg eins og tillaga okkar um sérstakan persónuafslátt er yfirleitt í þá átt að tryggja stöðu láglaunafólks. Við teljum að það skipti miklu máli að ríkisvaldið og Alþingi sýni vilja og kjark til að taka á málum þannig að fólkið í landinu fái jákvæð merki um að það geti búið á þar sem það vill og hefur sest að. Þetta er þáttur í því. Við teljum einnig að taka eigi á lýðræðisþáttunum og höfum lagt til sérstakan persónuafslátt í því sambandi.

Hæstv. forseti. Það er e.t.v. rétt að mörgu leyti að reikna með meiri verðbólgu á árinu 2008 en gert er í fjárlagafrumvarpinu. Það liggur fyrir að óvissuþættirnir eru mjög veigamiklir og gera má ráð fyrir miklum frávikum frá áætluninni ef að líkum lætur og miðað við fyrri reynslu og að heildartekjur ríkissjóðs verði mun meiri en frumvarpið gerir ráð fyrir.

Margir hafa haft orð á því að ráðaleysi ríki hjá ríkisstjórninni við stjórn efnahagsmála og að ekki sé tekið á málum á markvissan hátt til að draga úr þenslunni í hagkerfinu. Það má vissulega finna fyrir því rök og ég vek athygli á að hægt er að orða það þannig að menn búi við tvenns konar mjög mismunandi kjör í landinu, landsbyggðarkjörin og Stór-Reykjavíkurkjörin.

Það er auðveldara um að tala en í að komast að taka á málum þannig að vel fari. Ég minni á eina aðgerð sem mér fannst alveg arfavitlaus og hún var sú að skera niður vegaframkvæmdir í landinu fyrir tveimur árum til að slá á þensluna sem alls ekki átti upptök sín þar, að hægja á framkvæmdum og stöðva þær um tíma, m.a. á Vestfjörðum og norðausturhorni landsins þar sem vegakerfið er enn þá þannig að menn aka þar í drullu og for.

Nú hefur hins vegar verið gefið í hvað þetta varðar, auknir fjármunir hafa verið settir í uppbyggingu vega og samgöngumannvirkja og ég tel það af hinu góða. Það er hins vegar verra að fara í þetta með þessu lagi, að skera fyrst niður framkvæmdir á svæðum þar sem alls engin þensla var til að ná henni niður þar sem hún var, þ.e. á Stór-Reykjavíkursvæðinu og kannski á Miðausturlandi. (GÁ: Og svo fór þorskurinn.)

Þorskurinn er sérstakt yndisaukaumræðuefni mitt. Ég ætla samt ekki að þreyta hv. þingmann eða hæstv. forseta á því að fara um það mjög mörgum orðum en ég mun samt víkja eitthvað að því (Gripið fram í.) og ástæðan er sú að þorskurinn er undirstaða fjölmargra byggða og þess vegna hefur það mikil áhrif þegar stjórnvöld taka ákvörðun um að skera niður þorskaflann eins og gert var. Það er ekki auðvelt að takast á við það í byggðum þar sem menn hafa ekki mörg önnur atvinnutækifæri. Þess vegna höfum við greinilega orðið vör við það í hv. fjárlaganefnd að þangað hafa streymt inn mjög margar umsóknir um styrki frá fólki vítt og breitt um landið. Styrki til hvers? Til þess að efla atvinnuna. Í langflestum tilfellum miðast styrkumsóknir að því að efla atvinnu með einhverjum hætti eða bæta lífsgæði fólks í gegnum menningu, að viðhaldi bygginga, báta o.s.frv.

Ég tel að viðleitni okkar í fjárlaganefnd, sem vinnum úr umsóknum um styrki sem nefndinni berast, sem hefur fjölgað mikið, sérstaklega af landsbyggðinni, við að reyna að koma til móts við þær óskir sem okkur sýnast skynsamlegar — menn verða alltaf að vega það og meta — og geti orðið vísir að litlum vaxtarbroddum til fjölbreyttari atvinnuhátta, skipti máli.

Það skiptir máli, hæstv. forseti, að alþingismenn í fjárlaganefnd hafi þau viðhorf að ýta þurfi undir og hvetja fólk sem hefur hugmyndir og vill taka á málum. Fólk hefur miklar áhyggjur af framtíð sinni. Það endurspeglast í afkomu- og búsetuáhyggjum landsbyggðarfólks sem nú sér botnfiskveiðarnar, þorskveiðarnar sem lengst af hafa verið undirstaðan í festu í atvinnu sjávarbyggðanna vera að hrynja. Og sjómennirnir, sem eiga að stunda veiðarnar með því lagi sem lagt hefur verið upp með af stjórnvöldum, sjá á því mikla annmarka að geta nýtt þær heimildir sem þó er heimilt að nýta þegar þorskurinn er orðinn að meðafla og fiskiflotinn þarf að stefna til svokallaðra skrapveiða allan ársins hring, fara til veiða á allt öðrum tegundum en uppistöðutegundinni, þorski, sem hefur að jafnaði gefið okkur 40% af tekjum þjóðarinnar í sjávarútvegi, þarf að einbeita sér að öðrum tegundum. Þá er þorskurinn orðinn meðafli og jafnvel óþægilegur meðafli, hæstv. forseti. Ég heyri það á mörgum fiskimanninum að það sé varla hægt að stunda fiskveiðarnar með eðlilegum hætti vegna þess að menn fá meiri þorsk en þeir sækjast eftir.

Ég spyr: Er hægt að leggja eitthvert mat á slíkar fiskveiðar, geta fiskifræðingar lagt eitthvert mat á slíkar fiskveiðar sem eingöngu beinast að því að forðast þorskinn og losa sig jafnvel við hann að hluta fyrir borð ef hann er of smár, koma ekki með hann að landi, sækja ekki í hann, forðast hann? Geta fiskifræðingar lagt eitthvert mat á upplýsingar sem þannig eru til komnar í aflabókum skipstjórnarmanna um það hver þorskgengdin er á Íslandsmiðum? Ég segi nei. Það er akkúrat ekkert að marka slíkar upplýsingar um það hversu mikill þorskur er í hafinu við Ísland.

Þá er ég ekki að fullyrða, hæstv. forseti, að í hafinu við Ísland sé óþrjótandi þorskur sem við getum gengið í að eigin vali hver og einn. Til þess erum við með fiskveiðistjórnarkerfi en það kerfi hefur því miður ekki fært okkur nokkurn ávinning í yfir 20 ár. Það væri vissulega kominn tími til, burt séð frá því hvort við aðhyllumst kvótastýrðar fiskveiðar eða ekki, að setjast yfir það verk að skoða af hverju þetta árangursleysi stafar og hvernig við eigum að vinna til framtíðar á öðrum forsendum en við höfum gert á undanförnum árum. Ég held að það sé orðið meira en tímabært að fara í þá vinnu að endurskoða það og við í Frjálslynda flokknum höfum lagt til að það verði gert.

Hinar dreifðu byggðir hafa á undanförnum árum og áratugum byggt undirstöðu sína á því að geta sótt í þorskinn sem þær geta illa gert nú. Eftir því sem líður á fiskveiðiárið munu heimildirnar minnka hratt og þess vegna hef ég miklar áhyggjur af því að atvinnuleysi geti orðið mikið á landsbyggðinni og fólk fari að leita þaðan í burtu og það er nú ekki á bætandi, hæstv. forseti, að ýta undir þá þróun að fólki fækki á landsbyggðinni.

Við þingmenn Frjálslynda flokksins teljum að sú ákvörðun sem tekin var af stjórnvöldum sé vanhugsuð. Ég hef orðað það svo, hæstv. forseti, að hún sé vanhugsuð og sé að hluta til aðför að sjávarútvegsbyggðunum vegna þess að hún var ekki nauðsynleg. Það var ekki nauðsynlegt að fara í þessa aðgerð með þeim hætti sem gert var. Þess vegna er það vissulega með vilja gert við afgreiðslu fjárlaga við 2. umr. að fjárlaganefnd ýtir undir flest þau verkefni í dreifbýli sem sótt er um þó að fjöldi umsókna leiði að sjálfsögðu til þess að minna kemur í hlut margra en æskilegt væri. Þegar margir sækja í sama pottinn án þess að í hann sé bætt af stjórnvöldum verður minna til skiptanna þegar kemur að því að deila úr honum. Allt að einu skiptir það samt verulegu máli.

Ég þakka samstarfsfólki mínu í fjárlaganefnd og formanni og varaformanni fyrir að hafa tekið þá stefnu að ýta undir það að styrkja fólk til að vinna að hugmyndum sínum. Það skiptir máli hvernig unnið er með þessa safnliði og mér fundust vinnubrögðin í fjárlaganefnd á þessu hausti til mikilla bóta frá því sem áður var. Ég tel hins vegar að við eigum að geta gert enn betur með því að vinna við safnliðina fyrr á árinu og fara yfir umsóknir og skoða vel og meta hvað við höfum verið að gera á undanförnum árum og hvað hefur orðið til árangurs. Auðvitað næst ekki árangur af öllum verkum en mjög mörg skila árangri og mörg þeirra verða til þess að fólk finnur að vilji er til að styðja við viðleitni þess til að efla atvinnusköpun í byggðunum, hvort sem það snýr að menningarþáttum eða nýjum atvinnuhugmyndum á öðrum sviðum.

Ég fagna því þess vegna að þessi viðhorf hafa verið ríkjandi í fjárlaganefnd í haust. Í raun tel ég að við hefðum átt að hækka fjárveitingu safnliða meira eins og horfurnar eru í atvinnumálum landsbyggðarinnar, einkum sjávarútvegsbyggðanna, til að styðja við þær eins og frekast er hægt. Auðvitað unnum við, fjárlaganefndarfólk, samt í þeirri von að ýta undir vilja til verka svo að þeir sem kunna að skapa og vilja vinna að sínum verkefnum hefjist handa heima fyrir frekar en að flytja á þenslusvæðið á suðvesturhorninu. Þar tel ég að fjárlaganefnd hafi í heild tekið rétta stefnu og horft á málin út frá réttum forsendum eins og verkin bera með sér.

Hins vegar verð ég að segja, hæstv. forseti, að mér finnst ríkisstjórnin ekki vinna skipulega að því að efla landsbyggðina með ákvörðunum sem snúa að henni en ég vænti þess að á því geti orðið breyting, m.a. með þeim áhrifum sem fjárlaganefnd getur haft á fjárlagagerðina á komandi árum. Ég segi þetta vegna þess að ég er algjörlega ósammála þeim harða niðurskurði m.a. í þorskveiðum sem stjórnvöld hafa farið í. Hann er óþarfur og ég tel að menn geti alls ekki verið stoltir af þeirri ákvörðun eins og mér finnst sjávarútvegsráðherra vera. Ég hlustaði á ræðu hans í morgun á þingi Farmanna- og fiskimannasambandsins þar sem mér fannst hann nánast vera stoltur af þessum verkum sínum. Undir það get ég alls ekki tekið, hæstv. forseti.

Ég tel að margir stjórnarliðar í fjárlaganefnd sjái hættuna sem steðjar að byggðinni verði aukinn fólksflótti af landsbyggðinni til Reykjavíkursvæðisins. Ég tel að menn vilji vel í þessum efnum en fái e.t.v. of litlu ráðið.

Ég tel að hæstv. sjávarútvegsráðherra, sem forustumenn ríkisstjórnarinnar fengu til að fara í verkið með þeim hætti m.a. sem reyndin hefur orðið, sýni í raun að ráðherrann hefur ekki nægan vilja og ekki nægan kjark. Ég segi þetta alveg hreinskilnislega, hæstv. forseti. Hæstv. sjávarútvegsráðherra má gjarnan vera harðari í þeirri afstöðu sinni, vænti ég, að vilja halda landsbyggðinni í byggð og tryggja búsetu fólks á landsbyggðinni. Auðvitað væri hægt að vitna til gamalla orða og ræðna hæstv. sjávarútvegsráðherra í þinginu um það hvernig áður var talað, t.d. á árunum 2001 og 2002. En ég segi bara eins og er að mér finnst þetta mjög misráðið. Ég get ekki talað neinni tæpitungu um það, hæstv. forseti. Ég er ósammála hæstv. sjávarútvegsráðherra um þær áherslur sem hann hefur lagt upp og tel að verið sé að taka allt of mikla áhættu með byggðirnar og án þess að neinar líffræðilegar forsendur séu fyrir hruni í þorskstofninum.

Hæstv. forseti. Ég er búinn að tala lengur í þessari umræðu en ég ætlaði mér en það er stundum svo þegar maður fer af stað að þá er um margt að tala. Ég vil þó víkja að einu máli sem ég tel að skipti landsbyggðina miklu og það er raforkuverðið. Þróun raforkuverðs á undanförnum árum, sérstaklega fyrir hinar dreifðu byggðir, hefur verið mjög neikvæð. Því miður hefur hún þróast svo að meðalverð á þeim 85% raforkunnar sem fara til húshitunar á landsbyggðinni hefur hækkað um 25%. Það má sjá í skýrslu sem var unnin í júní 2007 þar sem skoðaður er ávinningur af aðgerðum stjórnvalda til að lækka kostnað við hitun íbúðarhúsnæðis.

Þetta er bara staðreynd, hæstv. forseti, og nú þegar sverfur að landsbyggðinni með kannski slakari tekjumöguleikum og afkomu en verið hefur, þá er þetta einn af þeim þáttum sem ríkisvaldið getur beitt sér í, að taka upp meiri niðurgreiðslur á húshitun til fólks þannig að það búi við sambærilega lífshætti og sambærilegan kostnað og þeir sem búa á þokkalegum hitaveitusvæðum þótt kannski sé ekki verið að ætlast til að farið sé niður í heimilisorkuverð á þeim svæðum landsins sem hafa ódýrasta hitaveitu.

Það er greinilegt að málin hafa þróast á þessa leið í raforkuverðinu. Við bentum á það í umræðu um raforkufrumvarpið á sínum tíma, ég og fleiri, að þetta ynni gegn hagsmunum landsbyggðarfólksins. Ég minni á að sá sem hér stendur og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fluttu breytingartillögu við raforkulögin um að gildistöku þeirra yrði frestað um ár til þess einmitt að skoða hvaða kostnaður mundi fylgja raforkuverðslagabreytingunni fyrir kaupendur raforkunnar. Við töldum þá að þetta yrði til mikils kostnaðarauka fyrir byggðirnar, einkum hinar dreifðari, og það hefur því miður gengið eftir. Það skortir á að þarna sé tekið á málum. Ég minni á þetta, hæstv. forseti, þegar verið er að tala um stöðu fólks á landsbyggðinni að því er varðar búsetumál og atvinnuhætti.

Það má líka benda á að fjármuni vantar til að framkvæma leit að jarðvarma á köldum svæðum, það kom fram í svari sem við fengum á Alþingi í minnisblaði frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu um stöðu niðurgreiðslna í október 2007. Þar segir um áætlun varðandi köld svæði, með leyfi forseta: „Ljóst er að ekki er hægt að verða við ýtrustu óskum vegna stofnstyrkja til nýrra hitaveitna en ógreiddar eru frá árinu 2006 67 millj. kr. og áætlun fyrir árið 2007 hljóðar upp á 130 millj. kr. eða samtals 197 millj. kr.“

Alls vantar um 130 millj. kr. til að hægt sé að koma til móts við ýtrustu óskir í þessu sambandi en við megum ekki gleyma því, hæstv. forseti, að takist okkur að koma á hitaveitu, finna heitt vatn til að kynda byggðirnar í stað þess að nota aðra orkugjafa, erum við að stofna til mikils sparnaðar til framtíðar. Ég bendi stjórnvöldum á að þarna má taka á að því er varðar þennan þátt.

Þá má benda á, og við höfum einnig fengið um það skýrslur og ábendingar, að það tekur verulega í bæði hjá sveitarstjórnum og hafnarsjóðum, vegna minnkandi tekna þar. Hafnasamband sveitarfélaga bendir á að það vanti verulegan stuðning til þess að betur megi fara en stefnir í. Í skýrslu sem okkur barst frá Hafnasambandi Íslands, 23. nóvember segir, og vitna ég bara í stutta efnisþætti, með leyfi forseta:

„Þess vegna er því beint til samgönguráðherra og fjármálaráðherra að taka sérstaklega til skoðunar mótvægisaðgerðir til að lina þrautir þeirra hafnarsjóða sem verst eru settir. Auk þessarar umræðu um fjárhagsstöðu hafna þá er einnig ástæða til að nefna þá tilhneigingu ríkisins að flytja verkefni og ábyrgðir á herðar íslenskum höfnum án þess að hirða um kostnaðarauka þeirra. Má tilgreina þrjú augljós dæmi.“ — Eru þau hér í skýrslunni og ég ætla ekki að lesa þau en þetta er auðvitað eitthvað sem þingmenn þekkja og ættu að vita og er ástæða til að huga sérstaklega að.

Ég vil einnig benda á, hæstv. forseti, að það sem gert var til að létta á útgerðinni að því er varðar auðlindagjald, að fella niður 275 millj. sem tengdust eingöngu auðlindagjaldinu af þorskaflanum, er kallað mótvægisaðgerð til að létta á útgerðinni. Vissulega er rétt að það munar um það hvort menn þurfa að greiða 275 millj. eða ekki, en hinu er ekki að leyna að útfærslan á veiðigjaldinu er þannig að það er fundið út miðað við afkomu síðasta árs en ekki þessa árs eða næsta. Þegar menn reikna út þá stöðu og leggja það á útgerðina núna kemur í ljós að gjaldtakan varðandi auðlindagjaldið, þrátt fyrir þennan afslátt, er samt 70% hærri en hún var í fyrra. Þetta er nákvæmlega sama dæmið og við höfðum meðan við vorum með eftirágreiddan tekjuskatt.

Ég var á síld 1967 með þokkalegar tekjur en 1968 dugðu tekjurnar ekki til að borga skattana. Það var svoleiðis. (KHG: Þú hefur verið ungur þá.) Já, ég var ungur þá og hýr á brá eins og þar stendur. En útfærslan á auðlindagjaldinu er arfavitlaus, hæstv. forseti. Það er rangt að vera með svona útfærslu í stað þess að láta menn greiða af tekjunum á hverju ári. Það er ekkert flókið að gera það í svona útfærslu. Það var gert meðan handfærabátarnir voru utan kvóta, þá var tekið hlutfall af verðmæti landaðs afla og það er auðvitað hægt hjá öllum íslenska flotanum. Ég vek athygli á því að þrátt fyrir að auðlindagjaldið hafi verið lækkað um 275 millj. hefur það samt hækkað að raungildi milli ára sem nemur verulegum upphæðum. Og spyrja má, með tilliti til þess sem ég vitnaði í áðan varðandi hafnir og sveitarsjóði, hvort ekki hefði verið rétt að láta auðlindagjaldið renna til hafnar- og sveitarsjóða. Það væri þá verið að bæta inn í tekjurnar í þeim plássum sem hafa orðið að sæta niðurskurði.

Að lokum langar mig að víkja örlítið að samgöngumálum. Ég er ekki einn af þeim sem tala mikið fyrir því að draga úr samgöngubótum. Þvert á móti hef ég talað fyrir því árum saman að efla samgöngurnar og hef stundum orðað það svo að það væri kominn tími til að Íslendingar kæmust í sambærilegt samgönguumhverfi hvað varðar þjóðvegi og aðrar þjóðir. Við höfum oft lagt það til í Frjálslynda flokknum og það var samþykkt á síðastliðnu vori. Ég vek athygli á því, hv. þingmenn og hæstv. forseti, að samþykkt var tillaga frá Frjálslynda flokknum um að efla jarðgangagerð með það að markmiði að stytta vegalengdir og taka upp öruggari vegi um landið. Við bentum á í þeirri þingsályktun sem samþykkt var að gera þyrfti 14 jarðgöng á Íslandi til þess að allir þjóðvegir landsins sem notaðir eru í dag allan ársins hring, og þá er ég ekki að tala um hálendisvegina, væru komnir niður fyrir 200 metra hæð yfir sjó. Því miður hefur ekki farin sú leið að velja þær áherslur, við erum enn að fara yfir fjöllin, hæstv. forseti, þó að vissulega sé verið að vinna að jarðgangagerð.

Ég hef oft spurt þeirrar spurningar án þess að fá nokkurt svar, einkanlega þegar skornar voru niður framkvæmdir í samgöngumálum fyrir tveimur árum síðan vegna þenslu. Þegar skorið var niður á landsvæðum þar sem engin þensla var til að slá á þenslu þar sem hún var. Skorið niður þar sem mest þurfti á framkvæmdum að halda til að lækka þensluna eða draga hana niður á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er einhver vitlausasta aðgerð, hæstv. forseti, sem ég veit til að gerð hafi verið.

Ég hef oft spurt í því sambandi: Hvernig mæla menn þensluþáttinn af því þegar 30 karlar vinna við að gera holu í gegnum fjall? Vill einhver vera svo góður að skýra það út fyrir mér? (Gripið fram í.) Var að koma sjálfboðaliði til þess, hv. þm. Guðni Ágústsson. Ég vænti þess þá ef svo er, ég þigg þekkinguna hvaðan sem hún kemur.

Hæstv. forseti. Ég er að tala í alvöru. Þetta er alveg makalaust. Við skulum bara spyrja okkur núna þegar verið er að vinna annars vegar Ólafsfjarðarmegin og hins vegar Siglufjarðarmegin, með tvo hópa fólks sem eru að gera jarðgöng, Héðinsfjarðargöngin, til að tengja saman byggðirnar. Hversu mikilli verðbólgu valda þessir hópar á Íslandi? Ef ég veit rétt er megnið af þeim verkamönnum sem þarna vinna erlendir verkamenn. Ég held að launin þeirra fari að mestu leyti úr landi. Ég spurði líka þegar menn tóku ákvörðun um að gera göng undir Almannaskarð á sínum tíma, hvað menn héldu að þeir 2 kílómetrar yllu mikilli verðbólgu á Íslandi, að gera þá holu. Það fékkst auðvitað ekkert svar við því.

Þegar við förum í arðsamar framkvæmdir eins og vegagerð í þessu tilfelli þar sem við stefnum að því að fá varanlegar samgöngulausnir þá fækkar slysum, dauðaslysum fækkar. Við höfum dæmin úr Hvalfirði, við höfum dæmin úr Vestfjarðagöngunum. Það er ekki lengur orðin spurning vestur á Ísafirði í desembermánuði, sem er á næsta leyti, hvort menn þurfi að fljúga til Reykjavíkur til að fara í kaffi á Flateyri eins og áður var. Nú setjast menn einfaldlega upp í bílinn og eru löngu hættir að velta því fyrir sér hvor ófært sé á milli Flateyrar og Ísafjarðar enda er ekki ófært. Menn bara keyra og fara í kaffi og spjall og njóta návistar og menningar og þjónustu hver hjá öðrum. Ég tala fyrir því, hæstv. forseti, alveg blákalt, og við höfum lagt það til í stefnumótun okkar í Frjálslynda flokknum að menn setji í gírinn að þessu leyti. Það muni færa okkur mikinn arð og ábata í framtíðinni.

Hæstv. forseti. Ég vil að lokum þakka fyrir vinnuna í fjárlaganefnd. Ég lýsi því yfir fyrir mína hönd að ég fagna vinnubrögðum og áherslum sem þar hefur verið lýst af forustumönnum nefndarinnar, formanni og varaformanni, og vænti þess að þegar á komandi vetri, eftir áramót, tökum við til hendi í nefndinni við að skipuleggja vinnubrögðin upp á nýtt, vinna þar öðruvísi okkur öllum og þjóðinni til heilla og framdráttar og ég mun leggja mitt lóð á vogarskálarnar í því.