135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[18:46]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég mundi gjarnan þiggja slíkar upplýsingar sem fyrst. Við erum hér með tvo myndlistaskóla sem taka á sig umtalsverðan kostnað vegna nemenda á listnámsbrautum framhaldsskólanna. Framhaldsskólarnir fá um það bil þriðjungi meira fyrir hvern nema í myndlist en myndlistaskólarnir tveir sem um ræðir. Ég krefst þess að hv. fjárlaganefnd sé málefnaleg í hækkunum til skólanna og þeir fái hækkun sem nemur þeim kostnaði sem þeir leggja fram, og horft sé á mismuninn á þeim framlögum sem framhaldsskólarnir fá annars vegar og hins vegar umræddir myndlistaskólar.

Mig langaði að ræða við hv. þingmann um skiptingu safnliða og spyrja hvers vegna ekki hafi verið staðið við samkomulagið, sem ég tel að gert hafi verið við formenn nefndanna, um að nefndirnar yrðu með í ráðum á enda, þ.e. til (Forseti hringir.) lokaúthlutunarinnar. Í ljós kemur hér að fjárlaganefnd úthlutar til verkefna sem fagnefndirnar fengu aldrei að sjá.