135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[18:54]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni þessar hugleiðingar og hlý orð í garð félaga í hv. fjárlaganefnd. Beinu spurningarnar til mín lutu að háskóla á Ísafirði. Síst skal standa á mér að taka undir allar hugmyndir um að auka möguleika fólks á þessum svæðum til að bæta menntun sína. Ég er tilbúinn til að ræða allar góðar hugmyndir í þá veru, hvort heldur það er háskóli eða eitthvað annað. Ég vil ræða hugmyndir af því tagi og er tilbúinn til þess hvað svo sem kemur út úr því.

Hv. þingmaður nefndi framhaldsskólana. Það er ljóst, og er eitt af þeim atriðum sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir spurði um áðan, að í fjárlagafrumvarpinu er verið að veita töluvert mikla fjármuni til viðbótar og ekki síður í tillögum meiri hlutans. Það er hluti af þeim eina og hálfa milljarði sem hv. þingmaður spurði um áðan.