135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[18:59]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir að upplýsa okkur um þetta og fagna stórbættri þjónustu. Það var sannarlega mikilvægt að bæta úr henni. Sem formaður umhverfisnefndar þingsins vil ég líka fá að þakka hv. fjárlaganefnd fyrir afgreiðslu mála varðandi þjóðgarðinn á Snæfellsnesi. Það er ákaflega mikilvægt að við ráðumst í þá uppbyggingu sem þar er fyrirhuguð. Við höfum á undanförnum árum verið að friðlýsa og gera að þjóðgörðum ýmis svæði út um landið án þess að því hafi fylgt fjármagn, framkvæmdir og uppbygging. Ef sátt á að vera um að friðlýsa helstu náttúruperlur landsins verður fólkið sem þar býr að finna að alvara fylgi af hálfu þingsins með fjármunum, framkvæmdum og uppbyggingu á þjónustu og starfsemi.

Ég vil að lokum vekja athygli á 100 millj. kr. framlagi vegna skerðingar lífeyrissjóðanna á greiðslum til öryrkja. Það er kostnaðarauki sem Tryggingastofnun verður fyrir vegna tekjutenginga hjá lífeyrissjóðunum. (Forseti hringir.) Hæstv. félagsmálaráðherra hefur boðið lífeyrissjóðunum að fá þessa peninga beint gegn því að þeir hætti við að (Forseti hringir.) skerða greiðslur til öryrkja. Við hljótum að harma að lífeyrissjóðirnir hafi í dag hafnað því góða boði.