135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[21:45]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi það að tillögurnar hafi ekki verið lagðar fram í fjárlaganefnd þá man ég nú ekki til þess að það hafi endilega verið venjan. Ég held að oftast hafi gangur mála verið sá að stjórnarandstaðan bíði eftir því að breytingartillögur meiri hluta líti dagsins ljós. Þá fyrst getur hún tekið mið af því hvaða málaflokkar fá viðunandi úrlausn í fjárlagafrumvarpinu eftir atvikum og svo hins vegar í breytingartillögum meiri hlutans og stillir tillögugerð sína af miðað við það.

Fjárlagafrumvarpið er manifesto ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna í efnahagsmálum og þeirra sýn á ríkisfjármálin. Stjórnarandstaðan kemur þá með sína sýn, sínar breytingar eftir atvikum, sem breytingartillögur og nefndarálit við 2. umr. Fjárlagafrumvarpið er ekki lagt fram í stjórnarandstöðunni áður en það er flutt og ég veit ekki hvort endilega er ástæða til á móti að stjórnarandstaðan, frekar en henni sýnist svo, flytji breytingartillögur sínar sem hún lokar örfáum klukkutímum fyrir 2. umr. fjárlaga þegar breytingartillögur meiri hlutans liggja fyrir.

Að sjálfsögðu hafa nefndarmenn stjórnarandstöðunnar, geri ég fastlega ráð fyrir, flutt áherslur sínar inn í starfi nefndarinnar og reynt að beita sér þar fyrir ýmsum breytingum og tillögum og vonandi haft einhvern árangur. Ég hef áður sagt, í umræðum í gær og í dag, að sú hafi verið tíðin að breytingartillögur fjárlaganefndar hafi oft og tíðum verið í þó nokkrum mæli sameiginlegar. Menn unnu saman um það sem þeir náðu saman um og fluttu heilmiklar breytingartillögur sem sameiginlegar tillögur nefndarinnar allrar. Svo skildi leiðir. Gjarnan þegar kom að stóru tölunum, þ.e. skattahliðinni, tekjuhliðinni og einhverjum stórum útgjaldapóstum.

En ég tel að tillögur okkar séu ábyrgar og þær eru í jafnvægi. Við leggjum til um það bil sambærilega tekjuöflun og sparnað og við leggjum til í útgjöld. Ég held að hv. þingmaður geti ekki annað en viðurkennt það og er vonandi sáttur við það. (Forseti hringir.)